Fögnum löngu tímabæru afnámi þaksins

Viðskiptaráð Íslands fagnar fyrirætlunum stjórnvalda um afnám þaks á endurgreiðslur rannsókna- og þróunarkostnaðar fyrirtækja, sem boðaðar eru í fjármálaáætlun 2019-2023. Ráðið hefur ásamt öðrum hagsmunasamtökum og fyrirtækjum lengi talað fyrir því að auka framlög til rannsókna og þróunar og því eru tíðindin sérstaklega ánægjuleg. Með þessu verður samkeppnishæfni Íslands styrkt enn frekar.

Aukin nýsköpun er ekki val heldur nauðsyn

Nýjustu spár áætla að íbúum Íslands muni fjölga um meira en 100.000 á næstu 50 árum. Á sama tíma mun þjóðin eldast og aldurssamsetningin breytast þannig að framfærsluhlutfall 65 ára og eldri mun ríflega tvöfaldast. Þessar breytingar krefjast þess að lögð verði áhersla á aukna nýsköpun sem eykur framleiðni og er því lykilþáttur til að tryggja áframhaldandi hagsæld. Stuðningur stjórnvalda við aukna nýsköpun sem skapast af rannsókna- og þróunarstarfi í formi skattaívilnana hefur reynst samanburðarlöndum okkar farsæll og því er það fagnaðarefni að hugað sé að þessum málum með svo skýrum hætti.

Ekkert fast í hendi – klárum málið

Hafa skal þó í huga að Alþingi á eftir að samþykkja fjármálaáætlun og breytingin kemur ekki til framkvæmda fyrr en á næsta ári. Ef í harðbakkann slær getur reynst freistandi að fresta afnámi þaks á endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar þar sem ávinningur þess getur tekið nokkur ár að skila sér í nýrri þekkingu og aukinni verðmætasköpun. Viðskiptaráð skorar á stjórnvöld að standa við áætlanir sínar um áherslur á nýsköpun og afnám þaksins þó að efnahagsaðstæður kunni að breytast. Það er kannski einmitt þá sem þörfin á slíkri starfsemi er enn meiri.

Tengt efni

Umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um Orkusjóð

Viðskiptaráð Íslands telur breytt frumvarp til breytinga á lögum um Orkusjóð til ...

Umsögn um drög að frumvarpi um loftslags- og orkusjóð

Viðskiptaráð skilaði á dögunum inn umsögn um drög að frumvarpi til laga um ...
21. mar 2024

Viðspyrna forsenda velferðar

Í ljósi þess hve mikið er í húfi, einkum vegna atvinnuleysis á „biblískum skala“ ...
28. apr 2020