Viðskipta- og fjárfestingakynning í Mílanó

Hátt í hundrað manns sátu íslenska viðskipta- og fjárfestingakynningu í ráðhúsi Mílanóborgar, Palazzo Marino, hinn 26. maí sl., sem skipulögð var af Ítalsk – íslenska viðskitparáðinu ÍTIS og sendiráði Íslands í Róm í samvinnu við ýmsar stofnanir og fyrirtæki, þ. m. t. Mílanóborg og viðskiptaráðið í Mílanó. Borgarstjórinn í Mílanó, frú Letizia Moratti, ávarpaði fundinn, og Grétar Már Sigurðsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Tilgangur kynningarinnar var að hvetja til frekari viðskiptatengsla milli fyrirtækja í löndunum og kynna fjárfestingamöguleika á Íslandi. Sérstök áhersla var lögð á banka- og fjármálaþjónustu og nýtingu umhverfisvænnar orku á Íslandi. Ferðaþjónustan lék  hlutverk í kynningunni og íslenskri menningu var komið á framfæri. Dagsetning kynningarinnar var valin í tengslum við fyrsta beina flug Icelandair til Mílanó í ár hinn 24. maí sl. Kynningin hlaut góða umfjöllun í fjölmiðlum í Mílanó, og birti eitt stærsta viðskiptablað Ítalíu, Il Sole 24 Ore, stóra grein um kynninguna daginn eftir.  

Ræðumenn og fyrirlesarar voru einnig Rosa Anna Coniglio, sendiherra Ítalíu á Íslandi, Guðni Bragason, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Róm, Guðjón Rúnarsson, formaður Ítalsk - íslenska viðskiptaráðsins, Þórður H. Hilmarsson, forstöðumaður Fjárfestingastofu, Guðjón Svansson, deildarstjóri í  Útflutningsráði, Antonio Urbano, forstöðumaður Landsbankans-Kepler í Mílanó, Stephen Brown, forstöðumaður skrifstofu Icelandair í París, Davíð Jóhannsson forstöðumaður skrifstofu Ferðamálastofu í Þýskalandi, Guðrún Sigurðardóttir, forstjóri Island Tours, Sigurður Þorsteinsson, hönnuður hjá Design Group Italia / Blue Lagoon og  Luigi Rossi Bernardi yfirmaður nýsköpunarmála hjá Mílanóborg og  Rosanna Rosenthal, forstjóri Becromal SpA.

Mílanó og Norður-Ítalía eru á meðal þróuðustu iðnaðar- og viðskiptasvæða Evrópu. Nokkur íslensk fyrirtæki eru með starfsstöðvar á svæðinu; Icelandair, Eimskip, Samskip, TVG Zimsen og Island Tours. Actavis og Promens fyrirtækin hafa fjárfest þar í verksmiðjurekstri.  Mílanó er miðstöð viðskipta og bankastarfsemi á Ítalíu, og starfar Landsbankinn-Kepler í Mílanó. Becromal-fyrirtækið, sem fjárfest hefur á Akureyri, er með höfuðstöðvar á svæðinu. Mílanó er einnig mikilvæg borg í tengslum við ferðamennsku. Í tengslum við kynninguna voru haldnir fjölmargir tvíhliða fundir fyrirtækja. Mílanóborg var nýlega valin til að halda EXPO-sýninguna árið 2015, og verður yfirskrift sýningarinnar: “Fæða til handa mannkyni. Orka fyrir lífstíð.”

Sendiráð Íslands í Róm annaðist samhæfingu og skipulagningu á kynningunni í samstarfi við kjörræðismann Íslands í Mílanó, IICC og Ferðamálastofu.

Að fundinum loknum var þátttakendum boðið í hlaðborð í Palazzo Marino, þar sem á boðstólunum voru íslenskir sérréttir framreiddir af Leifi Kolbeinsyni matreiðslumanni í “La Primavera” veitingahúsinu í Reykjavík. Fjölmörg íslensk fyrirtæki lögðu til matvæli í málsverðinn; Ekta fiskur ehf., Útey I, Hverabakarí, Rammi hf., Kaupfélag Skagfirðinga, Móðir Jörð á Egilsstöðum, Mjólkursamsalan ehf. og Mosfellsbakarí.

Um kvöldið var haldin ferðmála- og menningarkynning undir yfirskriftinni “Nature and Beyond í boði Icelandair, Island Tours, Ferðamálastofu og Bláa lónsins í Residenza Liberty, Corso Vercelli 57. Elsa Waage sópransöngkona flutti íslensk sönglög.

Tengt efni

Ítalska framsóknarleiðin

„Mælistika sem leggja þarf á skatta er hvort þeir séu góð hugmynd til langs ...
29. ágú 2023

Kostnaðarsöm leið að göfugu markmiði

Ný greining frá Viðskiptaráði á kostnaði íslenskra fyrirtækja vegna íþyngjandi ...
5. júl 2023