Fjölsóttur fundur um íslenskt fjármálalíf í Kaupmannahöfn

Viðskiptaráð Íslands stóð fyrir fjölmennum fundi um stöðu íslensks efnahagskerfis og fjármálafyrirtækja í samstarfi við Sendiráð Íslands í Danmörku og Dansk-íslenska viðskiptaráðsins. Um 150 aðilar úr dönsku viðskiptalífi mættu á fundinn þar sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra Íslands, Dr. Richard Portes, prófessor við London Business School, Sigurður Einarsson, starfandi stjórnarformaður Kaupþings og Sigurjón Sighvatsson, fjárfestir, héldu erindi. Í kjölfarið voru haldnar pallborðsumræður þar sem gestum gafst færi á að spyrja framsögumenn um stöðu efnahagsmála á Íslandi.

Ingibjörg Sólrún, utanríkisráðherra, gerði grein fyrir sögulegum og núverandi viðskiptatengslum Íslands og Danmerkur. Í ræðu sinni gerði ráðherra grein fyrir þeirri miklu framþróun sem átt hefur sér stað í íslensku viðskiptalífi á undanförnum áratugum. Þá nefndi hún sérstaklega niðurstöður nýlegrar skoðanakönnunar sem sýnir fram á að Íslendingar líta á Danmörku sem það land sem stendur Íslendingum næst, bæði hvað varðar menningarleg og viðskiptaleg tengsl.

Ræðu Ingibjargar má nálgast hér.

Richard Portes ræddi stöðu íslensks fjármálalífs og þá undarlegu stöðu sem upp er komin, hvað varðar stöðu stærstu bankana gagnvart skuldatryggingaálagi og mati á lánshæfi þeirra. Í erindi sínu bar Portes saman undirliggjandi rekstur og fjárhagslega stöðu íslenskra banka og annarra norrænna banka og komst að þeirri niðurstöðu og álag á lánsfjármagn þeirra væri í engu samhengi við fjárhagslegan styrkleika og undirstöður efnahagslífsins.

Glærur Portes má nálgast hér.

Sigurður Einarsson ræddi óbilgjarna umfjöllun danskra fjömiðla gagnvart íslenskum fjármálafyrirtækjum. Ennfremur ræddi Sigurður stöðu íslenskra fjármálafyrirtækja og þá miklu framþróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum.

Ræðu Sigurðar á dönsku má nálgast hér.
Ræðan verður sett inn á ensku eða íslensku við fyrsta tækifæri.

Sigurjón Sighvatsson gerði grein fyrir mikilvægum þáttum sem hafa ber í huga við erlendar fjárfestingar, hvort sem fjárfest er á Íslandi, Danmörku, Mexíkó eða Bandaríkjunum. Þá ræddi Sigurjón þá sögulegu þætti sem framrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði hefur verið byggð á.

Ræðu Sigurjóns verður hægt að nálgast á vef Viðskiptaráðs á næstu dögum.

Viðskiptaráð Íslands þakkar þeim mörgu aðilum sem lögðu hönd á plóg við framkvæmd fundarins.

Tengt efni

Viðskiptaráð kynnti áherslur sínar á kosningafundi í morgun

Viðskiptaráð Íslands bauð fulltrúum stjórnmálaflokka til fundar og þáðu ...
15. sep 2021

Kjósendur eru skarpari en stjórnmálamenn

Miðað við staðreyndapróf Viðskiptaráðs eru kjósendur skarpari en stjórnmálamenn, ...
23. sep 2021

Iceland is Open - Áleitnum spurningum svarað um framhaldið í faraldrinum

Viðskiptaráð og millilandaráðin fimmtán héldu í gær fund undir yfirskriftinni ...
23. jún 2020