Það er verk að vinna


Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands ritaði eftirfarandi grein í Viðskiptablaðið 29. febrúar síðastliðinn:

Það er verk að vinna

Við íslensku þjóðinni blasir eitt umfangsmesta verkefni fyrr og síðar. Staða efnahagsmála er mjög slæm og viðfangsefni næstu vikna og mánaða því skýrt: grípa þarf tafarlaust til árangursríkra aðgerða sem leggja grunninn að farsælli endurreisn íslensks efnahagslífs. Reynsla af fjármála- og gjaldeyriskreppum frá öðrum löndum hefur sýnt að einn mikilvægasti einstaki þáttur endurreisn í kjölfar efnahagshruns eru skjót og fumlaus viðbrögð stjórnvalda. Því fyrr sem stjórnvöld bregðast við vandanum með afgerandi hætti, þeim mun skemmri tími líður þar til hagkerfið kemst á braut varanlegrar efnahagslegrar endurreisnar.

Það er því mikilvægt að sviptingar í íslenskum stjórnmálum verði ekki til þess að tefja framgang brýnna umbótaverkefna meira en orðið er. Það skiptir ekki máli af hverju samstarfi stjórnarflokkana var slitið.  Það skiptir heldur ekki höfuðmáli hverjir taka við í stjórn. Það sem skiptir máli er að á Íslandi verði sem fyrst komin á starfhæf ríkisstjórn sem gengur snöfurmannlega til verks við úrlausn aðkallandi vanda. Án aðgerða stefnir í óefni. Að öllu óbreyttu má gera ráð fyrir að á fjórða þúsund fyrirtækja fari í þrot á árinu. Ekki þarf að fjölyrða um afleiðingar slíkrar gjalþrotahrinu fyrir heimili og efnahagslíf almennt.

Verkefnin eru augljós. Það þarf að byggja upp traust á íslenskt efnahagskerfi, bæði innanlands og utan, koma lagi á laskaðan fjármagnsmarkað og auka aðgengi að lánsfé, stuðla að lækkun vaxta, afnema hömlur á gjaldeyrisviðskipti, greiða úr skuldavanda og tryggja að ósveigjanleg gjaldþrota og skattalöggjöf komi ekki í veg fyrir hagfellda úrlausn vandamála fyrirtækja og heimila.  Síðast en ekki síst verður að tryggja að nýtt bankakerfi uppfylli þarfir atvinnulífs, en það forsenda þess að af efnahagslegum bata verði náð. 

Allt eru þetta krefjandi verkefni og þau mega síst við því að týnast í pólitískum þrætum stjórnmálamanna sem gjarnan fylgja róti á sviði stjórnmála, prófkjörum, kosningabaráttu og kosningum. Áhersla stjórnmálamanna á ekki að vera á eign hagsmuni eða hagsmuni flokka, heldur fyrst og fremst á hag heimila og fyrirtækja til skemmri tíma. Þeirri stjórn sem nú tekur við er ekki ætlað annað hlutverk en það. Til annarra verka hefur hún ekki umboð fyrr en að loknum kosningum, en þá tekur við langtímastefnumörkum um stjórnun efnahagsmála til framtíðar.

Öll ofangreind vandamál heimila og fyrirtækja er hægt að leysa og brýnt að áhersla stjórnmála, atvinnulífs og heimila verði á uppbyggilegar lausnir sem fundinn verður farvegur í gegnum markvissar og áhrifaríkar aðgerðir stjórnvalda. Það er verk að vinna og það þarf að vinna núna.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Allt í botn og engar bremsur hjá sveitarfélögunum?

Um árabil hefur rekstur sveitarfélaga á Íslandi verið ósjálfbær og í aðdraganda ...
6. maí 2022

Við getum gert betur

Ísland hefur alla burði til að vera með allra samkeppnishæfustu ríkjum og standa ...
18. jún 2021

Skítur er afbragðs áburður

Stuttu eftir vodka-blautan hádegisverð með Yeltsin, á þeim tíma sem Rússar ...
28. ágú 2020