Viðskiptaþing: Kerfisbreytingar gera okkur kleift að fá meira fyrir minna

Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs, sagði í ávarpi sínu á Viðskiptaþingi, sem nú stendur yfir, að spurningin „hvernig má innleiða breytingar hjá hinu opinbera?“ snerti alla í íslensku samfélagi.

Hreggviður talaði um að langtímastefna liði fyrir dægurþras þegar komi að stjórnmálum og hinu opinbera. Rík tilhneiging sé til að leita skyndilausna og nálgast stór verkefni með bútasaumi. Hann sagði það vera skýra afstöðu Viðskiptaráðs að grundvöllur bættra lífskjara felist í langtímastefnu þar sem áhersla er lögð á bætta samkeppnishæfni og þar með aðstæður til verðmætasköpunar.

Ákvörðun um umfang þjónustu hins opinbera er jafnvægislist

Hreggviður sagði skoðanakönnun sem Viðskiptaráð lét framkvæma í aðdraganda Viðskiptaþings hafa leitt í ljós að margir vilji mikið fyrir lítið. Stór hluti Íslendinga telji skattbyrði sína of háa en telji á sama tíma ónauðsynlegt að minnka opinber umsvif. Hreggviður sagði ákvörðun um umfang þjónustu hins opinbera vera jafnvægislist sem snúist um forgangsröðun og skilvirka nýtingu fjármuna. Á undanförnum áratugum hafi vantað mikið upp á að þessi sjónarmið hafi verið höfð að leiðarljósi. Aðhaldsaðgerðir hins opinbera á síðustu árum hafi að mestu leyti verið í formi skattahækkana og samdrætti í fjárfestingu, sem seint yrði talin varanleg hagræðing.

Opinberum starfsmönnum fjölgar á meðan starfsmönnum í einkageiranum fækkar

Hreggviður ræddi um mikilvægi aukinnar framleiðni. Í því samhengi vakti hann athygli á því að einkageirinn hafi skapað sívaxandi verðmæti á hverja vinnueinungu á undanförnum árum. Opinberi geirinn hafi hins vegar setið eftir. Þannig hafi stöðugildum hjá hinu opinbera fjölgað um 30% á sama tíma og stöðugildum í einkageiranum hafi fækkað um 7% á sama tímabili. Sagði Hreggviður að þessi þróun væri ósjálfbær.

Brýnt að innleiða kerfisbreytingar sem auka framleiðni

Í máli Hreggviðs kom fram að með aðgerðum sem byggja á skynsamlegum markmiðum mætti komast hjá verulegri lífskjaraskerðingu Íslendinga á komandi árum. Sagði hann brýnt og tímabært að innleiða kerfisbreytingar sem geri okkur kleift að fá meira fyrir minna. En til þess að það sé mögulegt þurfi ný viðhorf.

Hreggviður sagði umræðuhefð stjórnmálanna hafa mikil áhrif á afstöðu til breytinga. Mikill munur sé á því að vera sammála um allt og sammála um ekkert. Þegar upp sé staðið séum við sammála um miklu fleiri mál en umræðan gefur tilefni til að ætla. Sagði Hreggviður stjórnmálin þurfi að velja sér betur orrustur. Hagkvæmari rekstur hins opinbera sé öllum til hagsbóta og óttinn við breytingar megi ekki standa bættum lífskjörum fyrir þrifum.

Erindi Hreggviðs má nálgast hér.

Tengt efni

Viðskiptaráð ítrekar ábendingar um atriði sem stríða gegn almannahagsmunum

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur (167. mál).
20. okt 2022

Virkjum fallega

Skiptar skoðanir eru um raforkuframleiðslu á Íslandi. Dæmin sanna að ...
24. ágú 2022

Velkomin til framtíðarinnar, árið 2003

Landvernd kynnti tillögur um orkuframleiðslu og -skipti til ársins 2040 án ...
27. jún 2022