Erlend fjárfesting og samkeppni á orkumarkaði

Fréttir af málefnum HS Orku og aðkomu erlendra aðila að félaginu hafa vakið upp grundvallarspurningar um framtíðarskipan orkumála hérlendis. Hagkvæm nýting orkuauðlinda hefur mikla efnahagslega þýðingu fyrir land og þjóð og því eðlilegt að hugað sé vandlega að því hvernig tryggja megi að ábati hennar sé sem mestur. Út frá hagkvæmnis– og samkeppnissjónarmiðum má hins vegar draga í efa að hugsanleg íhlutan hins opinbera í málefni HS Orku, þar sem opinbert eignarhald er leiðarljósið, sé rétta leiðin.

Hvað hagkvæmni varðar þá er ljóst að ábati af orkunýtingu er bundinn þeim takmörkunum að hann byggir á viðamiklum og fjármagnsfrekum framkvæmdum. Slíkar fjárfestingar geta þá til lengri tíma litið skapað þjóðarbúinu mikilvægar gjaldeyristekjur og viðhaldið jafnframt atvinnustigi. Þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagslífinu kalla beinlínis á slíkar framkvæmdir, líkt og stöðugleikasáttmálinn ber með sér. Erfitt er hins vegar að sjá hvernig slíkum verkefnum verður hrint í framkvæmd við núverandi aðstæður með ríkið sem fjárhagslegan bakhjarl. Áhættuverkefni sem þessi ættu jafnframt almennt ekki að vera fjármögnuð af skattgreiðendum, enda utan þess ramma sem þjónustuframboð hins opinbera fellur undir. Að auki má ekki horfa framhjá því, þó það eigi vissulega ekki ráða för, að þörf þjóðarbúsins fyrir erlenda fjárfestingu hefur aldrei verið meiri.

Þá skiptir jafnframt miklu að líta til samkeppnisaðstæðna og mikilvægi þess að tryggja virka samkeppni á orkumarkaði. Til margra aðgerða hefur verið gripið til að leggja grunn að því að svo verði. Hér má einkum nefna aðskilnað samkeppnis- og einkaleyfisþátta orkufyrirtækja og breytingar á raforkulögum árið 2005 sem gerðu öllum kleift að velja sér raforkufyrirtæki. Í tengslum við hugsanleg kaup hins opinbera á stórum hlut í HS Orku verður einnig að líta til rökstuðnings Samkeppniseftirlitsins í ákvörðun þess er varðaði kaup Orkuveitu Reykjavíkur á hlutum í Hitaveitu Suðurnesja. Þar var litið svo á að stærð eignarhlutar OR í keppinaut sínum, Hitaveitu Suðurnesja, skapaði mikla hættu á samræmdum aðgerðum þessara félaga á markaði þar sem veruleg samþjöppun var þegar til staðar. Stafaði þetta af þeim stjórnunaráhrifum og þeirri hagnaðarhlutdeild sem fylgdi umræddum hlut OR. Af þeim sökum taldi eftirlitið kaupin geta raskað samkeppni og því ekki í samræmi við samkeppnislög. Ekki verður betur séð en að aðkoma ríkisins og Reykjavíkurborgar, sem eigendur Landsvirkjunar og Orkuveitunnar, falli undir framangreind sjónarmið Samkeppniseftirlitsins.

Þá er jafnframt rétt að vekja athygli á því að ekki er um kaup á auðlindinni sjálfri að ræða, sem er ásamt HS Veitum í opinberri eigu og verður þannig skv. nýlegum orkulögum. Að auki má telja litlar líkur á að aðkoma einkaaðila á orkumarkað kalli á stórfelldar verðhækkanir til neytenda eða annarra orkukaupenda. Áhyggjur af þessu tagi eru fyllilega eðlilegar en hafa ber í huga að orkufyrirtæki eru háð opinberu eftirliti Orkustofnunar og á þeim hvílir m.a. lögbundin skylda til að flytja og dreifa raforku óháð því hver er kaupandi orkunnar. Lög setja orkufyrirtækjum enn fremur tekjumörk sem taka mið af rekstrarkostnaði þeirra sem og tiltekinni arðsemiskröfu. Þó tekjumörk taki ekki til sölufyrirtækja þá stendur orkukaupendum, eins og nefnt hefur verið, til boða að færa viðskipti sín annað ef svo vill verða að raforkuverð taki verulegum breytingum.

Mikilvægt er að vandað sé til verka við skipulag orkuauðlinda og nýtingu þeirra. Það er því eðlilegt að upp vakni efasemdir og rökræður eigi sér stað þegar teknar eru ákvarðanir um stór og mikilvæg mál af þessu tagi. Miklu skiptir hins vegar að umræðan sé upplýst og stjórnvöld taki ákvarðanir með samtvinnaða hagsmuni atvinnulífs og almennings til lengri tíma að leiðarljósi.

Tengt efni

Umsögn um skilvirkari leyfisveitingar á sviði umhverfis- og orkumála

Viðskiptaráð fagnar vinnu verkefnisteymisins og markmiðum um að einfalda og ...

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf - 4. ársfjórðungur

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic ...
2. nóv 2023

Vel heppnað Viðskiptaþing 2023

Húsfyllir var á vel heppnuðu Viðskiptaþingi 2023 sem fór fram á Hilton Reykjavík ...
20. feb 2023