Morgunverðarfundur: Milliverðlagning (Transfer Pricing)

Tæplega 80 manns sóttu morgunverðarfund Viðskiptaráðs og PriceWaterhouseCoopers á Grand Hótel nú í morgun. Efni fundarins voru milliverðlagsreglur, en slíkar reglur hafa verið í mikilli þróun undanfarin ár hjá nágrannaríkjum okkar. Á fundinum fjölluðu Aðalsteinn Hákonarson, deildarstjóri skattasviðs Ríkisskattstjóra, Kristján G. Valdimarsson, forstöðumaður skattaráðgjafar Landsbankans og Ian Dykes, meðeigandi hjá PwC í Bretlandi um milliverðlagsreglur og hugsanlega nálgun hérlendis.

Pétur H. Blöndal formaður efnahags- og skattanefndar opnaði fundinn með stuttu ávarpi. Í máli hans kom fram að það væri verkefni stjórnmálamannanna að skapa hér umhverfi fyrir alþjóðleg fyrirtæki þannig að þau kysu að halda höfuðstöðvum sínum hérlendis. Pétur fjallaði einnig um starfsumhverfi fyrirtækja hérlendis og minnti á að ekki þarf einungis að huga að skattinum heldur eru hér margskonar eftirlit, t.a.m. samkeppnis-, fjármála- og vinnueftirlit, sem nauðsynlegt er að séu skilvirk, hröð og rökrétt.

Aðalsteinn Hákonarson gaf fundargestum innsýn inn í þróunina hingað til. Að hans mati hafa hugtökin verið lengi þekkt hérna en fram að þessu aðeins snúist um viðskipti tengdra aðila innanlands. Þannig væru viðskipti tengdra aðila milli ríkja tiltölulega nýtt fyrirbæri hérlendis. Aðalsteinn taldi nauðsynlegt að skerpa á milliverðlagsreglu tekjuskattslaga, en þau sjónarmið hafa verið áberandi að ákvæðið sé ekki í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar og feli þ.a.l. ekki í sér heimild til að endurákvarða skattstofna. En Aðalsteinn taldi mikilvægt að samráð væri haft við viðskiptalífið við slíka endurskoðun. Í máli sínu fjallaði Aðalsteinn einnig stuttlega um leiðbeiningar OECD á þessu sviði og taldi æskilegt að þær yrðu teknar upp hér.

Kristján G. Valdimarsson fjallaði um þýðingu milliverðlagsreglna og skatteftirlits fyrir starfsemi fyrirtækja. Í máli hans kom fram að fyrirtæki hafa ekki algert sjálfstæði í ákvörðun um verðlagningu þrátt fyrir að samningsfrelsi væri hér meginregla. Að mati Kristjáns er núverandi milliverðlagsákvæði tekjuskattslaga mjög ófullkomið fyrir margar sakir. Þrátt fyrir að tvísköttunarsamningar sem Ísland hefur gert við önnur ríki innihaldi ákvæði um milliverðlagningu taldi Kristján þau ákvæði ekki algerlega fullnægjandi. Enn fremur velti Kristján því upp hver staða slíkra samninga væri í íslenskum rétti, en tvísköttunarsamningar eru ekki lögfestir. Að mati Kristjáns væri eðlilegt að hér væru settar milliverðlagsreglur til að tryggja réttaröryggi, jafnræði og samræmi. Slíkt væri einnig til þess fallið að aðstoða íslensk útrásarfélög, sem og til að tryggja skattlagningu tekna hérlendis. Hér væri því um að ræða sameiginlega hagsmuni fyrirtækja og hins opinbera.

Ian Dykes hóf erindi sitt á að fjalla um mikilvægi leiðbeiningareglna OECD. Þrátt fyrir að OECD hafi ekki eiginlega lögsögu í skattamálefnum aðildarríkja er augljóst að mati Ian að leiðbeiningarnar eru til þess fallnar að auka samstarf og þ.a.l. samræmingu. Ian taldi mikilvægt fyrir íslenskt viðskiptalíf og hið opinbera að hér væru settar milliverðlagsreglur og að unnt væri að horfa m.a. til Norðurlandanna við þróun þeirra. Í máli hans kom fram að dönsku reglurnar fælu í sér mjög íþyngjandi upplýsingaskyldu, en þar eru fyrirtæki skyldug til að færa nákvæmar upplýsingar um milliverðlagningu inn í skattframtal sitt. Sjálfur taldi Ian að norska leiðin væri heppilegust, en hún felur ekki í sér formlega upplýsingaskyldu líkt og sú danska. Þannig væri sú leið hagfelldari fyrir fyrirtæki, enda byði hún upp á ákveðna vissu án þess þó að vera óhóflega íþyngjandi.

Elín Árnadóttir sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs PwC á Íslandi hélt stutta tölu um aðalatriði fundarins. Í máli hennar kom fram að milliverðlagsreglur væru mjög mikilvægar í alþjóðlegu samhengi og að skortur á reglum hérlendis væri íslenskum fyrirtækjum til trafala í öðrum ríkjum. Að hennar mati stenst Ísland ekki samanburðinn þrátt fyrir hagfellt skatthlutfall, enda væru önnur ríki með mun hagstæðari reglur er varða t.a.m. skattlagningu söluhagnaðar, frádráttarbærni, o.fl. Að lokum taldi Elín sérlega mikilvægt að samráð yrði haft við íslenskt viðskiptalíf við undirbúning slíkra reglna.

Glærur Péturs Blöndal má nálgast hér.

Glærur Aðalsteins má nálgast hér.

Glærur Kristjáns má nálgast hér.

Glærur Ian má nálgast hér.

Tengt efni

Ekkert sérstakur vaxtastuðningur 

„Þótt margir gleðjist eflaust yfir því að fá millifært úr ríkissjóði er hér um ...
13. jún 2024

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Endurskoða þarf íþyngjandi ákvæði persónuverndarlaga

Umsögn Viðskiptaráðs, SA, SI, SFS, SVÞ, SAF, Samorku og SFF um frumvarp til laga ...
25. okt 2022