Samkvæmt nýsamþykktu frumvarpi fjármálaráðherra mun skattheimta af sölu áfengis og tóbaks og gjaldtaka vegna bifreiðanotkunar hækka verulega, frá og með deginum í dag. Það er dapurlegt að fyrstu áþreifanlegu aðgerðir ríkistjórnarinnar til að taka á fjárhagsvanda ríkisins feli í sér auknar álögur á einstaklinga og fyrirtæki. Á sama tíma og eftirspurn er í lágmarki og kaupmáttur hefur rýrnað harkalega skýtur skökku við að ríkisstjórn skuli með þessum breytingum hækka vöruverð með beinum hætti. Að sama skapi hafa fyrirtæki í greinum tengdum bifreiðasölu og þjónustu orðið mjög illa úti í yfirstandandi efnahagsþrengingum og því óheppilegt að stjórnvöld skuli velja þann vettvang fyrir aukna gjaldtöku.
Ennfremur er ljóst að hækkanirnar munu hafa bein áhrif á vísitölu neysluverðs með tilheyrandi verðbólguáhrifum. Í vístölu neysluverðs er samanlagt vægi þeirra neysluliða sem hækkunin nær til umtalsvert. Löggjöfin mun því valda verðbólguskoti strax við næstu verðlagsmælingu. Tímasetningin er mjög óheppileg, enda fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja nú þegar í molum og ekki á það bætandi með hærra vöruverði og meðfylgjandi hækkun verðtryggðra skulda. Auk þess hafa aðgerðir ríkissjóðs slæmt fordæmisgildi gagnvart öðrum þátttakendum hagkerfisins sem standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum varðandi hækkanir á verðlagningu sinni. Það er enn fremur bagalegt að þessar skattahækkanir hafi verið keyrðar í gegnum Alþingi á einni kvöldstund án víðtæks samráðs við helstu hagsmunaaðila.
Stjórnvöldum eru tvær leiðir færar í að brúa þann fjárlagahalla sem þau standa frammi fyrir: skera niður útgjöld og hagræða í rekstri eða hækka skatta og álögur. Hækkun gjalda nú, auk yfirlýsinga um frekari skattahækkanir, bendir til þess að ríkisstjórnin sé á rangri leið.