Fundur vegna útgáfu leiðbeininga um stjórnarhætti opinberra fyrirtækja

Viðskiptaráð Íslands boðaði til blaðamannafundar í hádeginu í dag í tilefni af útgáfu leiðbeininga um stjórnarhætti opinberra fyrirtækja. Leiðbeiningarnar eru samvinnuverkefni Viðskiptaráðs Íslands, Nadsaq OMX Ísland og Samtaka atvinnulífsins og eru þær byggðar á sambærilegum reglum frá Efnahags- og framfarastofnun (OECD), en þó aðlagar að íslensku umhverfi.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og formaður starfshóps um gerð leiðbeininganna, setti fundinn og lýsti aðdraganda útgáfunnar og mikilvægi leiðbeininganna í ljósi stóraukinna umsvifa hins opinbera.Í máli sínu lagði Finnur áherslu á mikilvægi leiðbeininga af þessu tagi í breyttu umhverfi atvinnulífsins þar sem hlutverk hins opinbera hefur fengið aukið vægi. Nú sem aldrei fyrr hefði íslenskt viðskiptalíf umtalsverða hagsmuni af því að opinber fyrirtæki og hið opinbera tileinkuðu sér bætta stjórnarhætti. Mikilvægt væri að samkeppni yrði ekki raskað og að gagnsæi í starfsemi opinberra fyrirtækja yrði tryggt.

Nokkur fjöldi var viðstaddur, þeirra á meðal Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallarinnar, Finnur Sveinbjörnsson forstjóri Nýja Kaupþings, Valur Valsson stjórnarformaður bankaráðs Nýja Glitnis, Ásmundur Stefánsson, stjórnarformaður Nýja Landsbankans, auk fulltrúa frá Samtökum atvinnulífsins og Fjármálaráðuneytinu.

Í kjölfar kynningar Finns tók Þórður Friðjónsson til máls og fagnaði útgáfu leiðbeininganna og sagði þær mikilvægt framtak. Sagði hann mikilvægt að núverandi umsvif hins opinbera verði eingöngu tímabundin, mikilvægt sé að koma opinberum fyrirtækjum á markað og í hendur einkaaðila. Taldi hann leiðbeiningar af þessu afar mikilvægar enda til þess fallnar að efla fagleg vinnubrögð og auka gagnsæi. Ásmundur Stefánsson stjórnarformaður nýja Landsbankans og Valur Valsson stjórnarformaður Nýja Glitnis þökkuðu báðir  framtakið. Þá tilkynnti Valur að leiðbeiningarnar yrðu hafðar til hliðsjónar við mótun starfsreglna Nýja Glitnis. Fjármálaráðuneytið lýsti yfir mikilvægi leiðbeininganna og þakkaði sérstaklega fyrir framtakið.

Glærur frá kynningu Finns má nálgast hér. Leiðbeiningar um stjórnarhætti opinberra fyrirtækja má nálgast hér. Einnig er hægt að nálgast leiðbeiningarnar á skrifstofu Viðskiptaráðs gegn vægu gjaldi.

Í starfshópi þeim er samdi reglurnar sátu: Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, (formaður), Þórður Friðjónsson forstjóri NasdaqOMX Ísland, Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna og Erlendur Magnússon, framkvæmdastjóri.

Nánari upplýsingar veitir Haraldur I. Birgisson hjá Viðskiptaráði Íslands í síma 510-7100 eða á netfangið haraldur@vi.is.

Tengt efni

Skortur eða offramboð íbúða – hvort er rétt?

Það skiptir gríðarlega miklu máli að horft sé til þróunar á íbúðamarkaði á ...
30. apr 2021

Meta þarf áhrif eignarhaldsskorða

Nágrannalönd okkar hafa þróað kerfi í þessum efnum sem við mættum gjarnan hafa ...
26. maí 2020

Pásutakkinn sem beðið var eftir

Viðskiptaráð Íslands fagnar nýjasta útspili ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í ...
28. apr 2020