Konráð S. Guðjónsson verður aðstoðarframkvæmdastjóri og Steinar Þór Ólafsson er nýr sérfræðingur í samskiptum og miðlun.
Konráð S. Guðjónsson verður nýr aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands frá og með 1. júlí. Konráð hefur starfað sem hagfræðingur ráðsins frá ársbyrjun 2018 og mun áfram gegna því hlutverki. Konráð starfaði áður í þrjú ár sem sérfræðingur í greiningardeild Arion banka. Þar áður starfaði hann um hríð sem hagfræðingur á skrifstofu forseta Tansaníu, hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og var starfsnemi hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í í Úganda. Konráð hefur kennt hagfræði fasteignamarkaðarins hjá Endurmenntun Háskóla Íslands og veitt leiðsögn við laxveiði svo eitthvað sé nefnt.
Konráð er með meistaragráðu í hagfræði frá Warwick háskóla í Bretlandi og BS-próf í hagfræði frá Háskóla Íslands.
Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs segir ráðið spennt að fá Konráð í þetta nýja hlutverk. „Konráð hefur gengt lykilhlutverki við greiningar Viðskiptaráðs á íslensku efnahags- og atvinnulífi, sem iðulega hafa vakið athygli fyrir gagnrýna, en um leið ferska nálgun. Við erum spennt að fá hann í þetta nýja hlutverk samhliða greiningunum sem mun efla starfsemi ráðsins enn frekar.“
Þá hefur Steinar Þór Ólafsson verið ráðinn sem sérfræðingur í samskiptum og miðlun til Viðskiptaráðs Íslands. Steinar Þór mun jafnframt taka þátt í málefnastarfi ráðsins sem og annarri daglegri starfsemi. Hann hefur störf í lok ágúst.
Steinar Þór starfaði áður sem markaðsstjóri Skeljungs og þar á undan sem stafrænn stjórnandi N1. Hann er liðtækur pistlahöfundur á Rás 1 ásamt því að skrifa greinar og flytja erindi um vinnumenningu.
Steinar Þór er með MBA frá Háskólanum í Reykjavík og B.Sc. í íþróttavísindum frá tækni- og verkfræðideild HR.
Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segist spennt að fá Steinar Þór til liðs við Viðskiptaráð: „Hann hefur fjölbreytta reynslu og þekkingu sem mun nýtast vel í störfum ráðsins.“