Virk samkeppni grundvöllur endurreisnar

Opinber umræða um málefni Sementsverksmiðjunnar á Akranesi og Aalborg Portland ber þess glöggt merki hversu bágborin staða íslensks atvinnulífs er. Eftirspurn á flestum mörkuðum hefur hrunið og er víðtæk endurskipulagning á rekstri fjölda fyrirtækja því óumflýjanleg. Ein afleiðing slíkrar vinnu er því miður oft og tíðum að eljusamir einstaklingar missa viðurværi sitt og við því verður að bregðast. Áhrifaríkasta leiðin til þess felst í samstilltu átaki um lágmörkun þjóðhagslegs skaða og skjót viðbrögð til endurreisnar.

Aðgerðir sem efla samkeppni eru veigamikill þáttur slíkrar vinnu, enda hafa rannsóknir sýnt að þær stuðla að hraðari endurreisn atvinnulífs og skjótari efnahagsbata líkt og Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað bent á. Undanfarin misseri hefur því miður gætt viðhorfs af hálfu hins opinbera sem gengur þvert á þessar áherslur. Þannig hafa einstaka ráðamenn jafnvel talað fyrir frávikum á þeim grundvallarleikreglum atvinnulífsins sem samkeppnislöggjöfin er, en slík frávik hafa verið réttlætt með vísan til markmiða þeirra. Tilgangurinn helgi þannig meðalið.

Að þessu sinni er kallað eftir aðstoð hins opinbera við fyrirtæki á samkeppnismarkaði. Umræðan um Sementsverksmiðjuna og Aalborg hefur snúist að miklu leyti um uppruna þeirrar vöru sem fyrirtækin selja. Þetta eru bæði íslensk fyrirtæki með innlent vinnuafl og greiða skatta í ríkissjóð, uppruni vörunnar skiptir því litlu í þessu samhengi. Umræðan ætti þannig fyrst og fremst að snúast um hvernig skuli leysa úr rekstrarvanda fyrirtækja þannig að þjóðhagslegt tjón verði lágmarkað og endurreisninni hraðað – til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Niðurgreiðsla eða stuðningur við óhagkvæma starfsemi með opinberum ívilnunum og verndarstefnu er ekki heppileg leið í þessum efnum.

Þó svo að sjónarmið um opinber afskipti njóti aukins stuðnings við efnahagsaðstæður sem þessar standa veigamikil rök gegn slíkum afskiptum. Gildir það jafnt um bein opinber fjárframlög svo og um að hið opinbera og fyrirtæki í eigu þess hagi rekstri sínum á skjön við samkeppnissjónarmið og jafnvel löggjöf. Óhagkvæm nýting framleiðsluþátta, sem af slíkum samkeppnisröskunum leiðir, getur framlengt og aukið á yfirstandandi efnahagsörðugleika sem vart er á bætandi um þessar mundir.

Það sem mestu máli skiptir nú er að hlúa að atvinnulífinu með því að skapa hagfelld skilyrði til atvinnurekstrar, þannig haldast fyrirtæki í rekstri, fólk í vinnu og verðmæti skapast. Að þessu marki ætti athygli hins opinbera og ráðamanna almennt að beinast, en ekki handahófskenndum afskiptum sem vinna gegn efnahagslegum bata og skaða þannig hagsmuni atvinnulífs og almennings.

Tengt efni

Gengið of langt í afskiptum hins opinbera af verslunarrekstri

Umsögn Viðskiptaráðs um breytingu á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur
7. apr 2022

Afnema þarf að fullu einokunarverslun ríkisins á smásölu með áfengi

Einokunarstaða ÁTVR hefur þær afleiðingar að kraftar samkeppni leiða ekki til ...
4. mar 2021

Vinnumarkaður: Lágmörkun óvissu eða uppspretta óvissu?

Fátt bendir til þess að vinnumarkaðurinn verði veigaminni óvissuþáttur á næstu ...
18. feb 2021