Drögum úr hagsveiflum með einföldum hætti

Meðfylgjandi grein birtist í Viðskiptablaðinu, miðvikudaginn 2. júlí:

Drögum úr hagsveiflum með einföldum hætti

Góð efnahagsstjórn felur í sér að framleiðslugeta hagkerfis er nýtt til hins ítrasta, með sem minnstum sveiflum. Þetta er flókið verkefni enda ræðst þróun hagkerfisins af daglegum ákvörðunum allra þátttakenda þess. Það er ómögulegt að samhæfa ákvarðanir allra þegna samfélagsins og því fellur ábyrgð á efnahagslegu jafnvægi að mestu leyti á tvo aðila. Annars vegar hið opinbera, sem stýrir stórum hluta eftirspurnar og hins vegar Seðlabankann, sem er ætlað að draga úr sveiflum í umsvifum hagkerfisins í gegnum peningamálastefnu sína.

Hlutverk Seðlabankans í þessu samstarfi hefur verið afar krefjandi frá því verðbólgumarkmið var tekið upp fyrir 7 árum síðan. Þrátt fyrir að staða ríkissjóðs sé sterk og mikill hluti skulda hafi verið greiddur upp á síðustu árum hefur stefnumörkun og fjármálastjórn hins opinbera ekki verið til þess fallin styðja við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Sterka stöðu hins opinbera má fyrst og fremst rekja til stóraukinna tekna síðustu ár fremur en aðhalds í útgjöldum.

Þrátt fyrir mikinn hagvöxt hafa útgjöld vaxið með sama hraða og hagkerfið og þannig stuðlað að aukinni spennu og verðbólguþrýstingi. Það eru ýmsar ástæður fyrir vexti ríkisútgjalda en vandann má í grunninn greina í tvennt. Annars vegar hafa umsvif hins opinbera farið vaxandi á síðustu áratugum og leitni ríkisútgjalda verið upp á við samhliða því. Hins vegar virðist stjórnvöldum ganga sérstaklega illa að hemja útgjöld í góðæri sem skapar umframsveiflur í ríkisútgjöldum. Núverandi fyrirkomulag fjárlaga gerir ráð fyrir því að ófyrirséðum verðlagsbreytingum og launahækkum sé mætt með samsvarandi leiðréttingu á fjárlagaheimildum. Þannig er innbyggðum sveifluhvata komið fyrir í fjárlögum. Komi til launaskriðs og verðbólguþrýstings er hinsvegar sérstaklega þörf á auknu aðhaldi af hálfu hins opinbera.  Leiðréttingar sem þessar virka því eins og olía á eld og kynda enn frekar undir framleiðsluspennu. Það er algjörlega andstætt sveiflujafnandi hlutverki fjármálastjórnar að auka svigrúm til ríkisútgjalda vegna þenslu og aukins verðbólguþrýstings.

Þessar umframsveiflur má laga með einföldum hætti, hvort sem það er pólítískur vilji stjórnvalda að að draga úr umsvifum hins opinbera eða ekki. Þetta má gera með aðferðafræði sem bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Efnahags- og framfarastofnun hafa lagt til að tekin verði upp hérlendis. Með því að hið opinbera setji sér útgjaldaramma sem miðast við fastan nafnvöxt, sem helst óbreyttur þrátt fyrir umframverðbólgu, þyrftu stjórnvöld sjálfkrafa að draga seglin saman verði verðbólga umfram verðbólgumarkmið. Útgjaldareglan væri sett til langs tíma og því væri auðvelt fyrir markaðsaðila að taka mið af reglunni. Raunvöxtur útgjalda yrði minni þegar verðbólga væri umfram sett markmið en meiri þegar verðbólga væri innan marka. Eðlilegt væri að miða raunvöxt ríkisútgjalda við langtíma framleiðniaukningu hagkerfisins og bæta ofan á þá tölu verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands.

Ef þessari nálgun hefði verið beitt undanfarin þrjú ár hefði raunvöxtur opinberra útgjalda numið 1% (m.v. að langtímaframleiðniaukning væri metin 2,5%) árið 2005, árið 2006 hefðu raunútgjöld dregist saman um 1,8% og árið 2007 hefðu raunútgjöld dregist lítillega saman. Þess í stað var meðalraunaukning útgjalda 5,1% á ári þrátt fyrir mikinn hagvöxt og viðvarandi verðbólgu. Sveiflujafnandi áhrif þessarar einföldu reglu koma vel fram á meðfylgjandi skýringarmynd. Þar sést að minnkandi framleiðsluspennu og lægri verðbólguþrýstingi yrði jafnan mætt með auknum hlutfallslegum ríkisútgjöldum en útgjöldin dragast hinsvegar sjálfkrafa saman þegar framleiðsluspenna og verðbólguþrýstingur eykst. Útgjaldareglan þyrfti að sjálfsögðu bæði að eiga við fyrir hið opinbera og sveitarfélög.Reglan myndi að sama skapi auka gegnsæi fjármálastefnunnar verulega sem hefði enn frekari áhrif við jöfnun hagsveiflna þar sem væntingar almennings um framleiðsluspennu myndu þróast til samræmis. Ennfremur myndu stjórnvöld auka trúverðugleika verðbólgumarkmiðsins með því að haga umsvifum sínum í takt við þróun verðbólgu. Við núverandi fyrirkomulag hafa stjórnvöld ýtt undir launaskrið og verðbólguþrýsting með verðlagsleiðréttingum á fjárlögum. Með föstum nafnvexti útgjalda hins opinbera felst hins vegar mikilvægur stuðningur við peningastefnu Seðlabankans og þannig yrði dregið úr líkum á endurteknum verðbólguskotum. Að sama skapi myndi skilvirkni þeirrar sjálfvirku sveiflujöfnunar sem skattheimta hins opinbera leiðir til aukast verulega og afkoma hins opinbera yrði tryggð til frambúðar.

Ef stjórnvöld hafa áhuga á að draga hlutfallslega úr útgjöldum hins opinbera væri reglan einfaldlega endurskoðuð þannig að nafnvöxtur útgjalda yrði minni en langtímaframleiðniaukning hagkerfisins. Þetta myndi leiða til þess að hagkerfið í heild myndi vaxa með meiri hraða en útgjöld hins opinbera og þau dragast hlutfallslega saman. Það er því ljóst að hvort sem stjórnvöldum hugnast mikil eða lítil umsvif hins opinbera má alltaf nota þessa reglu til að draga úr sveiflum í hagkerfinu, sem hlýtur að teljast eitt helsta hagsmunamál íslenskra fyrirtækja og heimila.

Frosti Ólafsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.

Tengt efni

Nauðsynlegt að breyta fyrirkomulagi kauprétta

Umsögn Viðskiptaráðs um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (mál nr. 432)
6. des 2022

Viðskiptaráð ítrekar ábendingar um atriði sem stríða gegn almannahagsmunum

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur (167. mál).
20. okt 2022

Sigur leiðindanna

Ókeypis peningar hafa í raun aldrei verið til
26. okt 2022