Hver ber ábyrgð á verðbólgunni?

Ávarp formanns Viðskiptaráðs á Peningamálafundi sem fram fór í gær, 24. nóvember 2022.

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs

Í dag eru nákvæmlega þúsund dagar síðan fyrsta kórónuveirusmitið greindist hér á landi. Ég veit, það er alltaf gott að byrja á léttu nótunum.

Ég var reyndar einhvern tímann búinn að lofa sjálfum mér að tala aldrei framar um þennan faraldur í ræðu, en það er eiginlega ómögulegt annað við þetta tækifæri. Eins og við öll vitum voru áhrifin ekki einungis heilsufarsleg, heldur einnig efnahagsleg.

Efnahagslegu afleiðingarnar þekkjum við mætavel og erum við að mörgu leyti enn að vinna okkur út úr þeim.

Við vorum reyndar flest býsna brött í byrjun árs. Vel hafði gengið að verja kaupmátt almennings og styðja við starfsemi fyrirtækja, hlutabréfamarkaðurinn sterkur og við vorum nokkuð viss um að faraldurinn væri á undanhaldi.

Vissulega var verðbólgan farin að láta á sér kræla og Seðlabankinn byrjaður að hækka vexti, en ég held að við höfum öll talið að þetta væri skot sem yrði frekar fljótt hægt að koma böndum á. En svo braust út stríð.

Afleiðingarnar eru hrikalegar. Fyrst og fremst fyrir Úkraínumenn sjálfa, en óbein áhrif stríðsins eru einnig mikil um allan heim. Við verðum sennilega mest vör við áhrifin á Evrópu, þar sem orkuskortur og orkuverð hefur verið í brennidepli.

Þótt við prísum okkur sæl með okkar orkumarkað núna, erum við ekki ónæm fyrir afleiddum áhrifum af háu orkuverði erlendis.  

Við sem erum í innflutningi finnum mikið fyrir þessu. Hækkanir voru byrjaðar í faraldrinum, þegar ýmiskonar brestir í aðfangakeðjum og háum flutningsgjöldum var helst um að kenna. En í kjölfarið  hafa hrávöruverðshækkanir náð nýjum hæðum  og flutningsgjöldin hafa ekkert gefið eftir. Mitt fyrirtæki, 1912, sem og önnur fyrirtæki, höfum brugðist við þessu ástandi með hagræðingaraðgerðum og reynt eftir fremsta megni að velta þessum hækkunum sem minnst út í verðlagið.

Ég leyfi mér að fullyrða að það hafi tekist vel. Sem dæmi má nefna að verð á heimsmarkaði skv. matvælaverðsvísitölu FAO, hefur hækkað langtum meira en verð út úr búð hérlendis. Aðeins í Sviss mælist hækkun matvælaverðs minni en hér á landi. Í september stóðu erlendar hækkanir í 15% milli ára en í 5% hérlendis.

Orkuverð hér hjálpar til við að halda aftur af hækkunum, en hver er ástæðan fyrir því að innflutningsfyrirtæki, innlendir framleiðendur og verslunin forðast í lengstu lög að velta erlendum verðhækkunum út í verðlag? Mér finnst svarið liggja í augum uppi. Öflug samkeppni veitir aðhald, enda vill enginn verðleggja sig út af markaðnum. Þótt birgjar þurfi að sjálfsögðu að geta staðið undir því verði sem þeir bjóða hverju sinni, þurfa þeir líka að hugsa til langs tíma. Snarpar og miklar hækkanir til skamms tíma geta hæglega rutt vörumerkjum út af markaðnum.

Til þess að setja hlutina í samhengi er oft gott að taka ákveðin dæmi sem er auðvelt að tengja við. Í því samhengi er mér minnisstætt vandamál sem ég stóð frammi fyrir í kjölfar fjármálahrunsins fyrir rúmum áratug síðan. Ég flyt sem sagt inn vörur frá Betty Crocker og þar á meðal er mjög vinsælt kökumix, sem er staðalbúnaður á flestum íslenskum heimilum enda til þess fallið að einfalda líf fólks. Eftir hrun varð innkaupaverðið á þessari vöru orðið svo hátt að það var nánast orðið ódýrara að kaupa öll hráefnin og baka kökuna frá grunni. Það kom þó aldrei til greina að verðleggja vöruna út af markaði. Ég bölvaði því bara genginu og hagræddi enn frekar í rekstrinum og tókst þannig að bjarga þessu ástarsambandi íslenskra bakara og Betty Crocker.

Á þessum tíma var íslenska krónan okkur erfið í ýmsu samhengi, þótt hún hafi skapað svigrúm fyrir útflutningsgreinar og gert okkur kleift að taka niðursveifluna gegnum gjaldmiðilinn en ekki vinnumarkaðinn. Gengismál hafa lengi verið stjórnendum fyrirtækja hugleikin og skipað um árabil efsta sætið í könnunum um ytri áhættuþætti í rekstri. Nú bregður svo við að í nýjustu könnun Deloitte, meðal fjármálastjóra stærstu fyrirtækja landsins, fellur gengisþróun í skuggann af verðbólgu og vöxtum.

Það ætti kannski ekki að koma á óvart, þar sem Seðlabankinn hefur hækkað vexti bratt eftir að þeir náðu sögulegu lágmarki í fyrra. Nú höfum við horft upp á hækkun, óslitið, tíu fundi í röð, um alls 5,25 prósentustig.

Ég verð að segja að niðurstaða peningastefnunefndar í gær er mér mikil vonbrigði. Í október taldi seðlabankastjóri að aðgerðir bankans væru farnar að bíta og vonir voru gefnar um að toppnum væri náð. Vissulega er verðbólgan á svipuðum stað og við síðustu ákvörðun, en mér finnst þarna gæta óþolinmæði hjá nefndinni. Boltinn var sendur á aðila vinnumarkaðarins fyrir mánuði, en þeir hafa ekki einu sinni fengið tækifæri til að taka við sendingunni í raun. Miðað við fréttir í gær hefur þessi ákvörðun þegar haft alvarleg áhrif á viðræðurnar og svo ég haldi áfram með líkingamálið – í þessu tilviki finnst mér Seðlabankinn einfaldlega vera rangstæður.

En að þessu sögðu er ekki um annað að ræða en að líta fram á veginn og spyrja hvað við getum gert til að koma okkur aftur í samkeppnishæft vaxtaumhverfi. Þar horfi ég bæði til vinnumarkaðarins og ríkisfjármálanna - og leyfi mér að vona að draumur seðlabankastjóra - og okkar allra -  um lágvaxtalandið Ísland sé ekki úti.

Byrjum á ríkisfjármálunum. 

Við sem tölum fyrir atvinnulífið höfum haft áhyggjur af skorti á aðhaldi hjá hinu opinbera. Það er þó rétt að taka fram að við studdum að meginstefnu þær ákvarðanir sem teknar voru í faraldrinum. Þar unnu saman ákvarðanir Seðlabankans, um að örva hagkerfið með vaxtalækkunum, og ríkisstjórnarinnar um aukin útgjöld til að styðja við almenning og gera fyrirtækjum kleift að standa af sér áfallið – og standa við kjarasamninga. Það er með ólíkindum að tekist hafi að verja ráðstöfunartekjur fólks með þeim hætti sem hér var gert, og gott betur, því kaupmáttur jókst um rúm 7% í faraldrinum.

Þótt þetta sé að baki þurfa þurfa ríkisfjármálin og peningastefnan áfram að vinna saman, ekki síst í þessu árferði verðbólgu og spennu. Þrátt fyrir yfirlýsingar um aðgerðir gegn þenslu halda ríkisútgjöld áfram að aukast.  Misræmi í tekjum og útgjöldum er mikið og gatið í ríkisrekstrinum stórt. Við því þarf að bregðast, en svo það sé sagt er leiðin til þess ekki að auka tekjur ríkisins með sértækum skattahækkunum - eða hvalrekasköttum á fyrirtæki. Á bak við slíkar aðgerðir þurfa að vera sterkari rök en að reksturinn gangi betur í ár en síðasta ár – því sjaldan hefur maður heyrt að lækka þurfi skatta þegar sverfur að í rekstri fyrirtækja. Eðlilega, gæti einhver sagt, þar sem skattkerfi okkar er að stærstum hluta byggt upp af hlutfallssköttum, sem gera það að verkum að þegar vel gengur hækka skattgreiðslur en lækka þegar illa árar. 

Óvissa í rekstrarumhverfi fyrirtækja hvetur ekki til verðmæta- eða nýsköpunar.

En fyrst ég er farinn að tala um óvissu, þá er rétt að víkja að þætti vinnumarkaðarins. Hér eru lausir kjarasamningar eins og ég minntist á áðan og háværar raddir hafa heyrst um að hækka þurfi laun enn frekar til að mæta hækkandi verðbólgu.

Sumir tala eins og svigrúm til launahækkana sé bara einhverjum ímynduð stærð, sem kokkuð er upp í Húsi atvinnulífsins, en það er mjög raunverulegt og áhrif þess að hunsa það eru þekktar.

Ef laun hækka umfram svigrúm sem viðbragð við verðbólgu mun það aftur auka verðbólguþrýsting og rýra kaupmátt, - sem aftur þýðir auknar launakröfur. Þennan spíral þekkjum við allt of vel og ég ætla að treysta því - þangað til annað kemur í ljós - að við samningaborðið sitji skynsamt fólk sem taki réttar ákvarðanir.

Góðir gestir Peningamálafundar.

Það er deginum ljósara að við búum við sérstakar aðstæður og stöndum frammi fyrir krefjandi tímum. Verðbólga er mun hærri en við höfum átt að venjast síðustu þrettán ár. Síðustu fimm árin fyrir faraldurinn var verðbólga að meðaltali einungis 2,15%. Frá því í byrjun árs 2020 og þangað til nú hefur hún hækkað úr tæpum tveimur prósentum í 9,4.

En hver ber ábyrgð á verðbólgunni, svo ég vísi nú í yfirskrift fundarins. Má alfarið skella skuldinni á faraldurinn og allt sem honum fylgdi, svo sem peningaprentun og bresti í aðfangakeðjum heimsins? Eða er stríðið í Úkraínu sökudólgurinn, með verðhækkunum á hrávörum og orkugjöfum? Eða er verðbólgan tilkomin vegna vaxtalækkana Seðlabankans sem urðu til þess að keyra upp fasteignaverð sem nú skýrir stóran hluta verðbólgunnar? Eða launahækkana umfram svigrúm eða ríkissjóðs, sem hvetur að okkar mati til þenslu á tímum verðbólgu og hás vaxtastigs?

Við getum sennilega slegið því föstu að allir ofangreindir þættir – og fleiri til - hafi haft sitt að segja, en þá er spurningin hvernig við vinnum úr þessari stöðu og ég er örugglega ekki einn um það hér í salnum, að vera spenntur fyrir að heyra hvað seðlabankastjóri og fjármálaráðherra hafa fram að færa hér á eftir. Ég ætla því ekki að hafa þetta lengra en býð Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóra velkominn á svið.

Tengt efni

Lægri skattar og sjálfbær ríkisfjármál bæta samkeppnishæfni Íslands 

Undanfarinn áratug hefur samkeppnishæfni Íslands smám saman batnað, en fyrir tíu ...
21. jún 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni. Þau hafa aftur á móti mikil áhrif á ...
26. jún 2023