Bjarnargreiði ASÍ gagnvart launafólki

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fullyrt er að styrking krónunnar undanfarin misseri hafi skilað sér illa til neytenda í formi lægra vöruverðs. Sú fullyrðing á hins vegar ekki rétt á sér. Þannig lítur ASÍ framhjá bættum kjörum launafólks í greiningu sinni sem skekkir niðurstöður sambandsins.

Þetta er í sjötta sinn á þremur árum sem Viðskiptaráð leiðréttir ASÍ þegar kemur að fullyrðingum um verðlagsþróun. Þá hefur einn stærsti smásöluaðili raf- og heimilstækja á Íslandi greint frá því að sambandið hafði ekki áhuga á að skoða upplýsingar um verðlagningu þeirra þótt þeim hafi staðið það til boða. Vilji til að komast að réttri niðurstöðu í greiningum sínum virðist því ekki vera í forgangi hjá sambandinu.

Vinnubrögð ASÍ eru ámælisverð og fela í sér bjarnargreiða gagnvart þeirra eigin skjólstæðingum – launafólki á Íslandi. Með því að sá óverðskulduðum fræjum efasemda um árangur af lækkun neysluskatta grefur sambandið undan frekari aðgerðum sem auka kaupmátt launafólks.

Laun hafa hækkað um 32% á þremur árum
Laun á almennum vinnumarkaði hafa hækkað um 32% síðastliðin þrjú ár. Sérstök áhersla hefur verið lögð á hækkun lægstu launa, svo ætla má að kjör starfsfólks verslana hafi hækkað jafnvel meira. Þessar hækkanir auka rekstrarkostnað innlendra smásala og vinna þannig gegn möguleika þeirra til að lækka vöruverð í beinu hlutfalli við sterkari krónu og lægri skatta.

Ætla má að styrking krónunnar hafi gert það að verkum að verðlag hefur haldist stöðugt þrátt fyrir miklar launahækkanir síðustu misseri. Einungis hluti af kostnaði fyrirtækja eru innfluttar vörur – launakostnaður er ekki síður veigamikill þáttur. Þetta þarf að hafa í huga ef ætlunin er að greina áhrif ólíkra þátta á verðlag.

Gengisáhrif og skattalækkanir hafa skilað sér til neytenda
Þegar litið er til allra þátta bendir ekkert til annars en að hagfelld þróun í innkaupakostnaði smásala hafi skilað sér að fullu til neytenda. Þannig hefur verð á heimilistækjum lækkað um 27% samanborið við almennt verðlag á síðustu tveimur árum, verð á sjónvörpum um 24%, verð á heimilisáhöldum um 18% og verð á leikjatölvum um 17%, svo nokkur dæmi séu tekin.

Það er von Viðskiptaráðs að sambandið endurskoði nálgun sína þegar kemur að verðlagskönnunum í framtíðinni með hlutlægni og fagleg vinnubrögð að leiðarljósi.

Tengt efni

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Kostnaðarsöm leið að göfugu markmiði

Ný greining frá Viðskiptaráði á kostnaði íslenskra fyrirtækja vegna íþyngjandi ...
5. júl 2023