Fjárlög 2016: Auknar skatttekjur fjármagna hærri launakostnað

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur nú lagt fram frumvarp til fjárlaga ársins 2016. Frumvarpið markast af bættum aðstæðum í íslensku efnahagslífi, en áætlaðar skatttekjur aukast um 45 ma. kr. sem jafngildir um 6% hækkun á milli ára. Skortur á aðhaldi þegar kemur að launakostnaði veldur áhyggjum en tímabærar skattalækkanir eru fagnaðarefni.

Launakostnaður áhyggjuefni
Þrátt fyrir brýna þörf er ekki gert ráð fyrir áframhaldandi aðhaldi í rekstri heldur vaxa útgjöld umtalsvert á milli ára. Það má fyrst og fremst rekja til hærri launakostnaðar. Launaútgjöld hækka um 15 ma. kr. á milli ára, sem jafngildir um 10% aukningu. Þar gætir áhrifa þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið við fjölmenna hópa opinberra starfsmanna. Vegna mikilla hækkana í þeim samningum er fyrirséð að þessi kostnaður muni aukast enn frekar á næstu árum. Hætt er við því að það ýti undir þenslu á komandi misserum.

Skattalækkanir tímabærar
Viðskiptaráð fagnar því að stjórnvöld skili hluta tekjuaukans í formi skattalækkana. Afnám tolla á allar vörur nema matvörur er sérstakt fagnaðarefni, en slík skattheimta hefur verulega neikvæð áhrif á lífskjör hérlendis án þess að afla hinu opinbera markverðra tekna. Þá er lækkun tekjuskatts einstaklinga og fækkun þrepa einnig fagnaðarefni, en sú breyting eykur hvata millitekjufólks til að auka við tekjur sínar.

Þó er ljóst að ganga hefði átt lengra við lækkun skatta. Skattalækkanir nema einungis um fjórðungi af aukningi skatttekna ríkissjóðs á milli ára. Sérstök vonbrigði eru að tryggingagjöld hafi ekki lækkað meira í ljósi þess að atvinnuleysi hefur lækkað verulega á undanförnum misserum. Þá myndi lækkun tryggingagjalda einnig vinna gegn verðbólguáhrifum nýlegra kjarasamninga. Auk þess hefði mátt lækka fjármagnstekjuskatt, en vaxandi verðbólga á næstu árum mun leiða til aukinnar skattheimtu á sparnað með neikvæðum afleiðingum fyrir fjárfestingu.

Langtímasýn styður við aukna framleiðni
Jákvætt er að sjá langtímaáætlun ráðuneytisins um óbreytt eða minnkandi umsvif hins opinbera og niðurgreiðslu skulda á komandi árum. Þá er einnig fagnaðarefni að sjá aukna áherslu stjórnvalda á nýsköpun og rannsóknir. Sú stefnumörkun sem fjárlögin bera með sér á þessum sviðum er til þess fallin að styðja við markmið stjórnvalda um aukna framleiðni og fjárfestingu á komandi árum.


Athugasemd: Áður var fyrirsögnin „Aukin skattbyrði fjármagnar hærri launakostnað“ en skatttekjur eru það hugtak sem á við í þessu tilfelli. Fyrirsögninni hefur því verið breytt til samræmis.

Tengt efni

Höfum við efni á þessu?

Í því efnahagsástandi sem nú ríkir er tímabært að ræða sívaxandi umsvif hins ...
23. jún 2023

Nauðsynlegt að skapa rétta hvata

Umsögn Viðskiptaráðs og SA um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs ...
31. mar 2023

Hæpnar forsendur og ósjálfbær útgjaldavöxtur

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023
12. okt 2022