Viðskiptaþing 2010: Könnun á viðhorfum forsvarsmanna fyrirtækja

Til umfjöllunar á Viðskiptaþingi 2010 verða meðal annars niðurstöður könnunar sem Capacent Gallup framkvæmdi fyrir Viðskiptaráð þar sem leitað var eftir viðhorfum forsvarsmanna fyrirtækja til helstu áhrifaþátta rekstrarumhverfis fyrirtækja.  Meðal þess sem fjallað var um eru úrræði fjármálastofnana vegna rekstrarvanda fyrirtækja, afstaða til gjaldmiðils og evrópumála og breytingar á skattaumhverfi.

Niðurstöður könnunarinnar verða birtar í heild sinni í skýrslu um efnið sem kemur út samhliða Viðskiptaþingi. Þingið verður haldið þann 17. febrúar næstkomandi á Hilton Reykjavík Nordica. Dagskrá og nánari upplýsingar um Viðskiptaþing 2010 má nálgast hér.

Flöktandi viðhorf atvinnulífs í garð ESB
Meðal þess sem fram kemur í könnun Capacent Gallup fyrir Viðskiptaráð eru breytt viðhorf forsvarsmanna fyrirtækja til aðildar að Evrópusambandinu.  Tæplega 60% forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja telja hagsmunum íslensks viðskiptalífs betur borgið utan Evrópusambandsins. Þó viðhorf séu skipt eftir atvinnugreinum, þá taldi einungis 31% aðspurðra að íslensku viðskiptalífi væri betur borgið innan ESB.

Þessi afstaða gegn aðild að Evrópusambandinu er á skjön við könnun sem Viðskiptaráð framkvæmdi fyrir ári síðan í tengslum við Viðskiptaþingið 2009. Í þeirri könnun var meirihluti hlynntur umsókn um aðild að Evrópusambandinu og taldi hana hafa jákvæð áhrif á stöðu efnahagsmála. Því má segja að veruleg breyting hafi orðið í viðhorfi íslenskra atvinnurekenda í garð ESB undanfarna 12 mánuði.

Afstaða til ESB nátengd afstöðu til gjaldmiðils
Í könnun Capacent Gallup vegna Viðskiptaþings 2010 var jafnframt spurt um viðhorf atvinnurekenda til krónunnar og kvað þar við nokkuð annan tón heldur en í viðhorfum til Evrópusambandsins. Þannig töldu forsvarsmenn um 51% fyrirtækja að viðskiptalífinu væri betur borgið með annan gjaldmiðil, en 37% aðspurðra töldu heillavænlegast að halda sig við krónuna.

Ef niðurstöður þessara tveggja spurninga eru bornar saman kemur í ljós að 90% fyrirtækja sem telja viðskiptalífinu mikið betur borgið innan ESB telja því að sama skapi betur borgið með annan gjaldmiðil. Þá töldu u.þ.b. 69% fyrirtækja, sem telja viðskiptalífinu mikið betur borgið utan ESB, hagsmunum þess betur varið með krónuna. Þessar niðurstöður gefa annars vegar til kynna að atvinnurekendur sem horfa til kosta Evrópusambandsins eru að miklu leyti að horfa til upptöku evrunnar og hins vegar að krónan sé ráðandi þáttur þess að fyrirtæki telji sér betur borgið utan ESB.

Í ljósi þeirrar neikvæðu afstöðu til aðildar að ESB sem fram kemur í könnuninni er athyglisvert að meirihluti forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja telja viðskiptalífinu engu að síður betur borgið með annan gjaldmiðil. Þetta bendir til þess að forsvarsmenn fyrirtækja bindi enn vonir við að geta tekið upp annan gjaldmiðil en evruna eða að hægt sé að taka hana upp einhliða.

Þessar niðurstöður endurspegla einnig áþreifanlega þá óvissu sem ríkir um stefnu stjórnvalda í gjaldeyris-, peninga- og Evrópumálum. Sú óvissa kemur niður á starfsumhverfi atvinnulífs og því er brýnt að henni verði eytt hið fyrsta.

Tengt efni

Jafna þarf stöðu innlendra og erlendra fjölmiðla

Skoðun Viðskiptaráðs á stuðningi við einkarekna fjölmiðla (mál nr. 543)
10. jan 2023

Stjórnvöld efni loforð sín og setji aukinn kraft í einföldun regluverks

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um tímasetta aðgerðaáætlun um ...
3. feb 2022

Minni samkeppni ekki lausn á vanda landbúnaðarins

Kjöt og ostar, bæði innlendir og innfluttir, eiga það sameiginlegt að vera vörur ...
10. des 2020