Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic Economy. Skýrslan er á ensku og fjallar um íslenskt efnahagslíf í víðu samhengi.

Í skýrslu Viðskiptaráðs er að vanda fjallað um hagþróun síðustu mánaða, skammtímahagvísa, þróun í utanríkisviðskiptum, samkeppnishæfni og stofnanaumgjörð, svo eitthvað sé nefnt.

Íslenska hagkerfið hefur sýnt mikinn þrótt og aðlögunarhæfni undanfarin ár sem endurspeglast í kröftugri viðspyrnu efnahagslífsins. Hagvöxtur mældist 6,4% á síðasta ári. Þrátt fyrir að hann hafi verið á breiðum grunni vó kröftug innlend eftirspurn og vaxandi þjónustuútflutningur þungt. Hagspár áætla að hagvöxtur geti numið 4,8% í ár, þar sem aukin eftirspurn, fjármunamyndun og jákvæð áhrif utanríkisviðskipta leika lykilhlutverk.

Miklar verðhækkanir hafa einkennt húsnæðismarkaðinn undanfarin tvö ár en fasteignaverð hækkaði að jafnaði um 20% á höfuðborgarsvæðinu í fyrra. Virði fasteigna í eigu heimila óx um 8,5% að raunvirði á árinu 2022 en þrátt fyrir mikinn útlánavöxt til fasteignakaupa lækkaði meðallánshlutfall heimila úr 34% í 30% undir lok árs 2022. Hlutfallið hefur því lækkað umtalsvert frá því það stóð hæst í 51% árið 2011 og hefur í raun aldrei verið lægra frá upphafi mælinga árið 1997.

Seðlabanki Íslands hefur aukið aðhald peningastefnunnar sem viðbragð við aukinni verðbólgu, spennu á vinnumarkaði og heitum húsnæðismarkaði. Nú síðast hækkaði Seðlabankinn vexti í maí og var það í þrettánda sinn sem bankinn hækkaði stýrivexti. Aðgerðir bankans virðast hafa haft tilætluð áhrif en árstaktur verðbólgunnar hefur lækkað í 7,6% eftir að hafa toppað í 10,2% í febrúar á þessu ári. Þó svo að verðbólgan hafi hjaðnað undanfarna mánuði er hún enn langt yfir lögbundnu markmiði og gera spár greiningaraðila ráð fyrir að verðbólgan nemi 8,8% í ár.

Í júlímánuði bárust tíðindi af kaupum danska fyrirtækisins Coloplast á íslenska lækningavörufyrirtækinu Kerecis fyrir tæplega 175 milljarða króna. Í kringum söluna styrktist krónan um nærri 2% og virðast væntingar um innflæði erlends gjaldeyris skýra styrkinguna að stórum hluta.

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) lét sig varða íslensk efnahagsmál í nýrri skýrslu um stöðu íslenska hagkerfisins. Skýrslan varpar m.a. ljósi á skjóta viðspyrnu hagkerfisins, uppgang í ferðaþjónustu og kröftuga innlenda eftirspurn. Þar er einnig rík áhersla lögð á helstu áskoranir hagkerfisins, svo sem þráláta verðbólgu, slakan framleiðnivöxt og hvernig nýta megi betur þau tækifæri sem fólgin eru  í miklum fólksflutningum til Íslands.

Ísland er í 16. sæti í árlegri samkeppnishæfniúttekt IMD árið 2023 og stendur í stað á milli ára. Niðurstöðurnar endurspegla góða innviði Íslands og miklar framfarir í efnahagslegri frammistöðu. Þó ber að líta til þess að skilvirkni hins opinbera hefur ekki verið minni í átta ár og auk þess dregst Ísland lítillega aftur úr þegar kemur að skilvirkni atvinnulífs. Samhliða úttektinni eru einnig birtar niðurstöður úr stjórnendakönnun, þar sem stjórnendur íslenskra fyrirtækja eru beðnir um að útlista atriði sem þeir telja eftirsóknarverð við Ísland þegar kemur að því að stunda viðskipti. Þar kemur fram að hátt menntunarstig, aðlögunarhæfni hagkerfisins og opið og jákvætt viðhorf séu á meðal helstu styrkleika Íslands.

Viðskiptaráð býður upp á kynningar á skýrslunni. Nánari upplýsingar veita hagfræðingar ráðsins, Elísa Arna Hilmarsdóttir (elisa@vi.is) og Gunnar Úlfarsson (gunnaru@vi.is).

Skýrsluna má finna hér

Tengt efni

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf - 4. ársfjórðungur

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic ...
2. nóv 2023

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni. Þau hafa aftur á móti mikil áhrif á ...
26. jún 2023

Viðskiptaráð leitar að lögfræðingi

Starf lögfræðings Viðskiptaráðs er laust til umsóknar
4. mar 2023