Hvernig verður Ísland best í heimi?

Viðskiptaráð verður 90 ára á þessu ári, en frá upphafi hefur ráðið lagt sig í framkróka um að vera í fararbroddi nýrra hugmynda um umhverfi atvinnulífsins.  Á Viðskiptaþingi í dag kynnti Halla Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, nýja stefnuskrá þar sem fjallað er um helstu skilyrði sem þurfa að vera til staðar svo Ísland verði best í heimi. Stefnuskráin er hér að neðan.

BESTA VIÐSKIPTAUMHVERFI Í HEIMI
- Langtímaátak í ímyndarmálum
Stjórnvöld og viðskiptalífið vinni að langtímauppbyggingu ímyndar Íslands.  Aðgerðir verði samhæfðar og fjármunum ráðstafað markvisst í takt við skýra stefnu.
- Flatir og lágir skattar
Tekjuskattur einstaklinga og fyrirtækja og virðisaukaskattur verði samræmdir í einn lágan og flatan skatt án undanþága. Tollar, vörugjöld og sértækir skattar verði afnumdir.  Skattaumhverfi verði aldrei verra en best gerist í samkeppnislöndum okkar. 
- Land frumkvöðla
Stjórnvöld setji sér það markmið að Ísland verði kjörland frumkvöðla og tryggi þannig atvinnusköpun til framtíðar.
-    Sjálfsprottnar reglur
Höftum og íþyngjandi reglum verði aflétt af öllum atvinnuvegum og viðskiptalífinu verði í auknum mæli gefinn kostur á að setja sér sjálft reglur.

BESTA MENNTUN Í HEIMI
- Valfrelsi og samkeppni
Einkaaðilar taki við rekstri menntastofnana, en ríkið haldi áfram að fjármagna menntun á leik-, grunn og framhaldsskólastigi.  Rannsóknarfjármagni verði í auknum mæli veitt í samkeppnissjóði.
- Tungumála- og menningarlæsi
Enska verði kennd samhliða íslensku frá 5 ára aldri og námsframboð á ensku stóraukið. Önnur tungumál verði valkvæð, en enginn útskrifist úr framhaldsskóla án færni í að minnsta kosti þremur tungumálum.  Kennsla í samskiptum á milli menningarheima verði stórefld á öllum skólastigum.
- Sköpun og frumkvæði
Ýtt verði undir sköpun og frumkvæði á öllum skólastigum. List-, verk- og bóknám verði samþætt og gert jafn hátt undir höfði.  Frá fyrsta skólastigi verði börn frædd um sköpun og frumkvöðlastarfsemi. 
- Bestu skólar hérlendis sem erlendis
Ísland laði afburðarnemendur og fræðimenn til landsins en hvetji jafnframt Íslendinga til að sækja áfram og í auknum mæli í háskólanám í bestu skólum heims, bæði vestanhafs og austan.

BESTA STJÓRNSÝSLA Í HEIMI
- Umhverfi til atvinnusköpunar
Ekki verði ráðist í beina atvinnusköpun af hálfu ríkisins, t.d. með stórframkvæmdum, heldur verði einkaaðilum látið eftir að nýta hagstæð og áhugaverð tækifæri.
- Bestu embættismenn í heimi
Opinberir starfsmenn njóti sömu réttinda og skyldna og starfsmenn í einkageira.
- Einfaldleiki og gagnsæi
Einungis þurfi að leita á einn stað (á netinu) til að þjónusta stjórnvalda verði gagnsæ og öllum skiljanleg.
- Færri ráðuneyti og stofnanir
Ráðuneytum verði fækkað í sjö með stofnun eins velferðarráðuneytis og eins atvinnuvegaráðuneytis.  Stofnunum verði fækkað markvisst með því að leggja þær niður og einkaaðilum falin starfsemi þeirra, ef þörf er á áframhaldandi rekstri. 

BESTA SAMFÉLAG Í HEIMI
- Jöfn tækifæri
Jöfn tækifæri verði fyrir karla og konur á öllum aldri til menntunar,  atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar.   Velferð og öryggi verði tryggt þeim sem  ekki geta nýtt tækifærin.
- Valfrelsi og heilbrigði
Einkaaðilar taki í auknum mæli við rekstri heilbrigðisstofnana en lífeyrissjóðir og tryggingafélög við almannatryggingum.  Ríkið haldi áfram að fjármagna heilbrigðisþjónustu og tryggi þjónustu til þeirra er njóta ekki tryggingarverndar.
- Alþjóðlegt samfélag með frelsi á vinnumarkaði
Tekið verði vel á móti útlendingum og engar hömlur hafðar á því að fólk komi hingað til lands til að vinna.  Atvinnurekendur og starfsmenn hafi fullt frelsi til að semja sín á milli.
- Sjálfbær nýting náttúruauðlinda
Náttúruauðlindir verði í auknum mæli í einkaeigu og nýttar á skynsamlegan máta svo þeirra verði notið af framtíðarkynslóðum.

Glærur Höllu

Tengt efni

Erfið samkeppnisstaða einkarekinna fjölmiðla

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um ráðstöfun útvarpsgjalds (mál nr. 129)
15. mar 2023

Nauðsynlegt að tryggja félagafrelsi á vinnumarkaði

Umsögn Viðskiptaráðs um félagafrelsi á vinnumarkaði (mál nr. 24)
8. des 2022

Bæta þarf úr annmörkum og leggja mat á áhrif

Umsögn Viðskiptaráðs, SA og SI um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum ...
24. mar 2022