Fjörugar panelumræður

Í kjölfar ræðu Davíðs Oddssonar, formanns stjórnar Seðlabankans, stýrði Friðrik Már Baldursson, prófessor við HR, panelumræðum. Í panel sátu Björn Rúnar Guðmundsson forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, Ingólfur Bender forstöðumaður greiningardeildar Glitnis, Ásgeir Jónsson forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings Arnór Sighvatsson aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands.

Flestir þátttakendur umræðnanna voru sammála um að þrátt fyrir að vaxtahækkunin hafi komið markaðsaðilum á óvart. Það þýði þó ekki að hækkunin hafi ekki verið réttlætanleg, heldur hafi frekar vantað aukið gagnsæi af hálfu Seðlabankans til að markaðsaðilar gætu hafa gert sér grein fyrir hækkuninni fyrirfram.

Stóru bankarnir þrír telja allir að hagvöxtur næstu ára verði hærri en spár Seðlabankans geri ráð fyrir og að sama skapi sé líklegt að verðbólga verði heldur meiri en vonir Seðlabankans standi til.

Björn Rúnar taldi að á þessu stigi, við núverandi gengi, vexti og tímasetningu innan hagsveiflunnar hafi ekki verið rétt að hækka vexti. Þannig telur hann að Seðlabankinn taki ekki nægjanlegt tillit til hliðaráhrifa vaxtastefnu sinnar, s.s. á gengi krónunnar. Að lokum benti Björn Rúnar á þá staðreynd að Seðlabankanum hafi ekki gegnið sem skildi að binda verðbólguvæntingar markaðsaðila og þar liggi helsta vandamálið.

Ingólfur Bender skýrði frá því að spár Seðlabankans undanfarin misseri hafi kerfislægt vanmetið bæði verðbólgu og vöxt hagkerfisins. Það þurfi því ekki að koma á óvart að illa takist að glíma við verðbólguna þegar bankinn er alltaf skrefi á eftir við ákvörðunartöku sína. Þannig sé núverandi undirliggjandi verðbólga um 6% að teknu tilliti til skattaáhrifa og búin að vera 4,7% að meðaltali síðan verðbólgumarkmið voru tekin upp. Þá telur Ingólfur vaxtaákvörðun Seðlabankans vera rétta, en hún hefði aftur á móti mátt koma fyrr og vera hærri.

Ásgeir Jónsson tók undir orð Ingólfs um að vaxtaákvörðunin hafi verið rétt í ljósi þeirra tækja og markmiða sem Seðlabankinn hafi. Í raun séu bara tveir möguleikar; annars vegar að halda sjálfstæðri peningamálastefnu og þá sé það eina rétta að gera þegar verðbólga er umfram markmið að mæta því með hækkun vaxta, hins vegar sé sá möguleiki til staðar að taka upp evru. Þá taldi Ásgeir að erfiðir kjarasamningar væru framundan sem kæmu til með að ráða miklu um verðbólguþróun. Einnig kæmi þróun á fasteigna- og hlutabréfamarkaði til með að ráða miklu um framvindu næstu missera.

Arnór Sighvatsson taldi það ekki vera rétt að ákvörðun Seðlabankans hefði átt að koma jafn mikið á óvart og hún gerði. Bankinn gæfi út ákveðnar fráviksspár sem sýna afleiðingar breytinga á vaxtaferla og samkvæmt sínum útreikningum hafi bankinn ekki átt annarra kosta völ. Þannig hafi hagvöxtur síðasta árs og það sem af er þessu verið mun meiri en væntingar stóðu til, einkaneysla hefur stöðugt aukist og talsvert lanaskrið er enn til staðar.

Þá sagði Arnór líklegt að ákvörðunin hafi komið á óvart þar sem markaðsaðilar hafi gert ráð fyrir að eitthvað þak væri á stýrivöxtum bankans. Það væri algjörlega á misskilningi byggt þar sem ekkert þak væri á vöxtum bankans. Þannig myndi Seðlabankinn halda áfram að hækka vexti þar til því vaxtastig sem dugir til að slá á verðbólgu verði náð. Arnór tók undir orð Ingólfs um að svo virtist vera að kerfislægt vanmat ætti sér stað við gerð þjóðhagsreikninga. Þetta þyrfti að athuga og bæta úr.

Tengt efni

Meiri pening, takk

„Aðhaldskrafa er ekki byggð inn í stjórnkerfið sem við búum við og þannig hafa ...
19. apr 2024

Vel heppnað Viðskiptaþing 2022

Húsfyllir var á vel heppnuðu Viðskiptaþingi 2022 sem Viðskiptaráð stóð fyrir á ...
25. maí 2022

Velkomin til framtíðarinnar, árið 2003

Landvernd kynnti tillögur um orkuframleiðslu og -skipti til ársins 2040 án ...
27. jún 2022