Forðast ber ríkisvæðingu

Samræmingarnefnd um endurreisn bankakerfisins, sem stofnuð var á grundvelli viljayfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skömmu fyrir áramót, hefur nú birt afrakstur vinnu sinnar í skýrslu þar sem greint er frá helstu vandamálunum í bankakerfinu og lagðar fram formlegar tillögur að úrlausnum. Mats Josefsson sérfræðingur á sviði bankamála fer með yfirumsjón nefndarinnar, en auk hans sitja í henni fulltrúar frá Fjármálaeftirliti, Seðlabanka, fjármálaráðuneyti og viðskiptaráðuneyti.

Í skýrslunni er einkum fjallað um hvaða markmið ríkisstjórnin ætti að setja sér varðandi nýja bankakerfið, nauðsyn þess að styðja við viðskiptalífið með því að leita leiða til að styrkja fyrirtæki sem eiga í vanda vegna fjármálakreppunnar, uppgjör þrotabúa gömlu bankanna og eignarhald ríkisins á bönkum. Þetta eru allt saman mikilvæg mál, eins og áður hefur komið fram, og því ber að fagna því að nefndin skuli fjalla um þau. Aftur á móti virðist nefndin fyrst og fremst vera að kalla eftir því að gengið verði til verks, án þess að koma með áþreifanlegar tillögur um með hvaða hætti það ætti að gera. Talsvert er um óljós fyrirmæli og tillögur sem eru ekki útfærð frekar. Vonir Viðskiptaráðs standa til þess að í næstu uppfærslu skýrslunnar verði lagðar fram ítarlegri tillögur að því hvernig megi reisa við innlent bankakerfi og inntak fyrirmæla skýrt með nánari hætti. Óskýrt orðalag og loðin stefnumörkun stangast á við markmið nefndarinnar um upplýsingamiðlun og gegnsæi. Auk þess hefði verið heppilegt að í nefndinni sætu einnig fulltrúar viðskiptalífsins þar sem þeir eru betur í stakk búnir til að fjalla um vandann út frá sjónarhóli fyrirtækjanna í landinu.

Ein hugmynd sem varpað er fram í skýrslunni er stofnun „miðlægs eignasýslufélags“, eins og það er orðað, sem væri einskonar eignarhaldsfélag ríkisins sem myndi sjá um „endurskipulagningu stórra fyrirtækja sem skipta höfuðmáli fyrir íslenskt samfélag“. Auðvitað ber að fagna viðleitni til að styðja við fyrirtækin í landinu, en sú leið að ríkisvæða fjölda fyrirtækja sem eiga í erfiðleikum verður að teljast misráðin. Ef þessi hugmynd verður að veruleika gæti farið svo að ríkið eignaðist mörg af stærstu fyrirtækjum landsins ásamt því að vera eigandi stærstu banka landsins. Hið opinbera yrði þar með stærsta og veigamesta aflið í íslensku viðskiptalífi. Þetta er í hæsta máta óheppilegt þar sem miklar líkur eru á því að rekstrar- og hagkvæmnissjónarmið myndu víkja fyrir pólitískum sjónarmiðum. Auk þess myndi slíkt fyrirkomulag raska verulega samkeppnisstöðu ýmissa markaða. Þetta má annars vegar rekja til þeirrar samþjöppunar á markaði sem myndi eiga sér stað við eignarhald af þessu tagi og hins vegar er hætt við því að pólitísk fyrirgreiðsla og fjárhagslegt bolmagn fyrirtækja í ríkiseigu leiði til þess að önnur fyrirtæki standi halloka í samkeppninni.

Markmið hins opinbera ættu tvímælalaust að snúa að því að lágmarka þá ríkisvæðingu sem getur fylgt efnahagsáföllum líkt og dunið hafa yfir Ísland. Reynsla Íslendinga og annarra þjóða hefur sýnt að stóraukið umfang hins opinbera í atvinnustarfsemi hagkerfa dregur úr skilvirkni þeirra og eykur líkur á óeðlilegri fyrirgreiðslu innan stjórnsýslunnar. Einkageirinn er sá hluti atvinnulífsins þar sem framleiðni og verðmætasköpun er mest. Einkaframtakið er og verður drifkraftur framfara og hagvaxtar og því ber að leita annarra leiða en víðtækrar ríkisvæðingar til koma til móts við fyrirtækin í landinu.

Skýrslu nefndarinnar má nálgast hér.

Tengt efni

Greinar

Sameiningin sem endaði ofan í skúffu

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, fjallar um áform stjórnvalda ...
5. ágú 2020
Fréttir

Viðskiptaráð leitar að sérfræðingi í samskiptum og miðlun

Viðskiptaráð Íslands leitar að sérfræðingi í samskiptum og miðlun. Starfið ...
2. jún 2020
Fréttir

Viðskiptaráð Íslands auglýsir eftir framkvæmdastjóra

Leitað er að öflugum einstaklingi til krefjandi stjórnunar- og leiðtogastarfa ...
6. sep 2020