Samkeppnishæfni Íslands stendur í stað

Niðurstöður úttektar IMD háskóla á samkeppnishæfni ríkja voru kynntar á fundi Viðskiptaráðs fyrr í dag

Ísland stendur í stað í 16. sæti í árlegri samkeppnishæfniúttekt IMD árið 2023. Í niðurstöðum sömu úttektar árið 2022 hafði samkeppnishæfni landsins aukist og færðist Ísland þá upp um fimm sæti, úr 21. sæti í það sextánda. Íslendingar reka enn lestina þegar horft er til Norðurlandanna en Danmörk hreppir fyrsta sæti á heimsvísu, annað árið í röð.

Niðurstöður úttektar IMD voru kynntar á fundi Viðskiptaráðs í nýju húsnæði Landsbankans við Reykjastræti 6, þriðjudaginn 20. júní. Upptöku frá fundinum má finna hér.

Síðasta áratug hefur samkeppnisstaða Íslands batnað hægt og bítandi en fyrir áratug síðan var Ísland tíu sætum neðar. Mestar framfarir á þessum tíma hafa orðið í skilvirkni atvinnulífs og samfélagslegum innviðum.

Skilvirkni hins opinbera ekki minni í átta ár

Við mat IMD á samkeppnishæfni ríkja er litið til fjögurra meginstoða og er þróun og staða Íslands nokkuð ólík á milli þessara þátta. Að þessu sinni dregur þó mest úr skilvirkni hins opinbera þar sem Ísland fellur úr 14. sæti niður í það nítjánda og hafnar þannig níu sætum neðar en meðaltal Norðurlandanna. Skilvirkni hins opinbera hefur raunar ekki mælst lægri í átta ár. Ástæða þess er meðal annars neikvæð þróun regluverks þar sem Ísland fellur um sex sæti á milli ára; og stofnanaumgjarðar þar sem Ísland fellur um alls níu sæti.

Efnahagsleg frammistaða batnar verulega

Kröftug viðspyrna á vinnumarkaði skilar okkur bættri stöðu í efnahagslegri frammistöðu, úr 56. sæti í 45. sæti. Þar hækkar undirflokkurinn atvinnustig um 22 sæti á milli ára sem skilar okkur 13. sæti. Ísland er þó enn eftirbátur annarra þróaðra ríkja þegar kemur að efnahagslegri frammistöðu. Þar stöndum við mjög illa þegar kemur að erlendri fjárfestingu og alþjóðaviðskiptum en bæði atriði hafa þróast til verri vegar undanfarinn áratug. Þrátt fyrir að hækka um þrjú sæti á milli ára hvað alþjóðaviðskipti varðar skipar Ísland 55. sæti af 64 í úttektinni, talsvert langt frá nágrönnum okkar á Norðurlöndunum. Þá lækkar Ísland um tvö sæti hvað alþjóðlega fjárfestingu varðar og situr þar með í 51. sæti.

Skilvirkni atvinnulífs dregst saman í fyrsta sinn í áratug

Skilvirkni íslensks atvinnulífs fellur um tvö sæti milli ára, úr 8. í 10. sæti. Allir undirþættir mælikvarðans eru á niðurleið að vinnumarkaðnum undanskildum. Þrátt fyrir það stöndum við þó enn framarlega þegar kemur að stjórnarháttum fyrirtækja, viðhorfi og gildismati. Það sem kemur niður á Íslandi er framleiðni og skilvirkni þar sem við sitjum í 60. sæti af 64 ríkjum þegar kemur að launakostnaði í framleiðslugreinum á vinnustund. Þá er viðskiptaumhverfið aðeins í meðallagi aðlaðandi fyrir erlent starfsfólk en á þeim mælikvarða situr Ísland í 37. sæti.

Stöðugar framfarir samfélagslegra innviða

Samfélagslegir innviðir halda áfram að styrkjast milli ára en þar færist Ísland upp um eitt sæti, úr því áttunda í 7. sæti. Þar vegur þyngst aðgengi að endurnýjanlegri orku og vöxtur í rannsóknum og þróun. Aftur skipum við efsta sætið hvað varðar nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og erum í 2. sæti á sviði hlutfalls starfandi við rannsóknir og þróun. Mikil tækifæri eru þó til framfara í þessum flokki þar sem hlutfallslega fáir útskrifast úr raunvísindum hérlendis en í þeim samanburði er Ísland í 53. sæti og lækkar um sjö sæti á milli ára.

Írland hástökkvari ársins en Danmörk heldur forystunni

Danir halda forystunni og skipa 1. sæti annað árið í röð með góðri frammistöðu á öllum mælikvörðum. Sem dæmi skipar Danmörk fyrsta sæti í skilvirkni atvinnulífsins og bætir sig á milli ára á mælikvarða skilvirkni hins opinbera. Hástökkvari ársins, Írland, stekkur upp um níu sæti á milli ára og veltir þannig Sviss úr öðru sæti listans en hækkunina má fyrst og fremst skýra með bættri efnahagslegri frammistöðu. Þrátt fyrir lækkun á milli ára heldur Sviss fyrsta sæti í skilvirkni hins opinbera og innviðum en þar hefur skilvirkni atvinnulífs aftur á móti minnkað á milli ára.  

Á eftir Sviss eru Singapúr, Holland og Taívan. Athygli vekur að Norðurlöndin, að Danmörku og Íslandi undanskildum, lækka öll milli ára og skipar Svíþjóð nú 8. sæti, Finnland 11. sæti og Noregur 14. sæti. Þar kemur helst til slök frammistaða Norðurlandanna í skilvirkni atvinnulífs en þar féllu þau að meðaltali um rúmlega fimm sæti á milli ára.

Tengt efni

Nauðsynlegt er að tryggja samkeppnishæfan vinnumarkað

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ...
15. mar 2023

Samkeppnishæfni Íslands eykst á árinu 2022

Ísland bætir samkeppnishæfni sína og færist upp í 16. sæti samkvæmt greiningu IMD
15. jún 2022

Ógnar nýsköpun þjóðaröryggi?

Hagsmunir af því að fæla ekki enn frekar burt erlenda fjárfestingu eru ...
21. nóv 2022