Afnám vörugjalda og stimpilgjalda fagnaðarefni

Viðskiptaráð Íslands telur áform viðskiptaráðherra um afnám vörugjalda og stimpilgjalda vera stórt skref í átt að einfaldara og skilvirkara hagkerfi. Framtak ráðherra mun án efa stuðla að lægra vöruverði og auknu gegnsæi í skattkerfinu, til hagsbóta fyrir neytendur og fyrirtæki. Afnám umræddra gjalda hefur löngum verið baráttumál ráðsins. Þannig hvatti ráðið m.a. til afnáms þeirra í skýrslu sinni „90 tillögur að bættri samkeppnishæfni Íslands“, sem gefin var út í tilefni 90 ára afmælis ráðsins 17. september síðastliðinn. Viðskiptaráð tekur heilshugar undir að álagning vörugjalda og tolla hafi hingað til verið tilviljunarkennd og ómarkviss, en hinn umdeildi iPod tollur er holdgervingur slíkrar álagningar. Með því er þó ekki sagt að stefna eigi að markvissari álagningu tolla, enda eru tollar í flestum tilfellum ekki til annars fallnir en að skerða kjör neytenda og vernda óhagkvæmar atvinnugreinar.

Viðskiptaráð vonar að áform þessi séu einungis forsmekkurinn af því sem koma skal, en bæði fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra hafa lýst því yfir að stefna eigi að afnámi flestra viðskiptahindrana. Lokamarkmið að bættri samkeppnishæfni íslensks viðskiptaumhverfis ætti að vera algert afnám tolla.

Þrátt fyrir framangreint leggst Viðskiptaráð gegn hugmyndum viðskiptaráðherra um beitingu lagasetningar á sviði gjaldtöku fjármála- og innheimtufyrirtækja. Hið opinbera ætti frekar að beina kröftum sínum í átt að auknu samstarfi við hagsmunaaðila á þessu sviði. Ráðið hvetur viðskiptaráðherra til að íhuga vandlega kosti þess að draga úr vægi sjálfskuldarábyrgða enda ekki á allra færi að veita annars konar tryggingar fyrir lántökum sínum. Áform um afnám uppgreiðslugjalda hljóta að snúa eingöngu að Íbúðalánasjóði enda ekki grundvöllur fyrir því að meina viðskiptabönkum og sparisjóðum að innheimta slík gjöld. Afnám þeirra myndi auka vaxtaáhættu bankanna og skekkja enn frekar stöðuna á íbúðarlánamarkaði, sem mæta þyrfti með öðrum aðgerðum.

Viðskiptaráð fagnar ennfremur eflingu neytendarannsókna og neytendastofnanna. Þrátt fyrir það telur ráðið fulla ástæðu til að íhuga sameiningu núverandi stofnana og samtaka sem hafa með neytendamál að gera, þ.e. Neytendastofu, talsmann neytenda og Neytendasamtakana. Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að fleiri stofnanir um tiltekinn málaflokk leiða ekki endilega til aukinnar skilvirkni eða árangurs. Með sameiningu yrðu til öflug heildarsamtök - sem ættu auðveldara með að fylgja eftir neytendamálum á skilvirkan og hagkvæman máta, neytendum í landinu til hagsbóta.

Frekari upplýsingar veita:
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri
Frosti Ólafsson, hagfræðingur
Haraldur I. Birgisson, lögfræðingur

Tengt efni

Afnema þarf að fullu einokunarverslun ríkisins á smásölu með áfengi

Einokunarstaða ÁTVR hefur þær afleiðingar að kraftar samkeppni leiða ekki til ...
4. mar 2021

Vinnumarkaður: Lágmörkun óvissu eða uppspretta óvissu?

Fátt bendir til þess að vinnumarkaðurinn verði veigaminni óvissuþáttur á næstu ...
18. feb 2021

Óskynsamlegar aðgerðir ríkisstjórnar í skattamálum

Samkvæmt nýsamþykktu frumvarpi fjármálaráðherra mun skattheimta af sölu áfengis ...
29. maí 2009