Hagstjórnarvandinn - fjölmennur og líflegur fundur

Vel á annað hunrað manns mættu á morgunverðarfund Viðskiptaráðs á Hótel Sögu nú í morgun. Þar fór Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, yfir stöðu efnahagsmála í tilefni af útgáfu Peningamála. Yfirskrift fundarins var “Hagstjórnarvandinn – horft til framtíðar”. Tryggvi Þór Herbertsson forstöðumaður Hagfræðistofnunar HÍ stýrði fundinum og í panel sátu Edda Rós Karlsdóttir forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, Ingólfur Bender forstöðumaður greiningardeildar Glitnis, Þóra Helgadóttir hagfræðingur hjá greiningardeild KB banka og Þórarin G. Pétursson hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands.

 

Fundinn setti Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista og formaður Viðskiptaráðs.


Í erindi sínu benti Davíð Oddsson á að ákvörðun Seðlabanka Íslands um að hækka ekki vexti, nú á fimmtudaginn var, bæri ekki að túlka sem lok vaxtahækkunarferilsins. Með því að halda vöxtum óbreyttum um sinn og ákveða nýjan vaxtaákvörðunardag núna í desember, væri bankinn að skapa sér svigrúm til endurmeta stöðuna að þeim tíma loknum. Forsendur hefðu breyst mikið frá síðustu hækkunum, en líklegt væri að þeir þættur ættu frekar við til skamms tíma frekar en langs tíma. Gengisstyrking og lækkandi orkuverð hefði slegið á þann mikla þrýsting sem var til staðar en lítið hefði breyst í undirliggjandi þáttum hagkerfisins. Þó væru ákveðnir þættir sem gæfu ástæðu til aukinnar bjartsýni til lengri tíma litið, eins og vægari launahækkanir og skrið í kjölfar kjarasamninga haustsins.


Panelumræður bárust víða en auk þess að gefa sitt innlegg á stöðu efnahagslífsins svöruðu fulltrúar bankanna spurningum úr sal. Meðal þess sem bar á góma var rýmkun á verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, viðvarandi viðskiptahalli og áhætta af útgáfu erlendra skuldabréfa í innlendri mynt.


Ræðumenn voru sammála um að lausnin fælist alls ekki í rýmkun á verðbólgumarkmiðum Seðlabankans enda fælist frekar uppgjöf en lausn í þeim aðgerðum. Þórarin kvað sérstaklega fast að orði og taldi slíka umræðu beinlínis hættulega og slíkt myndi leiða til sjálfseyðingar trúverðugleika Seðlabankans. Flestir voru á þeirri skoðun að það komi til með að réttast úr viðskiptahallanum, spurningin sé aðeins hvort það gerist með gengis- eða eftirspurnaraðlögun. Að sama skapi voru fulltrúar bankanna sammála um að jafnvel þó erlent fjárstreymi setji peningahagstjórn Seðlabankans ákveðnar skorður sé um nauðsynlegan þátt í frjálsu hagkerfi að ræða.

Tengt efni

Lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
21. mar 2023

Nauðsynlegt er að tryggja samkeppnishæfan vinnumarkað

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ...
15. mar 2023

Vel heppnað Viðskiptaþing 2022

Húsfyllir var á vel heppnuðu Viðskiptaþingi 2022 sem Viðskiptaráð stóð fyrir á ...
25. maí 2022