Auka þarf tengsl eftirlitsgjalda við kostnað

Rætt var við Mörtu Guðrúnu Blöndal, lögfræðing Viðskiptaráðs, í tengslum við umfjöllun Morgunblaðsins um dulda skattheimtu í formi eftirlitsgjalda og sekta. Í viðtalinu greinir Marta Guðrún frá sjónarmiðum Viðskiptaráðs um kostnað sem fellur á íslensk fyrirtæki vegna opinbers eftirlits. Heppilegast sé að eftirlitsgjöld endurspegli raunverulegan kostnað sem verður til vegna eftirlitsins. Það auki mjög ógagnsæi kostnaðar og fjármögnunar eftirlits þegar eftirlitsgjöld eru til dæmis tengd við veltu fyrirtækja. Eftirlitsgjald Lyfjastofnunar er dæmi um gjald sem innheimt er sem hlutfall af veltu fyrirtækja og segir Marta Guðrún dæmi um að lyfjafyrirtæki greiði yfir tíu milljónir króna í eftirlitsgjöld þó ekki sé gerð úttekt á viðkomandi fyrirtæki árum saman.

Annað nýlegt dæmi um tilhneigingu eftirlitsaðila til að rjúfa tengslin milli útlagðs kostnaðar og innheimts gjalds má finna í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Banana gegn ríkinu. Í því tilfelli var fyrirtækið látið greiða eftirlitsgjöld sem hlutfall af tollverði innfluttrar vöru en héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að álagning eftirlitsgjaldsins væri ólögmæt þar sem ekki voru tengsl milli fjárhæðar gjaldsins og þess eftirlits sem raunverulega fór fram. Ef tengja eigi eftirlitsgjöld við annað en veitta þjónustu verði það að vera gert með lögum.

Mikill kostnaður vegna flókins regluverks
Marta Guðrún greinir frá því að Viðskiptaráð telji auðveldara að veita opinberum aðilum aðhald ef eftirlitsaðilar innheimti bara gjöld fyrir eftirlit sem raunverulega fer fram. Ákjósanlegt væri að eftirlitsstofnanir væru nær eingöngu fjármagnaðar með framlögum úr ríkissjóði og eftirlitsgjöld og sértekjur rynnu beint í ríkissjóð.

Kostnaður vegna flókins regluverks fellur gjarnan á fyrirtæki og dæmi um það má finna innan byggingargeirans þar sem afleiðingin er hægagangur á markaðnum. Húsbyggjendur geta þurft að leita til 51 ólíks byggingarfulltrúa eftir því hvar eign er staðsett, sem síðan þarf að skoða allt að 904 atriði þegar hönnunargögn eru afhent. Þá þurfi yfir 20 áfangaúttektir að fara fram áður en mannvirki er tekið í notkun.

Dómstólar ákvarði upphæð stjórnvaldssekta
Marta Guðrún telur einnig ástæðu til að skoða fyrirkomulag við ákvörðun sekta hér á landi. Í dag eru tekjur ríkisins vegna stjórnvaldssekta að aukast, m.a. vegna þess að heimildir stjórnvalda til að leggja á sektir hafi verið auknar. Þó að sektir renni í langflestum tilfellum beint í ríkissjóð geta verið til staðar hvatar fyrir eftirlitsstofnanir að innheimta sem hæstar sektir. Sem dæmi nefnir hún að Samkeppniseftirlitið hafi rökstutt það að stofnunin eigi að fá hærri framlög úr ríkissjóði með vísan til hárra sekta sem eftirlitið hafi lagt á fyrirtæki. Viðskiptaráð varar við því að ávinningurinn af eftirliti ríkisins sé metinn eftir fjárhæð sekta, því markmið eftirlits eigi að vera að fyrirbyggja brot en ekki innheimta sektir. Því væri heppilegra að taka upp það fyrirkomulag sem tíðkast í mörgum nágrannaríkjum Íslands og víða í Evrópu, að dómstólar ákvarði fjárhæðir sekta en ekki eftirlitsstofnunin sjálf.

Að lokum greinir Marta frá því að ef fyrirkomulaginu verði ekki breytt þá verði eftirlitsstofnanirnar að gefa út leiðbeiningar eða reglur um ákvarðanir sektarfjárhæða eins og tíðkast í flestum Evrópuríkjum. Það virðist vera mjög matskennt hvernig sektarfjárhæðir eru reiknaðar út og er álagning þeirra því ekki gagnsæ.

Tengt efni:

Tengt efni

Viðskiptaráð ítrekar ábendingar um atriði sem stríða gegn almannahagsmunum

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur (167. mál).
20. okt 2022

Viðskiptaráð hvetur löggjafann til að leita hófsamari leiða

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum
1. nóv 2022

Hæpnar forsendur og ósjálfbær útgjaldavöxtur

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023
12. okt 2022