Ásta S. Fjeldsted ráðin framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Gengið hefur verið frá ráðningu Ástu Sigríðar Fjeldsted í starf framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands.

Ásta hefur starfað fyrir alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið McKinsey & Company frá árinu 2012, bæði á Tókýó- og Kaupmannahafnarskrifstofu þess. Þar hefur hún einkum sinnt verkefnum í stefnumótun og rekstrarumbótum fyrirtækja en jafnframt haft leiðandi hlutverk í skýrslugerð um úrbætur í efnahagsmálum Japans. Áður starfaði Ásta hjá IBM í Kaupmannahöfn og stoðtækjaframleiðandanum Össur hf., bæði í Frakklandi og á Íslandi. Ásta er vélaverkfræðingur með M.Sc. frá DTU, Tækniháskólanum í Danmörku.

Ásta mun taka formlega til starfa 1. júní næstkomandi.

Ásta segir verkefnið leggjast vel í sig. „Þrátt fyrir langa dvöl erlendis eru málefni Íslands mér alls ekki ókunnug. Ég kom að Samráðsvettvangi um aukna hagsæld árið 2013 í tengslum við störf mín hjá McKinsey og fór í þeirri vinnu ofan í kjölinn á ýmsum helstu áskorunum Íslands, í samstarfi við einvala lið fólks. Það er mér ánægjuefni að mörg atriði hafa komist áfram, þó enn séu málaflokkar sem minna hafa hreyfst.

Ég hef mikla trú á dugnaði og frumkvæði Íslendinga og viðskiptalífinu almennt. Innan raða Viðskiptaráðs er breiður hópur fyrirtækja sem stendur frammi fyrir ólíkum tækifærum og áskorunum. Ég hlakka til að vinna með þeim að bættum lífskjörum og hag landsmanna almennt í samstarfi við nýja ríkisstjórn, stjórnsýsluna og aðra hagsmunaaðila. Við þurfum að styrkja innviði samfélagsins enn frekar og efla forsendur öflugs atvinnulífs og frjálsra viðskipta. Þannig verður Ísland framtíðarinnar eftirsóknarvert fyrir komandi kynslóðir."

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs, segist hlakka til samstarfsins með Ástu: „Við hjá Viðskiptaráði erum stolt af því að ná að draga jafn hæfileikaríka manneskju aftur heim til Íslands. Ásta kemur til starfa á áhugaverðum tímamótun en í haust verða 100 ár liðin frá stofnun Viðskiptaráðs. Alþjóðleg reynsla, greiningarhæfni og stjórnunarhæfileikar eru allt eiginleikar sem munu gagnast Ástu vel í verkefnunum framundan. Viðskiptaráð hefur unnið á grunni McKinsey skýrslunnar undanfarin fjögur ár og því mjög við hæfi að leita í raðir fyrirtækisins eftir nýjum framkvæmdastjóra.“

Tengt efni

Björn Brynjúlfur nýr framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Gengið hefur verið frá ráðningu Björns Brynjúlfs Björnssonar í starf ...
6. mar 2024

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Ragnar Sigurður hefur störf hjá Viðskiptaráði

Ragnar Sigurður Kristjánsson er nýr sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs
4. sep 2023