Vel sóttur fundur um samstarfsverkefni við UNDP

Vel var mætt á fund sem haldinn var í tilefni af undirritun samstarfsverkefnis utanríkisráðuneytisins og Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands.

Á fundinum hélt utanríkisráðherra Íslands, Valgerður Sverrisdóttir, ávarp þar sem aðdragandi og grundvöllur verkefnisins var kynntur. Í kjölfarið kynnti Jakob Simonsen, framkvæmdastjóri skrifstofu UNDP í Kaupmannahöfn, verkefnið Nordic Business Outreach fyrir fundargestum.

Verkefninu hefur þegar verið hleypt af stokkunum í Noregi og Danmörku og gefið góða raun. Verkefnið gengur út á að einkafyrirtæki leiti að arðbærum viðskiptatækifærum í vanþróuðum löndum í samstarfi við UNDP. Þannig er mögulegt að skapa ávinning fyrir báða aðila, hlutaðeigandi lönd sem og fyrirtækin. Á næstu þremur árum er stefnt að því að setja saman fimm tilraunaverkefni í samstarfi við íslensk fyrirtæki, stofnanir og samtök.

Eftir kynningu Jakob Simonsen hélt Bjarni Ármannson, forstjóri Glitnis, erindi um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Kom þar m.a. fram að Glitnir hefur lagt sívaxandi áherslu á samfélagslega ábyrgð og telur Bjarni slíka stefnu vera óumflýjanlega og æskilega í því alþjóðaumhverfi sem bankinn starfar.

Að lokum hélt Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri Reykjavíkur, erindi um samfélagslega ábyrgð borga. Í erindinu kom borgarstjóri inn á möguleika þess að vestrænar borgir sýni aukna samfélagslega ábyrgð við uppbyggingu borga í Afríku. Reykjavíkurborg hefur sýnt gott fordæmi í því samhengi með samstarfi sínu við afrísku borgina Djibouti.

Fundarstjóri var Halla Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Tengt efni

Vel heppnað Viðskiptaþing

Viðskiptaþing fór fram fimmtudaginn 8. febrúar síðastliðinn. Yfirskrift þingsins ...
14. feb 2024

Lifandi hundur er öflugri en dautt ljón

„Efnahagsvandi okkar Íslendinga er fólginn í þeirri fáránlegu skoðun ...
26. sep 2022

Vill Efling lækka laun?

Efling segir að svigrúm sé til 9,5% launahækkana í kjarasamningum, miðað við ...
25. ágú 2022