Viðskipta- og fjárfestingakynning í Mílanó

Hátt í hundrað manns sátu íslenska viðskipta- og fjárfestingakynningu í ráðhúsi Mílanóborgar, Palazzo Marino, hinn 26. maí sl., sem skipulögð var af Ítalsk – íslenska viðskitparáðinu ÍTIS og sendiráði Íslands í Róm í samvinnu við ýmsar stofnanir og fyrirtæki, þ. m. t. Mílanóborg og viðskiptaráðið í Mílanó. Borgarstjórinn í Mílanó, frú Letizia Moratti, ávarpaði fundinn, og Grétar Már Sigurðsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Tilgangur kynningarinnar var að hvetja til frekari viðskiptatengsla milli fyrirtækja í löndunum og kynna fjárfestingamöguleika á Íslandi. Sérstök áhersla var lögð á banka- og fjármálaþjónustu og nýtingu umhverfisvænnar orku á Íslandi. Ferðaþjónustan lék  hlutverk í kynningunni og íslenskri menningu var komið á framfæri. Dagsetning kynningarinnar var valin í tengslum við fyrsta beina flug Icelandair til Mílanó í ár hinn 24. maí sl. Kynningin hlaut góða umfjöllun í fjölmiðlum í Mílanó, og birti eitt stærsta viðskiptablað Ítalíu, Il Sole 24 Ore, stóra grein um kynninguna daginn eftir.  

Ræðumenn og fyrirlesarar voru einnig Rosa Anna Coniglio, sendiherra Ítalíu á Íslandi, Guðni Bragason, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Róm, Guðjón Rúnarsson, formaður Ítalsk - íslenska viðskiptaráðsins, Þórður H. Hilmarsson, forstöðumaður Fjárfestingastofu, Guðjón Svansson, deildarstjóri í  Útflutningsráði, Antonio Urbano, forstöðumaður Landsbankans-Kepler í Mílanó, Stephen Brown, forstöðumaður skrifstofu Icelandair í París, Davíð Jóhannsson forstöðumaður skrifstofu Ferðamálastofu í Þýskalandi, Guðrún Sigurðardóttir, forstjóri Island Tours, Sigurður Þorsteinsson, hönnuður hjá Design Group Italia / Blue Lagoon og  Luigi Rossi Bernardi yfirmaður nýsköpunarmála hjá Mílanóborg og  Rosanna Rosenthal, forstjóri Becromal SpA.

Mílanó og Norður-Ítalía eru á meðal þróuðustu iðnaðar- og viðskiptasvæða Evrópu. Nokkur íslensk fyrirtæki eru með starfsstöðvar á svæðinu; Icelandair, Eimskip, Samskip, TVG Zimsen og Island Tours. Actavis og Promens fyrirtækin hafa fjárfest þar í verksmiðjurekstri.  Mílanó er miðstöð viðskipta og bankastarfsemi á Ítalíu, og starfar Landsbankinn-Kepler í Mílanó. Becromal-fyrirtækið, sem fjárfest hefur á Akureyri, er með höfuðstöðvar á svæðinu. Mílanó er einnig mikilvæg borg í tengslum við ferðamennsku. Í tengslum við kynninguna voru haldnir fjölmargir tvíhliða fundir fyrirtækja. Mílanóborg var nýlega valin til að halda EXPO-sýninguna árið 2015, og verður yfirskrift sýningarinnar: “Fæða til handa mannkyni. Orka fyrir lífstíð.”

Sendiráð Íslands í Róm annaðist samhæfingu og skipulagningu á kynningunni í samstarfi við kjörræðismann Íslands í Mílanó, IICC og Ferðamálastofu.

Að fundinum loknum var þátttakendum boðið í hlaðborð í Palazzo Marino, þar sem á boðstólunum voru íslenskir sérréttir framreiddir af Leifi Kolbeinsyni matreiðslumanni í “La Primavera” veitingahúsinu í Reykjavík. Fjölmörg íslensk fyrirtæki lögðu til matvæli í málsverðinn; Ekta fiskur ehf., Útey I, Hverabakarí, Rammi hf., Kaupfélag Skagfirðinga, Móðir Jörð á Egilsstöðum, Mjólkursamsalan ehf. og Mosfellsbakarí.

Um kvöldið var haldin ferðmála- og menningarkynning undir yfirskriftinni “Nature and Beyond í boði Icelandair, Island Tours, Ferðamálastofu og Bláa lónsins í Residenza Liberty, Corso Vercelli 57. Elsa Waage sópransöngkona flutti íslensk sönglög.

Tengt efni

Fréttir

Framsögufólk Viðskiptaþings kynnt til leiks

Hulunni hefur nú verið svipt af framsögufólki Viðskiptaþings 2020 sem fer fram ...
27. jan 2020
Fréttir

Viðskipta- og fjárfestingakynning í Mílanó

Hátt í hundrað manns sátu íslenska viðskipta- og fjárfestingakynningu í ráðhúsi ...
30. maí 2008
Viðburðir

Viðskiptadagur í Mílanó

Ítalsk-íslenska viðskiptaráðið (ÍTIS) og sendiráð Íslands á Ítalíu standa fyrir ...
26. maí 2008