Pásutakkinn sem beðið var eftir

Viðskiptaráð Íslands fagnar nýjasta útspili ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í hádeginu í dag.

Viðskiptaráð Íslands fagnar nýjasta útspili ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í hádeginu í dag. Líkt og fram kom í umsögnum Viðskiptaráðs um síðasta aðgerðarpakka þurfa aðgerðir stjórnvalda að auðvelda fyrirtækjum að komast í gegnum mesta storminn en jafnframt gera nauðsynlega aðlögun sem sársaukaminnsta. Nýjustu aðgerðirnar eru í takt við það markmið með því að framlengja hlutastarfaleið auk þess að auðvelda endurskipulagningu reksturs fyrirtækja í takt við gjörbreyttar forsendur og á meðan staðan skýrist.

Það er ljóst að fyrirtæki hafa nýtt sér hlutastarfaleið í miklum mæli og skynsamlegt er að framlengja það úrræði fram til haustsins. Jafnframt mun stuðningur við fyrirtæki vegna launakostnaðar á uppsagnarfresti skipta sköpum, en áætlað er að um fjórðungur fyrirtækja hafi orðið fyrir 75%-100% tekjutapi.

Líkt og sjá má í nýju haglíkani Viðskiptaráðs er líklegt að áfallið verði það mesta í 100 ár og mesti efnahagssamdráttur frá upphafi mælinga er raunhæfur möguleiki. Á slíkum hamfaratímum er nauðsynlegt að lagaumgjörð geti lagað sig hratt að aðstæðum og að rýmkaðar heimildir bjóði upp á sveigjanleika að því marki sem er æskilegt. Því er ánægjulegt að sjá tímabundna einföldun á reglum um fjárhagslega endurskipulagningu sem geta veitt fyrirtækjum skjól á meðan staða þeirra og framtíðarhorfur eru metnar. Sú nálgun mun jafnframt létta á dómstólum og minnka kostnað og fyrirhöfn fyrirtækja.

Mikilvægt er að stjórnvöld reyni í senn að milda höggið á fólk og fyrirtæki, sjái til þess að faraldurinn og aðgerðir hans vegna valdi sem minnstum skaða og búi í haginn fyrir viðspyrnu efnahagslífsins. Viðskiptaráð mun sem fyrr halda vökulu auga á útfærslum ofangreindra úrræða. Í slíku ölduróti sem samfélagið allt fer nú í gegnum má þó segja að viðbótarpakki ríkisstjórnarinnar sé pásutakkinn sem beðið var eftir.

Tengt efni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni. Þau hafa aftur á móti mikil áhrif á ...
26. jún 2023

Marel hlaut viðurkenningu fyrir sjálfbærniskýrslu ársins

Viðurkenning fyrir sjálfbærniskýrslu ársins var veitt í hádeginu við hátíðlega ...
8. jún 2023

Viðskiptaráð fagnar stuðningi við nýsköpunar- og þróunarstarf

Umsögn Viðskiptaráðs um breytingu á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki ...
2. jún 2022