Jólaferð Viðskiptaráðs Íslands til Kaupmannahafnar

Viðskiptaráð vill koma þökkum á framfæri til allra þátttakenda sem og gestgjafa í jólaferð ráðsins til Kaupmannahafnar nú í síðustu viku. Um afar ánægjulega og fróðlega ferð var að ræða þar sem fólki gafst færi á að skyggnast inn í viðskiptalíf Íslendinga í Danmörku.

Ferðin hófst á miðvikudag í síðustu viku og sneru flestir til baka á laugardagseftirmiðdegi. Heimsótt var þvottakaffihús Friðriks Weishappel, Laundrymat, þá um kvöldið, þar sem boðið var upp á víðfræga fiskisúpu. Í tilefni af heimsókninni samdi Friðrik drápu sem við birtum í heild sinni hér fyrir neðan.

Dagsskráin var þéttsetin á fimmtudeginum en þá var byrjað á að heimsækja höfuðstöðvar Nyhedsavisen. Ljóst er að þar hefur ekki verið setið auðum höndum en Svenn Dam, forstjóri blaðsins, fór yfir stöðu mála. Næst á dagskrá var heimsókn í nýjar skrifstofur FL Group í Danmörku. Þar tóku Martin Niclasen, framkvæmdastjóri, og Kristján Kristjánsson, yfirmaður almannatengsla, á móti gestum.

Síðari hluta dags var tekið hús á sendiráði Íslands þar sem Svavar Gestsson, sendiherra, tók vel á móti löndum sínum. Næst á dagskrá var heimsókn í Magasin Du Nord, en þar tók Jón Björnsson, forstjóri, á móti hópnum. Að lokum bauð Baugur Group til kvöldverðar á Café Victor eftir stutta kynningu á landtökum félagsins.

Á föstudagsmorgun var danski armur Kaupþings banka heimsóttur, FIH Bank, þar sem Lars Johansen, forstjóri FIH, og Sigurður Einarsson, stjórnarformaður, tóku á móti gestum. Að lokum var haldið í danskan julefrokost í Oslóarferju sem var í boði heiðursmeðlims í Dansk-íslenska Viðskiptaráðsins, Per Nörregard.

Ljóst er að vel tókst til og var ekki annað að sjá en bæði gestir og gestgjafar hafi haft af þessu góða skemmtun og gagnsemi. Viðskiptaráð og Dansk-íslenska viðskiptaráðið þakka öllum þeim fyrirtækjum sem heimsótt voru enda allar móttökur til fyrirmyndar.

Viðskiptaríma Friðriks:

Íslenskir hagsmunir aukast og eflast
Í mótvindi fjölmiðla pússast og heflast
Danirnir reyna að höggva og skera
Hrópa og neita blöð út að bera

Þeir kunna að plana en við að gera

Landinn er glöggur, snöggur og hress
Lendir, kaupir og segir bless
Bara slakir, allt í þessu fína
Daninn er enn í tölur að rýna

Á meðan tökum við Kína

Víkingar með viðskiptagen
Keyptum Bang og Olufssen
Sterling, Maersk, Royal og annað
Allt mögulegt, ekkert bannað

Höllin til sölu? Það verður kannað

Gaman að sjá ykkur hér
Enda besta súpan hjá mér
Brátt verður hægt með höndum fúsum
Að borða, lesa og lyfta krúsum

Á miklu fleiri þvottahúsum

Tengt efni

Viðskiptaráð í heimsókn til Nox Medical

Nox Medical er leiðandi hátæknifyrirtæki á heimsvísu í þróun og framleiðslu á ...
9. okt 2023

Viðskiptaráð kynnti áherslur sínar á kosningafundi í morgun

Viðskiptaráð Íslands bauð fulltrúum stjórnmálaflokka til fundar og þáðu ...
15. sep 2021

Kjósendur eru skarpari en stjórnmálamenn

Miðað við staðreyndapróf Viðskiptaráðs eru kjósendur skarpari en stjórnmálamenn, ...
23. sep 2021