Nýr skóli – betra atvinnulíf

Meðfylgjandi grein birtist í Viðskiptablaðinu miðvikudaginn 27. ágúst:

Nýr skóli – betra atvinnulíf

Síðastliðinn mánudag bættist í flóru íslenskra menntastofnana nýr og spennandi grunnskóli.  Þennan fyrsta kennsludag mættu til náms á annan tug barna á aldrinum 13 til 15 ára í stofu 209 á annari hæð í Garðaskóla í Garðabæ. Í skólanum er allt nám einstaklingsmiðað, þ.e. sniðið að þörfum hvers og eins nemanda, bæði eftir aldri og námsgetu. Námsáætlanir eru þannig mótaðar fyrir hvern nemanda, enda er bakgrunnur og aldur þeirra misjafn. Í skólanum nýta allir nemendur fartölvu, bæði í skólanum og til heimavinnu. Unnið er eftir viðurkenndri alþjóðlegri námsskrá og námsstöðlum, sem eru í öllum aðalatriðum í samræmi við námsskrá grunnskóla á Íslandi. 

Það sem er óvenjulegt við þennan skóla er að öll kennsla fer fram á ensku. Fram að þessu höfðu börn á aldrinum 13 til 15 ára, sem ekki tala íslensku, ekki völ á skólavist við hæfi hérlendis. Skólinn heitir International Academy of Iceland  en driffjöðurin á bak við stofnun hans er Elaine Kjos. Sonur Elaine hafði nýlokið skólagöngu sinni við annan íslenskan skóla, International School of Iceland, þar sem boðið er upp á kennslu á ensku fyrir nemendur á aldrinum 5 til 12 ára. Bæði Elaine og eiginmaður hennar starfa á Íslandi og til að svo gæti verið áfram var nauðsynlegt að finna úrræði til áframhaldandi menntunar sonarins. Til að mæta þessum vanda, sem varðar fjölmargar erlendar fjölskyldur á Íslandi, var það Elaine bæði ljúft og skylt að standa að stofnun slíks skóla. International Academy of Iceland er einkarekinn skóli (sjá www.internationalacademy.is) undir forsjá Viðskiptaráðs Íslands. Til skólans er stofnað með dyggum stuðningi Norðuráls og sveitarfélagsins Garðabæjar, sem jafnan hefur sýnt mikla framsýni í leikskóla- og skólamálum. Skólinn er til húsa í Garðaskóla í Garðabæ, en þar hafa forsvarsmenn veitt ómetanlegan stuðning við undirbúning starfsemi International Academy of Iceland.

Aðstæður Elaine og fjölskyldu eru í sjálfu sér ekki óvenjulegar. Hér á landi býr nú þegar fjöldi erlendra barnafjölskyldna sem hingað koma vegna atvinnu, hvort heldur til lengri eða skemmri tíma. Vegna þess hversu erfið íslenskan getur reynst útlendingum er oft óheppilegt að börn úr þessum fjölskyldum sæki nám í venjulegum íslenskum grunnskólum.  Þetta á sérstaklega við um fjölskyldur sem hér dvelja til skemmri tíma. Þegar menntunarúrræði fyrir börn þessara fjölskyldna eru ekki til staðar er hætt við að þær flytjist aftur utan, eða að þær hreinlega komi ekki til landsins. Hvort tveggja er slæmt fyrir fyrirtæki sem hér starfa því með þessu er dregið úr hæfni þess hóps starfsfólks sem þau hafa úr að velja. Öflugt starfsfólk er og verður kjölfesta alls reksturs og má því gera ráð fyrir að samkeppnishæfni fyrirtækjanna og gæði íslensks atvinnulífs yrðu verri fyrir vikið. 

Ætli Íslendingar að byggja hér upp alþjóðlegt atvinnulíf, hvort sem er í fjármálum eða öðrum geirum, er nauðsynlegt að bjóða upp á aðstæður sem henta rekstri fyrirtækja með alþjóðlega starfsemi.  Slíkar aðstæður felast í almennt traustum innviðum, aðlaðandi regluverki, samkeppnishæfu skatta- og tollaumhverfi, stöðugum gjaldmiðli og trúverðugu hagkerfi þar sem hagvöxtur er jákvæður.  Auk slíkra grunnforsendna er ekki síður mikilvægt að tryggja að aðrar aðstæður starfsfólks, sem alþjóðlegt atvinnulíf treystir á, séu aðlaðandi. Þetta á eðlilega bæði við um starfsfólk og fjölskyldur þess.  Einn stærsti þátturinn í þessu er að hér séu til staðar menntunar- og dagvistarúrræði fyrir börn sem ekki tala íslensku.

Með stofnun International Academy of Iceland er búið að brúa vandræðalega gjá í framboði á námi á ensku hérlendis. Börn erlendra fjölskyldna geta nú sótt nám á ensku þar til þau komast á háskólaaldur, sem er fagnaðarefni fyrir alla þá sem vilja veg íslensks atvinnulífs meiri. Hlutverk Viðskiptaráðs Íslands er að vinna að umbótum í rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja. Vegna þess veitir Viðskiptaráð nýjum skóla sinn stuðning.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
21. mar 2023

Gera þarf breytingar á fjölda og fjármögnunarkerfi sveitarfélaga

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (mál nr. 72/2023).
19. apr 2023