Endurreisn bankakerfis og tækifæri til framtíðar

Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu, sunnudaginn 16. nóvember:


Endurreisn bankakerfis og tækifæri til framtíðar

Framundan er tímabil efnahagslegrar endurreisnar í kjölfar hruns íslenska fjármálakerfisins.  Verulega hefur hægst á hjólum atvinnulífs vegna gjaldeyriskreppu, veikingar krónunnar, hnökra í erlendri greiðslumiðlun, skerts aðgengis að fjármagni og almennrar óvissu sem ríkir um rekstrargrundvöll fyrirtækja. Til að draga megi sem mest úr þeim erfiðleikum sem blasa við íslenskum fyrirtækjum og heimilum er nauðsynlegt að þegar verði gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir að hjól atvinnulífsins stöðvist. 

Lykill að lausn á vanda atvinnulífsins er farsæl endurreisn bankakerfisins, en þar er brýnt að frágangur á búum gömlu bankanna verði í sátt við erlenda kröfuhafa. Ef horft er til annarra ríkja sem hafa lent í fjármálakreppu kemur glögglega í ljós að sanngjörn framkoma við kröfuhafa hefur reynst mikilvægur þáttur í endurreisn þessara hagkerfa. Þetta þarf ekki að koma á óvart enda er trúverðug úrlausn gagnvart lánadrottnum ein af grunnforsendum þess að hægt sé að nálgast endurfjármögnun, hvort sem horft er til fyrirtækja eða hagkerfa. Það er sjálfsagt fyrir okkur að draga af þessu lærdóm.

Staða Íslands er reyndar nokkuð sérstök. Í okkar tilfelli snýr vandinn fyrst og fremst að úrlausn skuldbindinga þriggja banka sem allir voru einkafyrirtæki fyrir um sjö vikum síðan. Umsvif þessara banka voru slík hér innanlands að hefðbundið gjaldþrot þeirra hefði hreinlega skilið íslenskt hagkerfi í rústum sem ekki væri byggjandi á aftur. Til að bregðast við þessum aðstæðum voru sett neyðarlög á Alþingi þar sem Fjármálaeftirlitinu var gert kleift að taka yfir rekstur bankanna.

Þessa aðgerð hafa erlendir kröfuhafar túlkað sem þjóðnýtingu bankakerfisins. Fyrsta skrefið í atburðarásinni var ríkisvæðing á stærstum hluta Glitnis, sem síðar reyndist misráðin ákvörðun. Björgunaraðgerðir stjórnvalda voru tæknilega ekki þjóðnýting bankakerfisins í heild þar sem nýir bankar voru stofnaðir utan um rekstur innlendrar starfsemi. Engu að síður felst í aðgerðinni að hluti starfsemi bankanna var þjóðnýttur og því kannski ekki að undra að erlendir kröfuhafar túlki það svo. Mikilvægt er að halda kröfuhöfum upplýstum í gegnum allt ferlið og í þeim efnum hefur stjórnvöldum ekki tekist nægjanlega vel til. Í raun má segja að þar liggi meginástæða þess öngstrætis sem samningaviðræður um alþjóðlega fyrirgreiðslu eru nú komnar í.

Aðgengi íslenskra fyrirtækja, og hins opinbera, að erlendu lánsfé mun dragast verulega saman til frambúðar telji lánadrottnar hættu á þjóðnýtingu eigna raunverulega. Það tæki áratugi að losna við slíkt áhættuálag enda mun auðveldara að eyðileggja orðspor en að byggja það upp. Til að leysa megi þá ímyndarkreppu sem Ísland er nú í ættu stjórnvöld að leita samstarfs við erlenda kröfuhafa, hvort sem um ræðir skuldabréfaeigendur eða fulltrúa erlendra innstæðueigenda. Þar  ber fyrst að nefna möguleika þess að semja við núverandi kröfuhafa gamla bankakerfisins (skuldabréfaeigendur) um að endurútgefa bréfin með verulegum afslætti á nýja bankakerfið. Afföll af skuldabréfum bankanna voru þegar orðin um 80% þegar fjármálakerfið hrundi og enn meiri í nýlegum útboðum.  Miðað við það gera kröfuhafar ekki ráð fyrir að endurheimta nema hluta af nafnvirði útistandandi bréfa.  Málamiðlan af einhverjum toga er nauðsynleg til að tryggja möguleika á að hið nýja bankakerfi geti yfir höfuð átt samleið með erlendum kröfuhöfum til frambúðar. Að sama skapi er nauðsynlegt að samtvinna hagsmuni kröfuhafa og nýs bankakerfis til að hámarka megi virði þeirra eigna sem til staðar eru.

Aðkoma kröfuhafa að rekstri nýju bankanna sem eigendur gæti einnig skapað sátt og stillt saman hagsmunum kröfuhafa og íslensks atvinnulífs enn frekar.  Þannig mætti kanna möguleika þess að umbreyta skuldum einfaldlega í eignarhluti. Við upphaf einkavæðingarferlis var árangurslaust leitað eftir erlendum kjölfestufjárfestum í eigendahóp íslensku bankanna. Annað markmið einkavæðingarinnar var að ná dreifðri eignaraðild meðal almennings. Hvorugt þessara markmiða náðist á sínum tíma, sem telst til mistaka í einkavæðingarferlinu.  Með því að erlendir kröfuhafar gerist nú sameiginlegur eigandi bankanna ásamt hinu opinbera ætti að reynast auðveldara að selja hlut ríkisins til almennings fyrr og með einfaldari hætti. Lokaniðurstaðan yrði þá bankakerfi með erlendum kjölfestueigendum og dreifðri innlendri eignaraðild.

Með þetta í huga bendir flest til þess að úrlausn í sátt og samstarfi við erlenda kröfuhafa sé mun líklegri til að skila árangri en launung og upplýsingaþurrð. Farsælar málalyktir eru til þess fallnar að verja þær eignir sem eftir standa í bankakerfinu, koma í veg fyrir að almenningur standi eftir með skuldaklafa til framtíðar og draga úr þeim álitshnekki sem Íslendingar hafa orðið fyrir á alþjóðlegum lánamörkuðum.

Hvernig svo sem endurreisn íslensks efnahagslífs verður háttað þá hlýtur það að vera markmið stjórnvalda að draga sem mest úr þeirri ríkisvæðingu sem nú blasir við.  Það er hagur allra sem landið byggja að kraftar einkaframtaks fái notið sín í markaðsumhverfi sem laust er við afskipti stjórnmálamanna. Einkaframtakið er og verður drifkraftur framfara og þar með hagsældar.

Því ætti nú þegar að huga að því með hvaða hætti megi einkavæða ríkisbankana og að það verði gert sem fyrst.  Eins og áður hefur komið fram er mjög æskilegt að erlendir aðilar, núverandi kröfuhafar í bú bankanna, komi þar að.  Slíkt felur í sér betri úrlausn fyrir alla Íslendinga.  Þetta á ekki síst við um ungu kynslóðirnar, en þau lífsskilyrði sem þeim bjóðast á næstu misserum munu ráða öllu um hvort þær velji að byggja landið áfram.  Góð tækifæri verða að vera til staðar, því val þessara kynslóða kemur til með að móta framtíð Íslands.

Finnur Oddsson
Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Góðir stjórnar­hættir - hvernig og hvers vegna?

Tilnefningarnefndir er dæmi um viðfangsefni sem halda þarf áfram að móta til ...
8. mar 2023

Hvers vegna meira fyrir minna?

Að tryggja að meira fáist fyrir minna í opinberum rekstri snýst ekki um ...
12. nóv 2020

Að borga eða ekki að borga

Meginþorra þeirra erlendu skulda sem bíða enn úrlausnar í kjölfar bankahrunsins ...
18. feb 2009