Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, afhenti námsstyrki Viðskiptaráðs á árlegu Viðskiptaþingi sem haldið var á Nordica hóteli í dag. Það er löng hefð fyrir því á Viðskiptaþingi að veita styrki úr námssjóði Viðskiptaráðs. Undanfarin ár hefur þremur efnilegum námsmönnum verið veittur styrkur. Félagar Viðskiptaráðs innan upplýsingatæknigeirans veita námsstyrk úr sérstökum námssjóði ráðsins um upplýsingatækni sem er starfræktur samhliða hinum eldri sjóði. Styrkirnir eru veittir námsmönnum í framhaldsnámi á háskólastigi í greinum sem tengjast atvinnulífinu með beinum hætti, þar af er einn styrkurinn sérstaklega ætlaður námsmanni á sviði upplýsingatækni. Styrkirnir eru fjórir að þessu sinni og hver að upphæð kr. 300.000.-
Það bárust 27 umsóknir í ár og eru það fleiri umsóknir en undanfarin ár. Framkvæmdastjórn Viðskiptaráðs valdi þrjá umsækjendur, en framkvæmdastjórnina skipa Erlendur Hjaltason forstjóri Exista sem er formaður, Katrín Pétursdóttir forstjóri Lýsis sem er varaformaður, Þór Sigfússon forstjóri Sjóvá, Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair og Kristín Jóhannesdóttir stjórnarmaður í Baugi. Ráðgjafanefnd námssjóðs um upplýsingatækni, skipuð þeim Gylfa Árnasyni forstjóra Opinna kerfa, Jón Viggó Gunnarssyni forstjóra EJS og Þórði Sverrissyni forstjóra Nýherja, réði vali við styrkveitingu á sviði upplýsingatækni.
Margir umsækjanda hefðu verið vel að þessum styrkjum komnir. Það varð þó niðurstaðan að eftirtaldir myndu hljóta styrkina:
Ásta Dís Óladóttir er fædd árið 1972 og stundar doktorsnám í alþjóðaviðskiptum við CBS, Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. Nám hennar snýst um að rannsaka hvernig auka megi líkurnar á því að yfirtökur íslenskra fyrirtækja erlendis verði árangursríkar. Rannsóknir Ástu voru meðal annars nýttar í skýrsluna um framrás Íslands sem gefin er út í tilefni af þessu þingi. Ásta lauk B.A. gráðu í félagsfræði frá HÍ 1999 og M.S. gráðu í viðskiptafræði frá sama skóla árið 2001. Hún er búsett í Kaupmannahöfn.
Úlf Viðar Níelsson er fæddur árið 1979 og stundar doktorsnám í hagfræði við Columbia háskóla. Hann sérhæfir sig í fjármálum og alþjóðahagfræði í náminu. Úlf lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1999, B.S. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 2002, M.S. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 2003 og Mphil í fjármálahagfræði frá Cambridge háskóla 2004. Hann er búsettur í New York.
Viðar Lúðvíksson er fæddur árið 1972 og stundar meistaranám í stjórnarháttum fyrirtækja við lagadeild Stanford háskóla. Viðar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1991 og lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1997. Hann hlaut réttindi til að starfa sem hæstaréttarlögmaður í janúar 2004 og varð með því næst yngsti maðurinn í sögunni til að hljóta slík réttindi. Viðar býr í Stanford ásamt Borghildi, eiginkonu sinni, og þremur börnum, þeim Arnhildi, Viðari og Hildi.
Jón Örn Guðbjartsson er fæddur árið 1962 og stundar MBA nám við Viðskiptaháskóla Barcelona með áherslu á viðskipti á internetinu. Áhugi hans á viðskiptum á internetinu helgast af þeim gríðarlegu möguleikum sem þar eru vannýttir til sóknar fyrir íslensk fyrirtæki. Jón Örn lauk B.A. prófi í íslensku frá Háskóla Íslands árið 1985 og M.A. prófi í íslenskum bókmenntum frá sama skóla árið 2000. Jón Örn býr í Barcelona ásamt eiginkonu sinni Rut Gunnarsdóttur lögfræðingi. Hann á fjögur börn.