Stýrivextir óbreyttir

Peningastefnunefnd ákvað á síðasta vaxtaákvörðunarfundi að halda stýrivöxtum Seðlabankans óbreyttum og verða þeir því áfram 12% að sinni. Ákvörðun nefndarinnar kemur ekki óvart enda hefur gengi krónunnar sigið talsvert upp á síðkastið og er raunar svo lágt að það hefur hægt á hjöðnun verðbólgunnar. Þá eru rök nefndarinnar einnig þau að frekari slökun peningastefnu gæti mögulega sett áform um afnám gjaldeyrishafta í uppnám en áætlað er að hefja fyrsta áfanga afnáms gjaldeyrishafta eigi síðar en í nóvember.

Nefndin tekur raunar nokkuð sterkt til orða í yfirlýsingu sinni en þar segir meðal annars að ekkert verði gert sem gæti skapað efasemdir um staðfastan ásetning hennar að stuðla að stöðugleika krónunnar og lítillar verðbólgu. Í þessu sambandi útilokar nefndin ekki að vextir kunni að verða hækkaðir í náinni framtíð ef  aðstæður í efnahagslífinu kalla á slíkt.

Viðskiptaráð Íslands fagnar því að Seðlabankinn skuli beita sér fyrir afnámi gjaldeyrishafta enda er afnám slíkra hafta ein af grunnforsendum þess að hér á landi geti þrifist kröftugt og trúverðugt atvinnulíf. En þó skal það ítrekað enn og aftur að vextir hér á landi eru óþægilega háir, einkum fyrir smærri fyrirtæki og heimili, sem þurfa fyrst og fremst að reiða sig á innlenda fjármögnun. Vonir ráðsins standa því til þess að vextir verði ekki hækkaðir við þær viðkvæmu aðstæður sem nú ríkja í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Tengt efni

Ekki svigrúm til aukinna útgjalda

Umsögn Viðskiptaráðs um fjármálaáætlun
16. maí 2022

Hvert stefnir verðbólgan?

Huga ætti að vaxtahækkunarferlinu í litlum skrefum til að kæla frekar en að kæfa ...
31. mar 2022

Þegar betur er að gáð - Staðreyndir um stöðu heimilanna

Margt bendir til þess að staða heimila sé sterkari en haldið hefur verið fram og ...
11. feb 2022