Hundruð milljóna sparast vegna einföldunar regluverks

Viðskiptaráð fagnar því að Alþingi hafi samþykkt lög sem fela í sér að innlendir aðilar verða undanþegnir svokallaðari skjölunarskyldu í nýjum reglum um milliverðlagningu. Með því hefur verið komið í veg fyrir að nýtt íþyngjandi regluverki skapi atvinnulífinu hundruð milljóna í kostnað.

Milliverðlagsreglurnar voru lögfestar í byrjun árs 2014. Meginmarkmið þeirra er að fyrirbyggja skattundanskot með því að koma í veg fyrir að tengdir aðilar í tveimur eða fleiri ríkjum hliðri tekjum eða gjöldum sín á milli með óeðlilegum hætti til að draga úr skattgreiðslum. Viðskiptaráð fagnaði innleiðingu reglnanna, enda færðu þær rekstrarumhverfi fyrirtækja í alþjóðlegum viðskiptum nær því sem tíðkast í öðrum ríkjum.

Þegar reglurnar voru innleiddar hér á landi var hins vegar gert ráð fyrir því fyrirtæki í innlendum viðskiptum skyldu einnig falla undir skjölunarskylduna. Slíkt var hins vegar óþarft þar sem innlendir aðilar sem eiga í viðskiptum sín á milli geta ekki nema í algjörum undantekningartilfellum haft með þeim áhrif á heildarskattgreiðslur sínar hérlendis, enda skattaumhverfi beggja aðila það sama.

Þau fyrirtæki sem falla undir hinar nýju reglur bera umtalsverðan kostnað af uppfyllingu þeirra. Skrá þarf öll viðskipti með stöðluðum hætti í gagnagrunn og miðað við tilboð sérfræðinga getur kostnaður við uppsetningu slíks gagnagrunns numið tugum milljóna fyrir hvert fyrirtæki. Jafnframt auka reglurnar rekstrarkostnað og draga bæði úr sveigjanleika og hraða í viðskiptum.

Af þessum sökum hefur Viðskiptaráð beitt sér fyrir undanþágu innlendra aðila frá skjölunarskyldunni.1 Slík undanþága var loks lögfest í júní síðastliðnum. Með henni spara íslensk fyrirtæki hundruð milljóna í óþarfan kostnað. Sú aukna hagkvæmni sem hlýst af undanþágunni eykur framleiðni í atvinnulífinu sem því nemur.

Viðskiptaráð fagnar því að fjármála- og efnahagsráðuneytið og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis séu opin fyrir málefnalegum sjónarmiðum atvinnulífsins þegar kemur að einföldun regluverks. Viðbrögð nefndarmanna sýna að störf þingnefndanna eru mikilvæg og geta skilað verulegum ávinningi.

1 Sjá umsögn Viðskiptaráðs um frumvarpið hér: vi.is/malefnastarf/umsagnir/Tekjuskattsbreytingar/

Tengt efni

Ísland í dauðafæri á stafrænni vegferð stjórnvalda

Enn er Ísland eftirbátur margra samanburðarþjóða í þróun stafrænnar þjónustu á ...
14. des 2020

Auknar ráðstöfunartekjur í heimsfaraldri

Útlit er fyrir að tekjujöfnuður hafi staðið í stað á síðasta ári en dregið hafi ...
5. júl 2021

Vafa eytt um réttaráhrif birtingar

Viðskiptaráð fagnar þeirri stefnumörkun stjórnvalda að gera þjónustu hins ...
16. apr 2021