Einföldun regluverks: vilji er ekki allt sem þarf

Regluverk hérlendis er íþyngjandi miðað við grannríkin og skortur hefur verið á efndum fyrirheita um einföldun þess. Þetta kom fram í erindi sem Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, flutti á hádegisverðarfundi Félags löggiltra endurskoðenda. Fundurinn fór fram á Grand Hótel Reykjavík þann 7. október.

Í erindi sínu sagði Björn að gæta þurfi þess í hvert sinn við setningu nýrra reglna að ávinningurinn sé meiri en heildarkostnaður. Jafnframt þurfi að tryggja að eftirlit keyri ekki úr hófi fram. Björn sagði beinan kostnað vegna regluverks umtalsverðan en óbeini kostnaðurinn – í formi lægri framleiðni – væri meiri. Þá sagði Björn að kostnaður vegna regluverks geti skipst með ófyrirséðum eða ójöfnum hætti á milli aðila og að regluverk komi harðar niður á smærri aðilum.

Óánægja með regluverkið hérlendis
Í samkeppnishæfniúttekt IMD kemur fram að á Íslandi ríki meiri óánægja með skilvirkni regluverks en á öðrum Norðurlöndum. Björn taldi að hluti af ástæðu þess megi rekja til viðhorfa og hvata innan stjórnsýslunnar. Þá þurfi fyrirkomulag stofnanaumhverfis að taka meira tillit til smæðar hagkerfisins. Vegna smæðarinnar verði eftirlitsstofnanir fámennari en engu að síður sé reynt að viðhalda kerfi í takt við mun stærri hagkerfi.

Björn telur að auka megi líkur á innleiðingu árangursríkra aðgerða til einföldunar regluverks með aukinni aðkomu stjórnmálanna. Sú aðkoma þurfi að vera í formi aukinnar pólitískrar forystu, gagnsæis og eftirfylgni með framvindu í einföldunarferlinu. Yfirlýstur vilji stjórnmálamanna sé ekki allt sem þurfi.

Kynningu Björns Brynjúlfs má nálgast hér

Tengt efni

Stígum skrefið til fulls - öllum til hagsbóta

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur (mál nr. 470)
2. jún 2022

Ávinningur af einföldun regluverks

Staða Íslands er að mörgu leyti slæm þegar horft er til umfangs regluverks og ...
3. des 2020

Hádegisverðarfundur um afleiður.

Viðskipti með afleiður eru í miklum vexti og hafa aukist undanfarið sem aldrei ...
5. jún 2008