Skuldavandinn – sýn Seðlabankans

Málstofa var haldin þriðjudaginn síðastliðinn hjá SÍ um endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja. Slíkar aðgerðir gegna lykilhlutverki í að skjóta styrkum stoðum undir efnahagsbata, lífvænlegt bankakerfi og samfélagslega sátt, en ljóst er af umfjölluninni að tímasetning, mótun og framkvæmd slíkrar endurskipulagningar er vandasöm og aðkomu ríkisins eru settar þröngar skorður. 

Í erindinu kom fram að íslenska fjármálakreppan minnir um margt á aðrar kerfislægar kreppur. Það sem greinir Ísland þó frá er mikil stærð bankakerfisins og umfang skuldsetningar einkaaðila í samanburði við hagkerfið sjálft. Ljóst að er þau hlutföll sem hér voru fyrir bankahrun eiga sér vart fordæmi annars staðar. Það er því ljóst að endurskipulagning skulda fer fram við afar krefjandi aðstæður hérlendis. Ákveðnir eðlisþættir hagkerfisins vinna þó með Íslandi, s.s. smæð þess, sveigjanleiki og vinnusemi.

Það er reynsla annarra ríkja að stjórnvöld þurfi að sýna afgerandi og skipulögð viðbrögð við aðstæður sem þessar. Án aðgerða er lúta að endurskipulagningu skulda einkaaðila er veruleg hætta á að vítahringur gjaldþrota, greiðsluerfiðleika og atvinnuleysis hafi langvarandi skaðleg áhrif á framleiðslu og atvinnu sem grafi undan endurreisn fjármálakerfisins, seinki efnahagsbata og auki þar með kostnað vegna kreppunnar auk þess sem samfélagslegri sátt getur verið stefnt í voða.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki kynnt með skýrum hætti hvernig þau hyggjast nálgast núverandi skuldavanda. Aðgerðirnir hafa fram til þessa að mestu verið bundnar við veitingu greiðslafresta, yfirtöku skuldsettra fyrirtækja og undirbúnings á stofnun eignaumsýslufyrirtækis ríkisins.

Líklegt má telja að stjórnvöld muni að mestu leyti byggja á beinu samstarfi lántaka og kröfuhafa (í flestum tilfellum ríkisbankanna) við úrlausn skuldavandans en bæta við takmörkuðum almennum stuðningsaðgerðum.

Rétt er að undirstrika þá lykilþætti sem bent er á í umfjölluninni sem grundvöll þess að endurskipulagning skulda heppnist í beinu samtarfi lántaka og kröfuhafa. Í fyrsta lagi er mikilvægt að bankar hafi nægjanlegt eiginfjársvigrúm til að þeir hafi svigrúm til að endurskipuleggja skuldir. Í þessu samhengi mun vafalítið gagnast sú varúðarfærsla sem gert er ráð fyrir að eigi sér stað við tilfærslu eigna úr gamla í nýja bankakerfið. Í öðru lagi er mikilvægt að stofnanaumgjörðin feli í sér raunverulegan hvata fyrir bæði lántaka og kröfuhafa til að taka virkan þátt í endurskipulagningu skulda. Er það einkum verið að vísa til gjaldþrotalögggjafar og reglna um reikningshald fjármálafyrirtækja. Að lökum er mikilvægt að koma í veg fyrir að tengsl skuldunautar við lánveitanda geti haft óæskileg áhrif á endurskipulagningu skulda. Hvað þetta varðar er nauðsynlegt að viðhöfð verði gagnsæ og samræmd vinnubrögð við skuldaúrvinnslu þar sem öll fyrirtæki koma jöfn að borði.
Viðskiptaráð tekur undir þann málflutning sem fram kemur í erindinu og þá sérstaklega mikilvægi þess að byggja á reynslu annarra ríkja sem lent hafa í sambærilegum aðstæðum.

Glærurnar má nálgast hér.

Tengt efni

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023

Nauðsynlegt er að tryggja samkeppnishæfan vinnumarkað

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ...
15. mar 2023

Jafna þarf stöðu innlendra og erlendra fjölmiðla

Skoðun Viðskiptaráðs á stuðningi við einkarekna fjölmiðla (mál nr. 543)
10. jan 2023