Afnám tolla skilar sér þegar til neytenda

Borist hafa fregnir af því að nokkrar fataverslanir hafi ákveðið að lækka vöruverð til samræmis við boðað afnám tolla á fatnað um næstu áramót. Umbætur stjórnvalda á tollkerfinu eru því þegar farnar að skila ávinningi fyrir neytendur. Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að flýta afnámi tolla á aðrar vörutegundir og þannig auka ábata neytenda á fleiri sviðum.

Afnám vörugjalda skilaði sér að mestu fyrir gildistöku
Þessi verðlækkun fataverslana er í takt við viðbrögð raftækjaverslana við afnámi vörugjalda um síðustu áramót. Þá lækkuðu margar verslanir einnig verð fyrirfram til samræmis við áhrif vörugjaldanna (mynd 1). Afnám vörugjalda skilaði sér því að stærstum hluta til neytenda áður en breytingin tók gildi.


Flýta mætti boðuðu afnámi annarra tolla
Æskilegt er að sem stystur tími líði á milli tilkynningar um lækkun neysluskatta og gildistöku slíkrar lækkunar. Að öðrum kosti getur skapast staða þar sem neytendur bíða með kaup á viðkomandi vörum þar til lækkunin kemur til framkvæmda. Ætla má að verðlækkanir fataverslana, þrátt fyrir að fatnaður beri ennþá tolla, séu gerðar með það að markmiði að vinna gegn slíkum áhrifum.

Stjórnvöld hafa boðað að tollar verði afnumdir af fleiri vörutegundum um áramótin 2016/2017. Þar má til dæmis nefna barna-, bygginga-, heimilis-, íþrótta- og snyrtivörur ásamt heimilistækjum og myndavélum (mynd 2). Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að flýta gildistöku þess afnáms þannig það komi til framkvæmda á sama tíma og afnám tolla á fatnað og skó. Þannig má koma í veg fyrir að sambærilegt millibilsástand skapist fyrir aðrar vörutegundir á næsta ári.


Tengt efni

Gullhúðun og refsigleði í nýjum markaðssetningarlögum

Þingið hefur til umfjöllunar frumvarp til nýrra markaðssetningarlaga sem er ...
5. jún 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Icelandic Economy 4F 2022

Viðskiptaráð hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic Economy. ...
13. okt 2022