Hvar er best að búa?

Viðskiptaráð hefur uppfært gagnvirka reiknivél sína á vefnum Hvar er best að búa með það að markmiði að auka gagnsæi um skattheimtu, gjöld og skuldsetningu á sveitarstjórnarstigi.

Það er margt sem ber að huga að þegar spurt er hvar sé best að búa en fólk kýs auðvitað ekki endilega að búa þar sem álögur eru lægstar. Gæði þjónustu skipta máli, hvaða atvinnutækifæri eru í boði og önnur gæði sem felast í því að búa á einum stað umfram annan. Vefurinn Hvar er best að búa er tól til þess að upplýsa íbúa um gjöld og álögur í sínu sveitarfélagi en í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga er hlutverk frambjóðenda einmitt að rökstyðja hvers vegna best geti verið að búa í sveitarfélagi þeirra.

Viðskiptaráð Íslands hefur frá árinu 2015 haldið úti vefnum Hvar er best að búa, þar sem notendum gefst kostur á að bera saman kostnað við að búa í sveitarfélögum landsins. Á vefnum er hægt að slá inn upplýsingar út frá búsetu, fjölskyldusamsetningu, launatekjum og stærð húsnæðis.

Á vefnum má sjá yfirlit yfir skatta, gjöld og skuldir sveitarfélaganna miðað við gjaldskrár 2022. Einnig má bera saman niðurstöðurnar við landsmeðaltal og önnur sveitarfélög. Markmið Viðskiptaráðs með vefnum er að auka gagnsæi um skattheimtu, gjöld og skuldsetningu á sveitarstjórnarstigi.

Tökum dæmi um eftirfarandi vísitölufjölskyldu:

  • Foreldrar og tvö börn
  • Samanlögð laun foreldranna eru 1,2 m. kr. á mánuði fyrir skatt
  • Annað barnið er í daggæslu og hitt í leikskóla
  • Fjölskyldan býr í 100 fermetra íbúð í Reykjavík

Þegar þessar upplýsingar hafa verið slegnar inn kemur í ljós að Reykjavík er í 13. sæti yfir þau sveitarfélög þar sem hagstæðast er fyrir fjölskylduna að búa. Miðað við gefnar forsendur fjölskyldunnar væri hagstæðast að búa í Kjós en óhagstæðast að búa í Grundarfirði.

Markmið Viðskiptaráðs Íslands með útgáfu reiknivélarinnar er ekki að fullyrða að best sé að búa í einu sveitarfélagi og verst í öðru heldur að veita einstaklingum tækifæri til að bera sveitarfélögin saman með eigin forsendur í huga.

Smelltu hér til að komast að því hvar reiknivélin segir að best sé fyrir þig að búa og hvernig greiðslur til þíns sveitarfélags skiptast niður.

Tengt efni

Tækifæri fólgin í færri og stærri sveitarfélögum

Fyrirkomulag Jöfnunarsjóðs dregur úr hvötum til sameiningar og hagræðingar í ...
18. feb 2022

Mótsagnakenndar áhyggjur af bankasölu

Staðreyndin er sú að enginn er að tala um að draga að miklu leyti úr eigin fé ...
24. feb 2021

Forgangsröðun í þágu verðmætasköpunar

Á þessum tímapunkti þurfa stjórnvöld að forgangsraða í ríkisfjármálum til ...
20. okt 2020