Morgunverðarfundur: Endurskipulagning fyrirtækja er flókið ferli

Á fundi Viðskiptaráðs í gærmorgun um áhrif banka á rekstrarumhverfi fyrirtækja fjallaði Ásmundur Stefánsson, forstjóri Landsbankans, um áherslur í rekstri fyrirtækja sem eru í umsjón banka. 

Í þessu sambandi ræddi Ásmundur jafnframt um endurreisn Landsbankans, en efnahagsreikningur hans er í lokafrágangi og ljóst var að mati Ásmundar að eiginfjárstaða bankans verður sterk. Hluta af sterkri stöðu bankans má rekja til 260 ma. kr. láns frá gamla bankanum til þess nýja, en það gefur Landsbankanum forsendur til að þjóna útflutningsfyrirtækjum með því að veita lán í erlendri mynt. Þá fjallaði Ásmundur um eignarhaldsfélög bankans, Vestia og Reginn, en þessi félög eru rekin sjálfstætt utan sviða bankans.

Í máli sínu lagði Ásmundur áherslu á að endurskipulagning fyrirtækja væri ekki einfalt ferli, enda kæmi þar margt til skoðunar og að mörgum óvissuþáttum þyrfti að huga. Væri meðferðin því vandmeðfarin, en markmiðið væri ávallt að endurheimta verðmæti eigna á grundvelli jafnræðis og gagnsæis við umsýslu og ráðstöfun þeirra. Hvað mögulegar samkeppnisraskanir í því ferli varðaði sagði Ásmundur að þau fyrirtæki sem bankarnir tækju yfir yrði að halda áfram á markaði, enda ætti yfirtakan sem slík ekki að leiða til þess að fyrirtækin störfuðu öðruvísi en áður.

Þá nefndi Ásmundur það einnig að afar fáir kaupendur væru að þessum fyrirtækjum, sem myndi leiða til brunaútsölu ef bankarnir hygðust selja þau öll sem fyrst. Þá gætu ákvarðanir um að setja fjölda fyrirtækja í þrot, til hagsbóta fyrir samkeppnisaðila, haft neikvæð áhrif á samkeppnisaðstæður. Vegna þessa væru megináhersla lögð á gagnsætt útboðsferli af hálfu bankans.

Glærur Ásmundar má nálgast hér.

Tengt efni

Vel heppnað Viðskiptaþing 2022

Húsfyllir var á vel heppnuðu Viðskiptaþingi 2022 sem Viðskiptaráð stóð fyrir á ...
25. maí 2022

Ný stjórn Viðskiptaráðs Íslands

Úrslit formanns- og stjórnarkjörs fyrir tímabilið 2022-2024 voru kynnt á ...
10. feb 2022

Hlutabætur í algjörri óvissu

Eftir að umræðan komst á flug um hverjir ættu rétt á úrræðinu eða ekki, hefur ...
19. maí 2020