Hækkandi fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði

Talsverð umræða hefur farið fram um rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi, sérstaklega útflutningsfyrirtækja í ljósi sterks gengis krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum Íslands. Á sama tíma og krónan hefur styrkst verulega hefur hækkun fasteignaverðs á landinu haft áhrif til hækkunar á fasteignagjöldum á atvinnuhúsnæði. 

Samkvæmt tölum frá Fasteignamati ríkisins hækkaði matsverð atvinnuhúsa og atvinnulóða á höfuðborgarsvæðinu (Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ, Bessastaðahreppi, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ) um nálega fjórðung frá árinu 2002 til ársins 2004 og miðað við ganginn á fasteignamarkaði má búast við að álögur ársins 2005 muni verða til a.m.k. fimmtungs viðbótarhækkunar þegar tilkynnt verður um framreikning á fasteignamati fyrir árið 2005. 

Viðskiptaráð áréttar að engin rök hníga að því að hækkandi fasteignaverð eigi sjálfkrafa að leiða til breikkunar á skattstofnum sveitarfélaga. Hækkandi fasteignaverð er öðrum þáttum fremur afsprengi formbreytingar við fjármögnun fasteigna og slík breyting kallar á endurskoðun kerfis um fasteignagjöld – enda með öllu óeðlilegt að álögur á fyrirtæki vegna fasteignagjalda vaxi um tugi prósenta á örfáum árum. 

Enda þótt fasteignamat á atvinnuhúsnæði fyrirtækja hafi hækkað verulega skilar sú hækkun sér ekki í auknum tekjum til fyrirtækja sem verða hins vegar fyrir umtalsverðum kostnaðarauka vegna hækkandi fasteignamats sem myndar grunn fyrir fasteignagjöld sveitarfélaga. 

Félagsmenn Viðskiptaráðs hafa að undanförnu bent á að ýmis gjöld og álögur hafi farið hækkandi. Viðskiptaráð lýsir áhyggjum yfir vaxandi álögum á fyrirtæki í landinu og hvetur sveitarfélög í landinu eindregið til að grípa þegar í stað í taumana og lækka fasteignaskatta verulega – að minnsta kosti um það hlutfall sem skattstofninn hefur breikkað á síðustu árum vegna hækkandi verðs á atvinnuhúsnæði.

Tengt efni

Umsagnir

Gölluð og óljós leið hlutdeildarlána

Markmið frumvarps um hlutdeildarlán eru góð en leiðin að þeim er ekki líkleg til ...
22. jún 2020
Fréttir

Hækkandi fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði

Talsverð umræða hefur farið fram um rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi, ...
30. nóv 2005
Greinar

Sveitarfélög kleinan í kjaraviðræðum

Spjótum er beint að atvinnurekendum og hinu opinbera en minna hefur farið fyrir ...
15. okt 2018