Gagnleg umræða um áhrif banka á rekstrarumhverfi fyrirtækja

Í morgun hélt Viðskiptaráð Íslands fjölsóttan morgunverðarfund á Grand Hótel til að ræða áhrif banka á rekstrarumhverfi fyrirtækja og leiðir til lausnar á ýmsum álitamálum sem þeim geta tengst.

Á fundinum tóku til máls Þórður Sverrisson forstjóri Nýherja, Þorsteinn Þorsteinsson stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, Birna Einarsdóttir forstjóri Íslandsbanka, Finnur Sveinbjörnsson forstjóri Arion banka og Ásmundur Stefánsson, forstjóri Landsbankans. Auk framsögumanna tóku þátt í pallborðsumræðum Linda Björk Gunnlaugsdóttir forstjóri A. Karlsson, Úlfar Steindórsson forstjóri Toyota á Íslandi og Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Með fundarstjórn fór Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, en umræðum í pallborði stýrði Ólafur Stephensen blaðamaður.

Ólífvænleg fyrirtæki á að selja eða fara með í þrot
Þórður Sverrisson fjallaði um samkeppnisaðstæður fyrirtækja í bankakreppu og lagði áherslu á þau áhrif sem yfirtaka banka á fyrirtækjum hefði á samkeppnisaðila þeirra. Að mati Þórðar þyrftu bankarnir að huga meir að þessum þáttum í störfum sínum, m.a. með því að halda ekki rekstri ólífvænlegra fyrirtækja gangandi í virkri samkeppni við rekstrarhæf fyrirtæki. Slík fyrirtæki þyrfti að selja hið fyrsta eða þá að bankarnir myndu virða þau lögmál viðskiptalífsins að ólífvænleg fyrirtæki fari í þrot. Með því að tryggja rekstrargrundvöll slíkra fyrirtækja væru bankarnir að valda verulegum samkeppnisröskunum, enda hefðu flestir markaðir dregist verulega saman frá hruninu og því væri minna pláss en áður fyrir fyrirtæki á þeim mörkuðum. Umframafkastagetu atvinnulífsins þyrfti að laga að þessum samdrætti í eftirspurn. Ef bankar ætla að halda ólífvænlegum fyrirtækjum gangandi sé ljóst að þeir vinni gegn umræddri aðlögun á afkastagetu, sem getur á endanum leitt til þess að enn fleiri fyrirtæki lendi í rekstrarerfiðleikum. Þá velti Þórður því jafnframt upp hvort raunhæft væri að bankarnir gætu rekið þessi fyrirtæki betur en fyrri eigendur þeirra.

Ræðu Þórðar má nálgast hér.

Allar forsendur til staðar til að endurreisa traust á bönkum
Þorsteinn Þorsteinsson ræddi í erindi sínu um fjármagnsskipan ríkisbanka út frá samningaviðræðum gömlu og nýju bankana og ríkisins, en Þorsteinn var virkur þátttakandi í þeim viðræðum. Meginmarkmið samningaviðræðnanna voru þrjú; að halda bankakerfinu gangandi, að kröfuhafar fengju hámarks endurgjald og að ríkið fengi hæfilega ávöxtun af eiginfjárframlagi sínu. Af þessu tók fjármagnsskipan bankanna mið, en ákveðið var að eiginfjárhlutfall þeirra yrði 12% í ljósi álagsprófana sem sýndu mögulegt hámarkstap uppá 8%. Í máli Þorsteins kom jafnframt fram að bankarnir yrðu allir brátt fullfjármagnaðir og ættu í kjölfarið að vera fullfærir um að sinna endurskipulagningu fyrirtækja og öðrum úrlausnarefnum. Með þetta í huga væru allar forsendur til að endurreisa traust á bönknum, en það væri bankanna að vinna að því marki. Þá sagði Þorsteinn jafnframt að þó ríkið hafi tekið yfir bankana þá giltu enn um þá grunnlögmál bankarekstrar.

Ræðu Þorsteins má nálgast hér.

Dugnaðarleysi og ákvörðunarfælni leiðir til stöðnunar
Finnur Sveinbjörnsson fór í erindi sínu yfir endurskipulagningu eignarhalds fyrirtækja og meginmarkmið í rekstri eignaumsýslufélaga bankanna og bankanna sjálfra. Finnur sagði bæði eignaumsýslufélögin og bankana hafa hámörkun verðmæta að leiðarljósi, sem væri m.a. í samræmi við yfirlýsingu forsætisráðherra, fjármálaráðherra og seðlabankastjóra í tengslum við fyrstu endurskoðun á efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hvað endurskipulagningu eignarhalds varðar sagði Finnur að bankar væru ekki dómstólar og ættu því ekki að meta endurskipulagningarferlið út frá persónum, heldur út frá því markmiði að hámarka verðmæti eigna. Þá væri það jafnframt hluta af verklagsreglum bankans að ræða við eigendur og stjórnendur um mögulegar lausnir, en að tillögur þeirra þyrftu í öllu falli að vera raunhæfar. Auk þess væri viðhaft virkt samstarf við aðra kröfuhafa viðkomandi fyrirtækis til að koma í veg fyrir að lífvænleg félög yrðu gjaldþrota vegna deila þeirra á milli. Aðalatriðið að mati Finns væri að allir áttuðu sig á því að ef dugnaðarleysi og ákvörðunarfælni færðist yfir þá myndu þjóðfélagið staðna og kreppan lengjast.

Glærur Finns má nálgast hér.

Endurskipulagning fyrirtækja er flókið ferli
Ásmundur Stefánsson ræddi í erindi sínu áherslur í rekstri fyrirtækja sem eru í umsjón banka. Í þessu sambandi ræddi Ásmundur jafnframt um endurreisn Landsbankans, en efnahagsreikningur hans er í lokafrágangi og ljóst er að mati Ásmundar að eiginfjárstaða bankans verður sterk. Hluti af sterkri stöðu bankans má rekja til 260ma. kr. láns frá gamla bankanum til þess nýja, en það gefur Landsbankanum forsendur til að þjóna útflutningsfyrirtækjum með því að veita lán í erlendri mynt. Þá fjallaði Ásmundur um eignarhaldsfélög bankans, sem eru tvö, Vestia og Reginn. Þessi félög eru rekin sjálfstætt, utan sviða bankans. Vestia ber ábyrgð á umsýslu og ráðstöfun eignarhalds Landsbankans í atvinnufyrirtækjum á meðan Reginn er ætlað að fara með eignarhald bankans á fasteignum og hlutafé fasteignafélaga.

Í máli sínu lagði Ásmundur áherslu á að endurskipulagning fyrirtækja væri ekki einfalt ferli, enda kæmi þar margt til skoðunar og að mörgum óvissuþáttum þyrfti að huga. Væri meðferðin því vandmeðfarin, en markmiðið væri ávallt að endurheimta verðmæti eigna á grundvelli jafnræðis og gagnsæis við umsýslu og ráðstöfun þeirra. Hvað mögulegar samkeppnisraskanir varðaði sagði Ásmundur að þau fyrirtæki sem bankarnir tækju yfir yrði að halda áfram á markaði, enda ætti yfirtakan sem slík ekki að leiða til þess að fyrirtækin störfuðu öðruvísi en áður. Þá nefndi Ásmundur það einnig að afar fáir kaupendur væru að þessum fyrirtækjum, sem myndi leiða til brunaútsölu ef bankarnir hygðust selja þau öll sem fyrst. Þá gætu ákvarðanir um að setja fjölda fyrirtækja í þrot, til hagsbóta fyrir samkeppnisaðila, haft neikvæð áhrif á samkeppnisaðstæður. Vegna þessa væru megináhersla lögð á gagnsætt útboðsferli af hálfu bankans. Að lokum ítrekaði Ásmundur að samstarf fjármálafyrirtækja um samræmdar verklagsreglur á sviði endurskipulagningar fyrirtækja tæki tíma.

Glærur Ásmundar má nálgast hér.

Mörg fyrirtæki ganga betur en upphaflega var áætlað
Birna Einarsdóttir fór yfir rekstrargrunn nýrra banka og ræddi þar m.a. nýlega ákvörðun gamla bankans að taka yfir Íslandsbanka. Að mati Birnu blasti mikill vandi við fyrir rúmu ári síðan og vegna þess hefði áhersla bankanna verið á að bjóða neyðarskammtímalausnir. Þetta taldi hún að hefði verið hárrétt nálgun þar sem nýju bankarnir hefðu ekki haft efnahagsreikninga auk þess sem mikil óvissa ríktu um rekstrarumhverfi fyrirtækja. Mjög mörg fyrirtæki gangi nú betur en upphaflega var áætlað, en stórtækar aðgerðir í upphafi hefðu getað dregið úr þeim árangri. Þá sagði Birna að árið 2010 færi að meginstefnu til í endurskipulagningu fyrirtækja, þar sem höfuðstólsleiðrétting erlendra lána kæmi til greina, enda væri stærsti hluti af skuldavanda heimila að komast í farveg. Að mati Birnu hefði bankinn fulla burði til að þjónusta fyrirtæki, en m.a. vegna reglna um hámarkslánveitingar og breytts landslags mætti búast við aukinni áherslu á sambankalán á komandi misserum.

Misjöfn sýn á samkeppnisáhrif
Í kjölfar framsöguerinda spunnust fóru fram pallborðsumræður um efnistök fundarins. Páll Gunnar Pálsson sagði það augljóst að bankarnir hefðu mikið vægi við endurskipulagningu fyrirtækja og að sú staðreynd hefði legið fyrir frá upphafi. Vegna þess hefði Samkeppniseftirlitið gefið út tilmæli til bankanna, sem ætlað var að tryggja að samkeppnissjónarmið fengju hljómgrunn í þessu ferli. Þessum tilmælum yrði nú fylgt eftir, en auk þess hefur Samkeppniseftirlitið verið að fara yfir mótteknar kvartanir og tilkynningar frá bönkunum um samruna í tengslum við einstaka endurskipulagningu. Að mati Páls þyrfti aukið gagnsæi, en að ákvarðnir um endurskipulagningu ætti að taka á viðskiptalegum forsendum. Þá minnti Páll á að meginmarkmið samkeppnislaga væri að vernda samkeppni fyrir samfélagið í heild, ekki eingöngu samkeppnisaðila.

Linda Björk Gunnlaugsdóttir benti á að það væri uggvænlegt að bönkunum væri nánast í sjálfvald sett að meta, í endurskipulagningarferlinu, hvað væri best fyrir samkeppni. Að hennar mati vekti það t.a.m. furðu að fyrirtæki í umsjón bankanna væru að feta sig inn á nýja markaði. Þá brýndi hún fyrir fundargestum að skammtímalausnir bankanna til handa fyrirtækjum væru að renna út, nú þyrfti því langtímalausnir.

Úlfar Steindórsson taldi skýran skort hafa verið á samráði við helstu hagsmunaaðila við undirbúning verklagsreglna bankanna. Reglurnar séu ekki nægjanlega skilvirkar þar sem flestir sem komu að undirbúningi reglnanna hefðu takmarkaða reynslu af rekstri atvinnufyrirtækja.

Gagnleg umræða
Það er ljóst af erindum fundargesta að flestir eru sammála um vægi bankanna í þróun rekstrar- og samkeppnisumhverfis fyrirtækja. Eins og gefur að skilja líta menn á málið frá ólíkum sjónarhóli en umræðuvettvangur líkt og fundur dagsins getur verið afar gagnlegur til að miðla áfram upplýsingum og ábendingum um hvað megi betur fara. Það er sameiginlegt verkefni stjórnmálanna, nýs bankakerfis, ríkisstofnanna og fyrirtækjanna í landinu að sjá til þess að endurskipulagning íslensks viðskiptalífs gangi fyrir sig með sem skilvirkustum og sanngjörnustum hætti.

Tengt efni

Vel heppnað Viðskiptaþing

Viðskiptaþing fór fram fimmtudaginn 8. febrúar síðastliðinn. Yfirskrift þingsins ...
14. feb 2024

Umsögn um valkosti og greiningu á vindorku

Umsögn Viðskiptaráðs um valkosti og greiningu á vindorku - skýrslu starfshóps, ...

Tölur í tóma­rúmi og tíma­bundni banka­skatturinn

Skýrasta tækifærið til að bæta kjör landsmanna er að lækka bankaskattinn enn ...
16. maí 2023