Staða sparisjóðanna enn óljós

Meðfylgjandi grein birtist í Viðskiptablaðinu, miðvikudaginn 30. júlí:

Staða sparisjóðanna enn óljós

Síðasta sumar gaf Viðskiptaráð út skoðun um stöðu sparisjóðanna þar sem var stiklað á stóru um starfsumhverfi þeirra. Það er álit ráðsins að sparisjóðirnir standi halloka í samkeppni við önnur fjármálafyrirtæki og ræður þar óhagfellt lagaumhverfi mestu. Sparisjóðirnir búa við ógagnsætt og íþyngjandi umhverfi sérreglna sem hefur skert samkeppnishæfni þeirra á ýmsum sviðum. Afleiðingin er m.a. sú að kjósi stjórnendur og stofnfjáreigendur að losa sjóðina undan viðjum regluverksins með hlutafjárvæðingu þá er stjórn sjóðanna á sama tíma framseld til opinberra aðila. Hlutafjárvæðing er því ríkisvæðing í tilfelli margra sparisjóða.

Það var því álit ráðsins að stefna ætti að heildarendurskoðun laga um fjármálafyrirtæki með það að augnamiði að auðvelda sparisjóðum að hlutafjárvæðast. Að sama skapi var talið heillavænlegast að sama regluverk myndi gilda um hlutafjárvædda sparisjóði eins og önnur fjármálafyrirtæki. Þrátt fyrir að hugmyndirnar feli að einhverju leyti í sér brotthvarf frá upphaflegum markmiðum sparisjóðanna voru þær taldar nauðsynlegar til að tryggja rekstrargrundvöll þeirra til frambúðar. Þessu voru ýmsir ósammála og töldu góða afkomu sjóðanna undanfarin ár vera táknmynd þess að hlutafélagaformið væri ekki forsenda góðs gengis hjá fjármálastofnunum og því engin ástæða til að fara fram á breytingar.

Því verður ekki neitað að afkoma sparisjóðanna hefur verið með ágætum undanfarin ár og ráða þar hagstæð skilyrði á fjármálamörkuðum miklu. Því til viðbótar hefur verið mikið um sameiningar meðal smærri sparisjóða undanfarin ár. Sú þróun er afskaplega eðlileg enda eru sumir sjóðanna einfaldlega of litlir til að standa undir harðnandi samkeppni, flóknari verkefnum og kostnaði sem leiðir af nýjum lögum og auknu eftirliti. Núverandi lagaumhverfi hefur aftur á móti hægt á þessari þróun þar sem sparisjóðunum er gert erfiðara með að sameinast en öðrum fyrirtækjum. Gott gengi sparisjóða verður því seint rakið til núverandi félagaforms þeirra heldur hafa hagræðing í rekstri, öflugir stjórnendur, arðsemismarkmið og hagstæð rekstrarskilyrði spilað stærstu hlutverkin. Formið hefur fremur hamlað vexti þeirra þar sem sjóðirnir hefðu getað nýtt sér hagstætt árferði síðustu ára enn frekar sem hlutafélög, m.a. með útgáfu hlutafjár á markaðsvirði í stað stofnfjár á nafnvirði.

Hvernig svo sem á málefni sparisjóðanna er litið er eitt víst, núverandi lagaumhverfi þeirra er óásættanlegt og þjónar hvorki hagsmunum þeirra sem vilja halda sjóðunum í upphaflegri mynd né þeirra sem vilja gera sjóðunum kleift að keppa við önnur fjármálafyrirtæki á jafnréttisgrundvelli. Það var því fagnaðarefni þegar viðskiptaráðherra lýsti því yfir á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs að hann hefði ákveðið að skipa nefnd til að fara yfir lagaumhverfi sparisjóðanna. Tillögur nefndarinnar eru hins vegar hvergi sjáanlegar þrátt fyrir að nefndin hafi átt að skila þeim af sér fyrir tæpum tveimur mánuðum. Mikilvægt er að frekari tafir verði ekki á tillögum nefndarinnar, en það er þeim mun mikilvægara að tillögurnar einkennist ekki af þeim málamiðlunum sem hafa átt stærstan þátt í að skapa núverandi stöðu heldur beri með sér framtíðarlausn á málefnum sparisjóðanna. Núverandi árferði á fjármálamörkuðum gerir slíka lausn enn brýnni en ella.

Sparsjóðirnir hafa breyst á undanförnum áratugum frá því að vera einfaldar staðbundnar stofnanir undir stjórn sveitarfélaga í að vera gildir þátttakendur á flestum sviðum fjármálaþjónustu undir stjórn hæfra einstaklinga. Ef vilji er til að halda þeirri þróun áfram  verður að veita stofnfjáreigendum sparisjóðanna raunverulegt val um félagaform og afnema allar sérreglur við hlutafjárvæðingu. Til að standa vörð um samfélagsleg gildi sparisjóðanna, sem takmarkast að mestu við varasjóð þeirra, er t.a.m. hægt að heimila stofnfjáreigendum að kaupa varasjóðinn. Við það yrði til öflugur sjóður sem gæti varið fjármunum til samfélagslegra verkefna en á sama tíma yrði til fjármálafyrirtæki laust undan viðjum mislukkaðrar löggjafar sem gæti nýtt sér viðurkennt og þekkt félagaform til frekari vaxtar. Hlutafjárvæddir sparisjóðir munu eftir sem áður, líkt og önnur fjármálafyrirtæki, veita viðskiptavinum sínum um allt land góða þjónustu og leggja sitt af mörkum til samfélagslegra málefna, þar ræður félagaformið litlu en samkeppnin öllu. Þeir sem kjósa að reka sparisjóði áfram í núverandi mynd eiga að hafa möguleika á því – en valið á að vera þeirra, ekki löggjafans.

Haraldur Ingi Birgisson, lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Umsögn um drög að frumvarpi um loftslags- og orkusjóð

Viðskiptaráð skilaði á dögunum inn umsögn um drög að frumvarpi til laga um ...
21. mar 2024

Samkeppnishæfni Íslands stendur í stað

Niðurstöður úttektar IMD háskóla á samkeppnishæfni ríkja voru kynntar á fundi ...
20. jún 2023