Nauðsynlegt að endurskoða íhlutunarheimildir Samkeppniseftirlitsins

Sameiginlegur fundur Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um inngrip stjórnvalda á mörkuðum fór fram á Grand Hótel Reykjavík þriðjudaginn 26. apríl.

Á fundinum fjallaði Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, um markaðsrannsóknir og sagði þær geta verið gagnlegt framlag til uppbyggingar á heilbrigðu samkeppnisumhverfi. Frosti sagði að ef nýta eigi markaðsrannsóknir sem forsendu íhlutunar á mörkuðum þá hljóti gæðakröfur til þeirra að vera miklar. Í því samhengi fjallaði hann um úttekt Samkeppniseftirlitsins á eldsneytismarkaðnum og sagði Viðskiptaráð gera ýmsar athugasemdir við hana.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir hdl., lögmaður á LEX lögmannsstofu, fjallaði í kjölfarið um heimildir Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar á mörkuðum án þess að fyrirtæki hafi gerst brotleg við bannákvæði samkeppnislaga. Heiðrún bar saman heimild eftirlitsins við það sem þekkist annars staðar. Í erindi hennar kom fram að heimildir íslenskra samkeppnisyfirvalda væru mjög rúmar í alþjóðlegum samanburði og beiting þeirra gæti jafnvel brotið gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði það eiga að vera forgangsmál samkeppnisyfirvalda á komandi árum að snúa sér að mörkuðum þar sem hið opinbera er allsráðandi og samkeppni lítil fyrir vikið. Benti hann á að eignarhald ríkisins sé allsráðandi á mörkuðum á borð við orkuvinnslu, heilbrigðis- og menntakerfi, fjölmiðlamarkaði og fjármálamarkaði. Að lokum sagði Þorsteinn mikilvægt að auka framleiðni og renna þannig styrkari stoðum undir lífskjör. Þar skipti virk samkeppni miklu máli.

Að loknum erindum fóru fram pallborðsumræður undir stjórn Hrundar Rudolfsdóttur, forstjóra Veritas, þar sem Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, og Ingunn Agnes Kro hdl., lögfræðingur Skeljungs, tóku þátt ásamt frummælendum.

Myndir frá fundinum eru aðgengilegar hér

Glærur:

Tengt efni

Hollráð um heilbrigða samkeppni, 2. útgáfa

Uppfærð útgáfa af Hollráðum um heilbrigða samkeppni hefur nú litið dagsins ljós.
9. des 2021

Nú er bara að hefjast handa

Á Skattadeginum 2022 var sjónum beint að nauðsynlegum umbótum í íslensku skattkerfi
13. jan 2022

Regluráð - sameiginlegur flötur?

Hægðarleikur ætti að vera fyrir ríkisstjórnarflokkana að bæta umhverfi ...
10. nóv 2021