Útgjöld umfram heimildir of algeng hjá ríkinu

Ríkisendurskoðun þurfti enn einu sinni að benda á mikilvægi þess að fjárlög séu virt, í skýrslu sem stofnunin gaf út í dag. Það nær ekki nokkurri átt að meira en fjórðungur fjárlagaliða fari fram úr heimildum en það eru alls um 9 milljarðar sem eru um 3% af heildarútgjöldum ríkisins.

Fjárlög eru ekki eins og hver önnur fjárhagsáætlun fyrirtækis heldur lög, eins og nafnið gefur til kynna. Það segir berum orðum í 41. gr. stjórnarskrárinnar að ekkert gjald megi greiða úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum. Það sér enginn framtíðina fyrir og það geta alltaf komið upp óvæntir atburðir sem kalla á aukin útgjöld, en lífið er ekki það óútreiknanlegt að það skýri hvers vegna rúmlega fjórðungur fjárlagaliða fer fram úr heimildum.

Þegar stofnun fer fram úr heimildum ætti að gefa viðkomandi forstöðumanni færi á að skýra ástæður þess. Ef þær eru ekki viðhlítandi ætti að skoða hvort ekki sé rétt að beita þeim heimildum sem þegar eru fyrir í lögum, til dæmis með því að áminna þá sem ábyrgðina bera. Það verður að hafa afleiðingar í för með sér að menn brjóti fjárlög, eins og önnur lög, einkum þegar menn eru að eyða annarra manna peningum.

Skýrslu Ríkisendurskoðunar má nálgast hér.

Tengt efni

Ótakmarkaðir möguleikar

Þegar þetta er ritað eru fleiri atvinnulausir en sem nemur öllum íbúum Akureyrar ...
16. des 2020

Hálendisþjóðgarður þarfnast betri undirbúnings

Viðskiptaráð getur ekki stutt Hálendisþjóðagarð í óbreyttri mynd og leggur til ...
3. feb 2021

Þrjár skattahækkanir á móti hverri lækkun

Frá árinu 2007 hafa skattahækkanir á hverju ári verið fleiri en skattalækkanir.
24. feb 2021