Atkvæði kvenna, fjölmennur fundur

Afar góð mæting var á fund Viðskiptaráðs, Atkvæði kvenna, en ríflega 100 manns sóttu fundinn. Á fundinum héldur konur úr atvinnulífinu framsögur um hagsmunamál er varða þeirra starfsvettvang og spurðu forystumenn stjórnmálaflokkanna spurninga þeim tengdum.  Fyrirkomulag fundarins var þannig að framsögumenn settu fram eina spurningu í lok hvers erindis og höfðu stjórnmálaleiðtogarnir 5 mínútur hver til að svara spurningunum 5. Fundarstjóri var Kristján Kristjánsson, forstöðumaður upplýsingasviðs FL Group.

Fyrst til máls var Halla Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, en yfirskrift framsögunnar var Öflugt atvinnulíf er grunnur fjölskyldulífs. Í erindi sínu skýrði Halla frá því að sé ætlunin að byggja upp öflugt og gott fjölskyldulíf og samfélag, er grundvallarforsenda að atvinnulífið blómstri. Ástæður þess eru margþættar. Vaxandi skatttekjur er hægt að nýta í uppbyggingu velferðarkerfis og því meiri sem vöxtur atvinnulífsins er, þeim mun meira er til ráðstöfunar. Ennfremur taldi hún reynslu síðustu ára hafa sýnt að skattalækkanir eru síst til þess fallnar að draga úr skatttekjum. Sé vilji til að skapa komandi kynslóðum samfélag með fjölbreyttum og áhugaverðum starfsmöguleikum er nauðsynlegt að hlúa að umhverfi fyrirtækja.

Glærur Höllu má nálgast hér.

Elín Sigfúsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands, fór yfir mikilvægi fjármálageirans fyrir íslenskt atvinnulíf. Yfirskrift framsögunnar var Sókn fjármálageirans, hagur fárra? Þar lagði hún áherslu á þann mikla fjölda sem hefði beinan ábata af velgengni bankanna. Þetta eru hluthafar (sem telja tugi þúsunda), starfsfólk (sem telja nærri tíu þúsund) og viðskiptavinir bankans. Að sama skapi hefur fjármálageirinn gríðarleg afleidd áhrif, enda skapast mikil viðskipti við stoð- og þjónustufyrirtæki í gegnum bankana.

Glærur Elínar má nálgast hér.

Margrét Pála Ólafsdóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla, beindi sjónum gesta að skorti á valfrelsi og möguleikum í íslensku menntakerfi í erindi sínu Steypum ekki alla skóla í sama mót. Hún fór sérstaklega yfir möguleika til endurbóta á leik- og grunnskólastiginu. Hún telur það frekar almenna skólakerfinu til tekna að bæta við fjölda sjálfstæðra skóla. Með auknu valfrelsi eru foreldrar líklegri til að taka afstöðu með sínum skóla í stað þess að beina spjótum sínum gegn honum, þar sem ákvörðunin um skólavistina var þeirra eigin en ekki byggð á búsetukvöð.

Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri Sóltúns, flutti framsöguna Ævikvöld að eigin uppskrift um stöðu aldraðra og taldi mikið verk óunnið í þeim málaflokk. Eldri borgarar eru þvingaðir til ótímabærra starfsloka vegna tekjutengingar almannatrygginga og annarra óheppilegra þátta. Ákvörðunarréttur þeirra í eigin málefnum er fótum troðinn í fjölmörgum efnum og verulegra endurbóta er þörf eigi að koma málefnum þeirra í horf. Anna Birna horfði til aukinnar aðkomu einkaaðila og félagasamstarfa og benti á mikilvægi þess að láta ekki mögulegar úrlausnir framhjá sér fara vegna deilna um rekstrarform.  

Að lokum fjallað Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík, um orku- og umhverfismál í erindi sínu Framtíð Íslands – græn OG grá. Það er of algengt í tilfinningalegum málefnum eins og umhverfismálum að fólk horfi á hlutina sem svarta og hvíta í stað þess að sjá tækifærin frá báðum hliðum. Umræða um hlé á stóriðjuframkvæmdum eigi að vissu leyti rétt á sér en það séu jafnframt margir ónýttir möguleikar á því sviði orkumála. Ísland á að nýta sér sérþekkingu sína á grænnri orku til útflutnings á hugviti og að sama skapi er skynsamlegt að skoða fleiri möguleika en álframleiðslu, s.s. gagnaþorp og hálfleiðaraiðnað. Að endingu er þetta spurning um að skapa umhverfi þannig að ungt fólk velja að búa og starfa á Íslandi fremur en annars staðar í heiminum. Til þess þurfa starfsumhverfi og almenn lífsskylirði að vera eins og best verður.

Eftir erindin svöruðu stjórnmálamenn spurningum frá framsögumönnunum fimm. Þeir stjórnmálaleiðtogar sem sátu fyrir svörum voru Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins, Ingibjörg S. Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar, Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins, Katrín Jakobsdóttir varaformaður Vinstri Grænna, Margrét Sverrisdóttir varaformaður Íslandshreyfingarinnar og Valdimar Leó Friðriksson staðgengill formanns Frjálslynda flokksins.

Í svörum stjórnmálamanna kom meðal annars fram að enginn stjórnmálaflokkanna hefði í hyggju að hækka tekjuskatt á fyrirtæki, en Vinstri Grænir og Frjálslyndir vildu skoða breytingu á fyrirkomulagi fjármagnstekjuskatts. Fulltrúar beggja flokka töldu skynsamlegt að hækka skattinn en setja frítekjumark á fjármagnstekjur á móti. Fulltrúi Frjáslyndra taldi ennfremur mikilvægt að hluti fjármagnstekjuskatts yrði gerður að útsvari.

Allir töldu flokkarnir mikilvægi fjármálageirans vera mjög mikið og nauðsynlegt að halda rekstrarskilyrðum hans samkeppnishæfum. Þar benti formaður Sjálfstæðisflokksins á hugmyndir stjórnvalda um Ísland sem miðstöð fjármála. Í svari sínu benti formaður Samfylkingarinnar á mikilvægi þess að halda uppi umræðu um evrópusambands og evrumál í þessu samhengi enda væri óstöðugleiki íslenska hagkerfisins helsti akkilesarhæll þess.

Í umræðu um mennta- og heilbrigðismál virtust stjórnmálamenn sammælast um að þar væri mikilvægt að bæta fjölbreytni og valfrelsi í báðum málaflokkum. Helst greindi í sundur varðandi hvaða leiðir væru best til þess fallnar. Varaformaður Vinstri Grænna taldi æskilegt að halda sem mestu af starfseminni í höndum hins opinbera en að virkja bæri fjölbreytni innan hans. Aðrir fulltrúar stjórnmálaflokkana töldu aukna aðkomu einkaaðila ekki óskynsamlega, þó í mismiklu magni.

Að lokum voru skiptar skoðanir um afstöðu til framhaldsins í orkumálum. Formaður Sjálfstæðisflokksins telur það skyldu okkar gagnvart komandi kynslóðum og umheiminum að nýta þá grænu orku sem finnist á Íslandi. Hann telji því varhugavert að segja algerlega stopp í stóriðjumálum að svo stöddu. Formaður Framsóknarflokksins telur að Ísland eigi að verða forystuland í orkuiðnaðinum þó stóriðja megi einungis að vera hluti af atvinnuþróun Íslendinga. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri Grænna og Íslandshreyfingarinnar töldu ástæðu til að stöðva stóriðjuframkvæmdir, í það minnsta tímabundið, en hvernig framhaldinu yrði háttað var ekki ein skoðun um.

Viðskiptaráð þakkar öllum þeim sem tóku þátt í fundinum kærlega fyrir og vonar að hann nýtist sem jákvætt innlegg í komandi kosningabaráttu.

Tengt efni

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á stjórnsýslulögum

Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands (samtökin) hafa ...

Vel heppnað Viðskiptaþing

Viðskiptaþing fór fram fimmtudaginn 8. febrúar síðastliðinn. Yfirskrift þingsins ...
14. feb 2024

Nauðsynlegt er að tryggja samkeppnishæfan vinnumarkað

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ...
15. mar 2023