Gjörbreytt skattkerfi orðið að veruleika

Skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar hafa nú öll verið afgreidd af Alþingi, ásamt fjárlagafrumvarpi næsta árs, eftir stutta yfirlegu alþingismanna. Það var viðbúið að frumvörpin fælu í sér stórtækar aðgerðir á sviði ríkisfjármála, enda ljóst að brúa þarf umtalsverðan halla á rekstri ríkissjóðs á skömmum tíma. Verkefni stjórnvalda er því ærið og vart öfundsvert. Því miður hafa þau hins vegar kosið að leggja megináherslu á auknar álögur og flækjustigi, sem sögð er eina leiðin úr núverandi ógöngum.

Viðskiptaráð hefur, ásamt fjölda annarra aðila, gagnrýnt áherslur stjórnvalda við að koma skikki á ríkisfjármálin og þá kollsteypu á núverandi skattkerfi sem frumvörpin fela í sér. Í stað þess að ráðist sé að rót vandans, sem liggur í ofvöxnum og ósjálfbærum ríkisrekstri, er reynt að stoppa í fjárlagagatið með auknum álögum á íslenskt atvinnulíf og almenning og grundvallarbreytingu skattkerfisins sem dregur úr skilvirkni tekjuöflunar. Með þessum breytingum má segja að það skattkerfi sem mótast hefur undanfarin 30 ár hafi verið lagt af – eftir aðeins nokkurra daga umræðu í þingsölum.

Áherslur á skattahækkanir og takmarkaðan niðurskurð opinberra útgjalda sjást ekki eingöngu í aðgerðum stjórnvalda. Afgreiðsla áðurnefndra frumvarpa á Alþingi ber þær einnig með sér. Þannig voru breytingar á skattafrumvörpunum í meðförum efnahags- og skattanefndar að mestu til málamynda, þrátt fyrir fjölda málefnanlegra athugsemda við flest ákvæði þeirra. Þá hækkuðu áætluð útgjöld ríkisins í meðförum fjárlaganefndar frá upphaflegu fjárlagafrumvarpi. Þetta er því miður í takt við losarabrag sem einkennt hefur þinglega meðferð fjárlaga á undanförnum árum og vart má við á tímum sem þessum.

Það er mat Viðskiptaráðs aðgerðir stjórnvalda nú vinni gegn markmiðum um endurreisn hagkerfisins, bættu atvinnustigi og uppbyggingu sterks og sjálfbærs velferðarkerfis. Með því að skorast undan því verkefni að ráðast í nauðsynlega aðlögun á ríkisrekstrinum, feta ótroðnar slóðir í skattheimtu á áhættu skattgreiðenda og draga verulega úr umsvifum í hagkerfinu eru umtalsverðar líkur á að ríkið þurfi að sækja frekar í vasa atvinnulífs og almennings þegar fram líða stundir.

Það er því von Viðskiptaráðs að með hækkandi sól muni stjórnvöld sjá að sér, endurskoða fyrri stefnumörkun og fara aðrar og hagnýtari leiðir til að rétta af bágborna stöðu ríkissjóðs – í virku samráði við atvinnulíf og almenning.

Skýrslu Viðskiptaráðs, Fjármál hins opinbera – aðrar leiðir færar, má nálgast hér.

Tengt efni

Viðskiptaþing á Hilton Nordica á morgun

Skrifstofa Viðskiptaráðs verður lokuð á morgun vegna Viðskiptaþings.
7. feb 2024

Fleiri víti 

„Það þarf að fara varlega með vald, um það þurfa að vera skýrar reglur og ...
31. jan 2024

Ríkið herðir hnútinn á leigumarkaði

Frumvarp um breytingar á húsaleigulögum er enn einn rembihnúturinná leigumarkaðinn
31. ágú 2023