Allir tapa og enginn vinnur

Árlegur Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun í beinni útsendingu frá Hilton Reykjavík Nordica.

Þetta er annað árið í röð sem fundurinn fer fram með breyttu sniði sökum sóttvarnaráðstafana en mikill fjöldi fylgdist með fundarstreyminu. 

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, flutti opnunarávarp og kom hann meðal annars inn á mikilvægi vel heppnaðra aðgerða í peningamálum fyrir íslenskt atvinnulíf, vaxandi verðbólgu erlendis og ítrekaði ákall viðskiptalífsins um aukinn fyrirsjáanleika. Þá ræddi Ari um þriðju stoð hagstjórnarinnar – vinnumarkaðinn: 

„Vinnumarkaðurinn er mjög miðstýrður og þátttaka í stéttarfélögum hvergi meiri en hér á landi. Síðustu ár hafa laun hækkað í 10 af 11 skiptum umfram það svigrúm sem verðbólgumarkmiðið leyfir. Þessi saga er ekki ný. Ef við horfum alla leið aftur til ársins 1973 hefur launakostnaður á vinnustund hækkað um 211 þúsund prósent. Af því skiluðu 0,09% af hverri krónu auknum kaupmætti,“ sagði hann og ítrekaði að kaupmáttaraukning af hverri krónu hafi ekki einu sinni náð 0,1%. Því blasi við að eitthvað þurfi að gera öðruvísi.  

Möguleikarnir til að hækka laun áfram umfram svigrúm séu takmarkaðir án þess að það hafi einhverjar afleiðingar: 

„Hingað til hefur það verið verðbólga og gengi krónunnar. Ef laun hækka sérstaklega sem viðbragð við verðbólgu mun það aftur auka verðbólguþrýsting, - sem aftur þýðir auknar launakröfur. Við þekkjum þessa sögu alltof vel – allir tapa og enginn vinnur.“ 

Tákn um dauðann, stöðnun og aumingjaskap 

Næstur á svið var Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri. Í erindi sínu ræddi Ásgeir m.a. um verðbólguna sem heimsvandamál og lakari verðbólguhorfur hér á landi en búist er við vaxandi verðbólgu næstu þrjá mánuðina. Því næst beindi Ásgeir spjótum sínum að kjarasamningum sem voru gerðir þegar stýrivextir stóðu í 4,5% og kvaðst „hissa á því að þegar það koma stórar yfirlýsingar þegar við förum úr 1,5% í 2% að himinn og jörð sé að farast og það þurfi sérstakar hækkanir í kjarasamningum til að bregðast við. Það er úr korti við íslenskan raunverulega og við almenna skynsemi.“ 

Í því skyni benti Ásgeir á að hagvöxtur ársins í ár sé viðspyrna eftir samdrátt síðasta árs og því komi hagvaxtaraukaákvæði kjarasamninga illa við verðstöðugleika. Auk þess benti hann á að lægri raunvextir hafi hvatt efnahagslífið áfram en um leið áréttaði hann að það væri jákvætt að vextir færu hækkandi enda væru „0% vextir erlendis tákn um dauðann, stöðnun og aumingjaskap.”

Enn fremur sagði Ásgeir að aðgerðir Seðlabankans síðustu misseri hafi verið gagngert ætlaðar til að styðja við vinnumarkaðinn og halda atvinnuleysi í skefjum til að forðast viðlíka þróun og eftir hrun þegar fólk hvarf af vinnumarkaðnum til lengri tíma. Í kjölfarið sagði Ásgeir: 

„Ef við erum að fá gagnrýni frá vinnumarkaðnum um að við höfum gert of mikið, þá er það ósvífið, og í rauninni fáránlegt.“  

Ánægð með aðgerðir bankans, heilt á litið 

Í stuttu myndbroti komu sjónarmið viðskiptalífsins vel fram, en þar sögðu Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, og Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri PFAFF frá sinni upplifun af aðgerðum Seðlabankans undanfarin misseri og lýstu því hvernig komandi mánuðir líta út gagnvart þeirra rekstri. Áttu þau það öll sammerkt að vera á heildina litið ánægð með aðgerðir bankans en greina mátti áhyggjur af vaxandi verðbólgu og verðhækkunum. Þar sagði Margrét Kristmannsdóttir meðal annars: 

„En þó að flestir séu sammála um það að Seðlabankinn hafi staðið sig vel þá held ég að það skipti líka gríðarlega miklu máli að við rekum ríkissjóð vel á komandi misserum. Ég hef miklar áhyggjur af komandi kjarasamningum og mér finnst það svolítið skrýtið að aðilar vinnumarkaðarins, margir hverju, eru að stilla atvinnurekendum og launþegum upp eins og við séum í sitt hvoru liði. Í mínum huga erum við öll í sama liði.“ 

Fundinum lauk svo með líflegum pallborðsumræðum þar sem þau Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, ræddu málin undir stjórn Konráðs S. Guðjónssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Viðskiptaráðs.  

Þar svaraði Ragnar ummælum seðlabankastjóra og sagði það óboðlegan málflutning að „skella skuldinni á verkalýðshreyfinguna og þá kjarasamninga sem voru gerðir sem ástæðu þess að hér sé verið að hækka stýrivexti og það sé ástæða þess að hér hafi verðbólga farið úr böndunum og langt umfram markmið Seðlabankans.” Hann sagði augljóst að fasteignamarkaðurinn hafi keyrt verðbólguna upp og að Seðlabankann hafi gripið of seint í taumana. Skaðinn hafi þegar verið skeður. Þá sagði Ragnar „þessa skörpu hækkun vera vissulega vonbrigði“. 

Þörf á meiri skilningi á ferðaþjónustunni 

Magnea Þórey lýsti áhyggjum sínum af því að við hefðum ekki horfst í augu við að ýmislegt hefði breyst í faraldrinum og það væri ekki hægt að gera ráð fyrir að allt yrði eins, t.d. hvaða ferðamenn kæmu hingað, eftir að honum lyki. Það ætti líka við um vinnumarkaðinn. Fólk hefði aðrar væntingar til vinnunnar, vildi til dæmis eiga möguleika á fjarvinnu, en það ætti ekki við í ferðaþjónustunni sem væri mjög mannaflsfrek grein sem treysti mjög á beina þjónustu við ferðamenn og yrði ekki með góðu móti sjálfvirknivædd. 

„Í næstu kjarasamningum myndi ég vilja sjá miklu meiri skilning á þessari atvinnugrein, sem við gerum öll svona miklar væntingar til, um miklu meiri sveigjanleika milli launþega og vinnuveitenda“ sagði Magnea og bætti við að hugsanlega væri of mikil áhersla lögð á að efnahagsbatinn kæmi með fjölgun ferðamanna. „Ferðaþjónustan er skuldsett í rot og sér ekki fram á að geta nokkurn tímann borgað skuldirnar, það á eftir að koma miklu háværari umræða um afskriftir. Við erum að stóla á löskuð fyrirtæki til þess að redda okkur úr þessu.” 

Rannveig tók þá til máls og kvað ágætis árangur hafa náðst í fyrirsjáanleika, að vinnumarkaðnum undanskildum. Hún benti á að peningastefnan væri fyrirsjáanlegri með peningastefnunefnd og fundargerðum þannig markaðurinn ætti auðveldara með sjá hvað verið væri að hugsa og við hverju mætti búast. „Fjármálastefnan og fjármálaáætlun er líka árangur, það er auðveldara að áætla hvað muni gerast,” sagði Rannveig og sneri sér að vinnumarkaðnum:

„Vinnumarkaðurinn er aftur á móti ennþá, kannski eins og þið eruð með í fyrirskrift, týndi hlekkurinn. Það er alveg ljóst að hlutverk verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda er að semja um kaupmátt en ekki alltaf mestu nafnlaunahækkunina. Ef við gætum komið okkur inn á kerfi þar sem er meiri fyrirsjáanleiki varðandi launaþróun þá myndum við vera á mun betri stað.” 

Viðskiptaráð þakkar áhorfendum fyrir samfylgdina í morgun og gestum fundarins kærlega fyrir þeirra framlag. 

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs í morgun
Magnea Þórey Hjálmarsdóttir
Ragnar Þór Ingólfsson
Rannveig Sigurðardóttir
Konráð S. Guðjónsson

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023