Málþing: Traust á umbrotatímum

Traust og trúverðugleiki eru meginviðfangsefni morgunverðarfundar sem haldinn verður á vegum AP almannatengsla, Viðskiptaráðs og Capacent Gallup á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 8. maí. Á fundinum verða kynntar niðurstöður úr níundu könnun almannatengslafyrirtækisins Edelman meðal skilgreindra áhrifavalda í 18 löndum. Í könnuninni er mælt traust til fyrirtækja, stjórnvalda, fjölmiðla og félagasamtaka auk þess sem traust og trúverðugleiki boðleiða eru mæld. Við sama tækifæri verður kynnt sambærileg könnun Capacent Gallup á Íslandi en hún er nú gerð í annað sinn. Í lok fundarins verða pallborðsumræður.

Niðurstöður traustskönnunar Edelman – Edelman Trust Barometer – eru kynntar á heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos í Sviss á hverju ári og síðan víða um heim í kjölfarið. Könnun Edelman hefur jafnan vakið athygli helstu viðskiptafjölmiðla heims enda þykir hún góður leiðarvísir fyrir stjórnendur.

Meðal helstu niðurstaðna nýjustu könnunar Edelman er að fyrirtæki og fjölmiðlar njóta nú meira trausts en stjórnvöld í 14 af þeim 18 löndum sem könnunin nær til. Jafnframt hefur traust til fjölmiðla aldrei mælst meira. Viðskiptablöð njóta mests trausts en nýir fjölmiðlar á borð við Facebook, YouTube og Wikipedia sækja verulega á í nýjustu könnuninni.

Jere Sullivan, aðstoðarforstjóri Edelman í Evrópu, kynnir niðurstöður nýjustu könnunar Edelman og fjallar um hvernig fyrirtæki, þjóðir og stofnanir geta nýtt niðurstöðurnar við að byggja upp traust sitt og trúverðugleika. Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, flytur ávarp. Áslaug Pálsdóttir, framkvæmdastjóri AP almannatengsla, og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, rannsóknastjóri Capacent Gallup, flytja erindi.

Fulltrúar fjölmiðla, stjórnvalda og viðskiptalífsins taka þátt í pallborðsumræðum. Þátttakendur verða Bjarni Ármannsson fjárfestir, Guðfinna S. Bjarnadóttir alþingismaður, Haraldur Johannessen, ritstjóri Viðskiptablaðsins, Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital, Martin Eyjólfsson, sviðsstjóri viðskiptasviðs í utanríkisráðuneytinu, og Pétur Gunnarsson, ritstjóri Eyjunnar. Fundarstjóri verður Sigmar Guðmundsson dagskrárgerðarmaður.

Málþingið er öllum opið en þátttökugjald er 8.900 krónur. Tilkynna þarf þátttöku á netfangið skraning@appr.is eða í síma 511 1230.

Upplýsingar um málþingið má finna á www.appr.is.

Tengt efni

Endurskoða þarf íþyngjandi ákvæði persónuverndarlaga

Umsögn Viðskiptaráðs, SA, SI, SFS, SVÞ, SAF, Samorku og SFF um frumvarp til laga ...
25. okt 2022

Blessað grasið

Kemur Stóra eftirsjáin á eftir Stóru uppsögninni?
13. maí 2022

Ógn við efnahagsbatann?

Erfitt er að átta sig á hvernig má ná niður atvinnuleysi í hálaunalandi án þess ...
15. jan 2021