Simon Anholt

Vegna umfjöllunar um Simon Anholt í grein Viðskiptablaðsins þann 23. febrúar sl. telur Viðskiptaráð mikilvægt að koma eftirfarandi á framfæri. Í umræddri grein kemur fram að erfiðlega hafi reynst að fá upplýsingar um menntun og reynslu Anholt. Síkar fullyrðingar eru algjörlega úr lausu lofti gripnar enda er Viðskiptaráð boðið og búið til að veita umræddar upplýsingar. 

Simon Anholt er einn helsti sérfræðingur heims í ímyndarmálum þjóða. Hann hefur lokið Msc. gráðu í mannfræði við Oxford University í Bretlandi. Þar nam hann á fullum námsstyrk eftir að hafa lokið námi við einn virtasta menntaskóla landsins. Anholt er stofnandi og ritstjóri fagritsins Place Branding and Public Diplomacy. Hann heldur reglulega fyrirlestra við fjölmarga evrópska háskóla, t.d. the London Business School, Stockholm School of Economics, the Warsaw School of Economics og fleiri. Hann hefur birt yfir 50 greinar í akademískum fagritum og gefið út 13 bækur á 19 tungumálum um “vörumerki” þjóða (National Branding).  Vitnað er í hann í meira en 200 fræðigreinum. 

Anholt stofnaði og stjórnar rannsóknarverkefninu Nation Brand Index sem er eina fjölþjóðlega reglulega könnunin sem gerð er á ímynd og auðkennum þjóða.  Þessari rannsókn er ekki ætlað að uppgötva einhvern “sannleika” um ímynd þessara þjóða, heldur ætlað að gefa til kynna skynjun almennings í viðkomandi löndum á ákveðna þætti er liggja að baki ímyndar annarra þjóða.  Nær 30,000 manns svara nokkuð viðamikilli netkönnun, en úrtakið er valið samkvæmt stöðlum reiknuðum út frá US Census Bureau IDB Population Pyramids og lýðfræðilegum gögnum frá hagstofum viðeigandi landa.

Anholt hefur starfað alfarið á sviði ímyndarmála þjóða undanfarin 10 ár. Hann hefur starfað talsvert með þróunarríkjum og hefur sú vinna að miklu leyti farið fram í gegnum Sameinuðu þjóðirnar. Hann er sérstakur ráðgjafi the World Intellectual Property Organization (WIPO), en hefur einnig veitt ýmsa ráðgjöf til annarra stofnanna innan Sameinuðu þjóðanna, s.s. UNESCO, WHO og UNCTAD.  Anholt hefur starfað með framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (e. European Commission) og situr í nefnd forseta sambandsins um ímyndarmál Evrópu. Hann er óháður stjórnarmaður ímyndarráðs Bretlandsstjórnar. Hann hefur veitt ríkisstjórnum fjölmargra annarra þjóða ráðgjöf, til að nefna Spánverjum, Hollendingum, Indverjum og Egyptum. Í störfum sínum hefur Anholt einnig komið að ráðgjöf og samstarfi við fjölmörg stórfyrirtæki.

Frekari upplýsingar um störf Simon Anholt, útgáfu, skrif og rannsóknarverkefni má nálgast á heimasíðu hans www.earthspeak.com.

Tengt efni

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024