Breskir fjárfestar og verslanir kynnast íslenskum heilsuvörum

Fulltrúar tíu íslenskra fyrirtækja sem framleiða heilsu- og snyrtivörur eru nú í London í ferð á vegum Bresk-íslenska viðskiptaráðsins.

„Það er alveg frábært að sjá fjölbreytnina og þann mikla metnað sem býr í íslenskum fyrirtækjum. Við sjáum að hérna eru að myndast góð tengsl, íslensk fyrirtæki eru að fá að kynna sig og um leið fá fræðslu og ráðgjöf sem mun nýtast þeim við áframhaldandi markaðssetningu á erlendum mörkuðum. Ísland er auðvitað þekkt fyrir náttúruna, umhverfisvænu orkuna og svo margt fleira sem ég trúi að gefi íslenskum fyrirtækjum á heilsu- og snyrtivörumarkaði ákveðið forskot sem við erum vonandi að ýta undir.“

Þetta segir Dagmar Þorsteinsdóttir, formaður Bresk-íslenska viðskiptaráðsins, sem nú er stödd í London ásamt fulltrúum tíu íslenskra fyrirtækja sem framleiða heilsu- og snyrtivörur. Markmið ferðarinnar er að kynna íslensk fyrirtæki þar ytra, byggja upp gagnkvæm viðskiptatengsl og um leið að fræðast um helstu tækifæri og hindranir á breskum markaði.

Ferðin er skipulögð af Bresk-íslenska viðskiptaráðinu og Viðskiptaráði Íslands í samstarfi við Íslandsstofu, og Samtök iðnaðarins. Á dagskrá ferðarinnar eru meðal annars heimsóknir í verslanir John Bell & Croyden, Selfridges og Pantechnicon auk heimsóknar á Lundúnaskrifstofu íslenska lyfjafyrirtækisins Alvogen. Með heimsóknunum fá íslensku fyrirtækin góða innsýn í breskan smásölumarkað, ráðgjöf um gerð markaðsstefnu fyrir breskan markað og ýmis góð ráð til árangurs í erlendri markaðssetningu.

Þá hefur fjölda erlendra fjárfesta, ráðgjöfum og stjórnendum verslana verið boðið í Sendiráð Íslands í London þar sem fulltrúar íslensku fyrirtækjanna fá tækifæri til að flytja lyfturæður (elevator pitch) og þannig kynna sínar vörur og leggja grunn að auknum útflutningi á íslenskum heilsu- og snyrtivörum.

Í hópnum sem nú er í London eru fulltrúar eftirtalinna fyrirtækja, sem öll eru félagar í Bresk-íslenska viðskiptaráðinu:

- Angan Skincare
- ChitoCare
- Dropi
- Eylíf
- Feel Iceland
- GeoSilica
- Íslensk hollusta
- Lýsi
- Saga Natura
- Sóley Organics 

Bresk-íslenska viðskiptaráðið er eitt af 16 millilandaráðum sem starfa á vettvangi Viðskiptaráðs Íslands. Markmið ráðsins er að efla og viðhalda viðskiptatengslum milli Bretlands og Íslands. Líkt og önnur millilandaráð stendur Bresk-íslenska viðskiptaráðið reglulega fyrir viðburðum, bæði á Íslandi og erlendis, og skipuleggur fjölbreyttar ferðir viðskiptasendinefnda.

Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London
Frá heimsókn hópsins í John Bell & Croyden
Frá heimsókn hópsins í Selfridges
Sigrún Lilja Guðbjartsdóttir, framkvæmdastjóri Bresk-íslenska viðskiptaráðsins, og Dagmar Þorsteinsdóttir, formaður ráðsins
Frá heimsókn hópsins í Pantechnicon

Tengt efni

Betra er brjóstvit en bókvit

Eru bækur dýrar?
28. okt 2022

Nú er bara að hefjast handa

Á Skattadeginum 2022 var sjónum beint að nauðsynlegum umbótum í íslensku skattkerfi
13. jan 2022

AMIS: Bíósýning

Sambíóin bjóða félögum í Amerísk-íslenska viðskiptaráðinu í bíó fimmtudaginn 3. ...
3. nóv 2016